Það virtist fátt geta komið í veg fyrir að ríkjandi Englandsmeistarar Manchester City í knattspyrnu myndu verja titilinn fyrir nokkrum vikum. City var með 13 stiga forskot á toppi deildarinnar hinn 15.
Það virtist fátt geta komið í veg fyrir að ríkjandi Englandsmeistarar Manchester City í knattspyrnu myndu verja titilinn fyrir nokkrum vikum.

City var með 13 stiga forskot á toppi deildarinnar hinn 15. janúar eftir 1:0-sigur gegn Chelsea í toppslag deildarinnar en það var jafnframt tólfti sigurleikur City í röð í deildinni. Síðan þá hefur liðið hikstað og gert tvö jafntefli og tapað einum leik í síðustu sjö deildarleikjum sínum.

Liverpool hefur heldur betur nýtt sér misjafnt gengi City-manna og er nú einungis stigi á eftir Englandsmeisturunum með 69 stig í öðru sætinu á meðan City er í því efsta með 70 stig.

Liverpool hefur verið á miklu skriði í deildinni og síðan liðið gerði 2:2-jafntefli gegn Chelsea á Stamford Bridge 2. janúar hefur liðið nú unnið níu deildarleiki í röð.

Hvort landsleikjahléið sem gengur í garð eftir helgina komi á góðum tíma fyrir Liverpool skal látið ósagt en landsleikjahléin hafa oft valdið stjórum toppliðanna í deildinni miklum hausverk, sér í lagi þegar lykilmenn hafa komið til baka meiddir.

Pep Guardiola , stjóri City, fagnar því eflaust að fá landsleikjahléið á þessum tíma til þess að stilla saman strengina fyrir lokasprettinn á meðan Jürgen Klopp, stjóri Liverpool, er eflaust ekkert allt of sáttur við tímasetninguna enda hans menn á miklu skriði.

Það stefnir alla vega í mjög spennandi lokaumferðir í ensku úrvalsdeildinni, nokkuð sem fáir sáu fyrir í janúar, og það er eitthvað sem allir knattspyrnuáhugamenn hljóta að fagna.