Í Torvehallerne Feðginin Arndís Anna og Björgvin Finnsson.
Í Torvehallerne Feðginin Arndís Anna og Björgvin Finnsson.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is Systkinin Björgvin og Vigdís Finnsbörn hafa verið með fjölskyldurekstur í Kaupmannahöfn undanfarin 15 ár og hefur gengið á ýmsu.

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Systkinin Björgvin og Vigdís Finnsbörn hafa verið með fjölskyldurekstur í Kaupmannahöfn undanfarin 15 ár og hefur gengið á ýmsu. Þegar mest var ráku þau átta Boutique Fisk-verslanir og sjö Retreat-veitinga- og kaffistaði, en um áramótin lokuðu þau síðasta Retreat-staðnum og hafa einbeitt sér að tveimur fiskbúðum síðan. „Kórónuveirufaraldurinn hefur farið illa með reksturinn, þetta hefur verið rússíbani upp og niður en nú er farið að birta til á ný,“ segir Björgvin.

Vigdís flutti út 1999, kynntist og giftist Jesper Lehmann og var sérkennari þar til þau opnuðu fyrstu Boutique Fisk-verslunina í Frederiksberg 2007. „Jesper og Björgvin voru eitt sinn í maraþoni hérna og eftir að hafa hlaupið um allt fengu þeir þessa hugmynd,“ segir hún. Björgvin lærði meðal annars í Danmörku, lék handbolta og fótbolta með KR og Gróttu og var yfirþjálfari knattspyrnudeildar og íþróttafulltrúi Gróttu ásamt því að kenna við grunnskólann á Seltjarnarnesi þegar ákvörðun um reksturinn var tekin.

Í rekstrinum af lífi og sál

„Mig langaði alltaf til þess að flytja hingað aftur og hugmyndin varð að veruleika eftir að hafa þróast í um tvö ár.“ Hann tók Kristján Haraldsson kokk, sem hann þekkti frá því á árum áður úr fótboltanum, með sér og þau settu allt í fyrirtækið. „Um þremur mánuðum eftir að við opnuðum verslunina bauð Jón Björnsson, þáverandi forstjóri Magasin du Nord, okkur að vera í kjallara magasínsins og við höfum verið þar síðan en á fyrstu þremur árunum opnuðum við sjö búðir til viðbótar.“ Hin verslunin sem eftir er er í mathöllinni Torvehallerne.

Upphaflega stóð til að bjóða upp á ferskan íslenskan fisk en fljótlega fóru þau út í ákveðna sérhæfingu og hafa síðan fyrst og fremst boðið upp á danskar fiskibollur með rúgbrauði, remúlaði og kartöflusalati í mathöllinni, en líka ferskan fisk, tapasrétti og tilbúna fiskrétti til þess að setja í ofninn í Magasin du Nord. „Við erum eins og Bæjarins beztu pylsur á Íslandi, fólk kemur til okkar til þess að fá fiskibollur,“ segir Björgvin og bendir á að þau hafi fjórum sinnum verið á Hróarskelduhátíðinni og selt þar um 1.500 stykki á dag.

Í báðum verslunum er hægt að borða á staðnum eða taka fiskinn með sér. Retreat byrjaði fyrir um sjö árum og var meðal annars á Kastrupflugvelli. Þar var boðið upp á kaffi, samlokur, súpur, skyr og grauta. „Til að byrja með vorum við bara þrjú með reksturinn og einn starfsmann en þegar Retreat var í sem mestum blóma vorum við með tæplega 100 starfsmenn. Nú eru þeir rúmlega 20, flestir danskir og íslenskir nemendur í hlutastarfi, og Arndís Anna, önnur dóttir mín, er verslunarstjóri á stað okkar í Torvehallerne.“

Erfiðleikarnir í rekstrinum hafa vissulega tekið á og Björgvin segir að þau hafi þurft að fórna miklu til þess að láta dæmið ganga upp. „Við höfum lagt líf og sál í þetta, Boutique Fisk er opin alla daga þannig að vinnudagurinn er langur og viðveran mikil.“ Hann bætir við að þótt öllum takmörkunum vegna veirunnar hafi verið hætt hafi tekið tíma að ná fyrri dampi. „Fólk hafði áfram varann á en um leið og fór að hlýna í byrjun mars færðist meira líf í allt og nú er gangurinn ágætur.“