Randy Rhoads gat látið gítarinn tala tungum.
Randy Rhoads gat látið gítarinn tala tungum. — Flickr.com
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fjörutíu ár eru um helgina liðin frá því að gítarleikarinn Randy Rhoads fórst í flugslysi í Flórída, aðeins 25 ára að aldri. Hann var mörgum harmdauði en hafði djúpstæð áhrif á stuttum ferli. Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is

Eftir velheppnað gigg í Knoxville Civic Coliseum í Tennessee að kvöldi 18. mars 1982 héldu málmgoðið Ozzy Osbourne og band hans sem leið lá með tónleikarútu sinni til Orlando í Flórída, þar sem troða átti upp á rokkhátíð nokkurri. Ozzy sparaði ekki áfengið við sig á leiðinni, fremur en fyrri daginn, sem varð til þess að gítarleikari bandsins, Randy Rhoads, spjaldaði hann um nóttina: „Þú veist að þú átt eftir að drepa þig á þessu, dag einn.“ Síðan tóku þeir félagar á sig náðir. Ozzy óraði ekki fyrir því þá en þetta urðu síðustu orðin sem hann heyrði af vörum Rhoads.

Ekið var alla nóttina en komnir til Flórída numu menn staðar í Leesburg árla morguns til að laga loftræstinguna í rútunni sem hafði bilað. Landareignin var í eigu sérleyfisbílafyrirtækisins Calhoun Brothers og þar var að finna flugbraut fyrir litlar flugvélar og þyrlur. Rútubílstjórinn, Andrew Aycock, sá sér leik á borði en hann bjó að einkaflugmannsprófi enda þótt hann hefði ekki endurnýjað réttindin í þrjú ár. Aycock tók Beechcraft Bonanza-vél sem var á brautinni ófrjálsri hendi og flaug nokkra hringi yfir svæðið með Don Airey hljómborðsleikara og Jack Duncan tónleikastjóra. Einhverjum þótti hann fljúga óþægilega nálægt rútunni, þar sem flestir úr hópnum sváfu á sínu græna. Tilgangurinn var víst að vekja Tommy Aldridge trommuleikara.

Förðunarmeistari hópsins, Rachel Youngblood, vildi líka komast í stutt útsýnisflug og úr varð að fyrrnefndur Randy Rhoads slóst í hópinn. Hann var ákaflega flughræddur en eftir að Aycock hafði fullvissað hann um að hann myndi fara varlega vegna þess að hin 58 ára gamla Youngblood væri veil fyrir hjarta sló Rhoads til. Hann langaði að taka loftmyndir og senda móður sinni. Rhoads reyndi að fá Rudy Sarzo bassaleikara með sér en hann vildi frekar sofa aðeins lengur.

Að sögn sjónarvotta var Aycock staðráðinn í að „vekja“ rútuna. Flaug í tvígang mjög nærri henni og reyndi í þriðja sinn. Þá vildi hins vegar ekki betur til en að hann rak annan vænginn í þak rútunnar með þeim afleiðingum að hann klofnaði í tvennt og flugmaðurinn missti alla stjórn á vélinni. Hún rakst í framhaldinu á nærliggjandi tré áður en hún hrapaði á bílskúr óðals í grenndinni, þar sem hún var í ljósum logum. Rhoads, Youngblood og Aycock létust öll samstundis. Lík þeirra voru svo illa leikin eftir brunann að styðjast þurfti við tannlæknaskýrslur og persónulega skartgripi þeirra til að bera kennsl á þau. „Þau voru öll í bútum, líkamspartar úti um allt,“ segir Sharon Osbourne, eiginkona Ozzys, í endurminningum sínum, en hún vaknaði þegar vélin rakst á rútuna.

Don Airey varð vitni að slysinu – og slapp raunar með skrekkinn. Hann stóð þar álengdar og tók ljósmyndir sem hann ætlaði að gefa Rhoads. Honum fannst eins og menn væru að takast á um borð; vængir vélarinnar blöktu ótt og títt og um tíma varð hún hornrétt, aðeins um mannshæð frá jörðu. Airey lagði frá sér myndavélina og náði með naumindum að henda sér niður áður en vélin hæfði hann. Andartaki síðar sá hann hana út undan sér rekast í rútuna.

Rudy Sarzo rifjar í endurminningum sínum upp að hann hafi vaknað við áreksturinn og séð Jack Duncan æða um í angist sinni og hrópa: „Þau eru dáin, þau eru dáin!“

Tommy Aldridge greip slökkvitæki og hljóp í átt að brennandi flakinu – en fékk ekki við neitt ráðið.

Ozzy vaknaði einnig með andfælum og hélt fyrst að rútan hefði lent í árekstri við aðra bifreið. Hann gagnrýndi síðar hversu lengi viðbragðsaðilar hefðu verið á vettvang; enginn hefði komið í hér um bil hálftíma.

Fréttir af slysinu bárust hratt og unnusta Rhoads, Jody, var undir stýri á bíl sínum þegar útvarpsstöð nokkur byrjaði að leika hvert lagið af öðru af plötunni Blizzard of Ozz með Ozzy Osbourne áður en útvarpsmaðurinn greindi frá slysinu og að Rhoads væri látinn.

Rudy Sarzo minnist þess að hafa fundið kirkju nærri hótelinu sem hópurinn ritaði sig inn á eftir slysið. Þegar hann kom inn var hún tóm, fyrir utan einn mann sem grét hástöfum nærri altarinu. Augljós sorg hans hreyfði við Sarzo. Þegar maðurinn spurði svo „af hverju, af hverju?“ áttaði bassaleikarinn sig á því að þetta var Ozzy Osbourne.

Með kókaín í blóðinu

Einhverjir töldu sig hafa séð Aycock neyta kókaíns fyrir slysið og krufning leiddi í ljós að hann var með efnið í blóðinu. Þá var hann illa sofinn; hafði ekið alla nóttina. Síðar kom í ljós að hann hafði einnig verið undir stýri þegar þyrla fórst í Sameinuðu arabísku furstadæmunum sex árum áður með þeim afleiðingum að farþegi lést. Sarzo heldur því fram í endurminningum sínum að Sharon Osbourne hafi vitað um þetta atvik og hellt sér yfir Duncan eftir slysið og spurt hvernig honum hafi dottið í hug að hleypa ósofnum manni undir áhrifum fíkniefna upp í flugvél með farþegum.

Þar með lauk stuttu en gifturíku samstarfi Randys Rhoads og Ozzys Osbournes. Sá síðarnefndi hafði verið rekinn úr Black Sabbath 1979 og þegar hann freistaði þess að setja á laggirnar sólóband var honum bent á Rhoads, sem þá var í Quiet Riot. Ozzy hefur marglýst að hann hafi ekki vitað hvaðan á sig stóð veðrið þegar Rhoads, sem var með bakgrunn í klassík, hóf að gæla við hljóðfærið. Þar kvað sannarlega við nýjan tón. Saman gerðu þeir tvær plötur, Blizzard of Ozz (1980) og Diary of a Madman (1981). Tónleikaplatan Tribute kom út fimm árum eftir andlát Rhoads. Á bakhlið albúmsins komst Ozzy svo að orði:

„19. mars 1982 mun aldrei líða mér úr minni. Þá missti ég ekki aðeins besta vin minn, heldur færasta tónlistarmann sem ég hafði kynnst. [...] Guð blessi þig, Randy vinur minn.“