Guðbjörg Guðmundsdóttir fæddist að Hafþórsstöðum í Norðurárdalshreppi í Mýra- og Borgarfjarðarsýslu þann 28. maí 1927. Hún lést á dvalarheimilinu Höfða á Akranesi 12. janúar 2022. Foreldrar hennar voru Jónína Soffía Davíðsdóttir og Guðmundur Gíslason, bændur á Svartagili og víðar. Alsystkini hennar voru Ragnheiður, f. 1924, d. 1977; Guðlaugur Bjarni, f. 1925, d. 2011. Samfeðra var Kristvin, f. 1927, d. 2016. Sammæðra Skeggi Ásbjarnarson, f. 1911, d. 1981.

Árið 1952 giftist Guðbjörg Sæmundi Helgasyni og eignuðust þau saman fimm börn. Þau eru Jón Bjartmar, f. 1954, d. 2016, hann á eina dóttur; Sigríði Sigurborgu, f. 1957, hennar maður er Valgeir Sigurðsson úr Reykjavík, saman eiga þau fjögur börn; Halldóru, f. 1959, maður hennar er Ragnar Viktor Karlsson úr Reykjavík, hún á á þrjú börn; Guðrúnu, f. 1960, hún á fjögur börn; Helga, f. 1962, hann á eina dóttur. Fyrir átti Guðbjörg einn son, Guðmund Andrésson, f. 1948, d. 2011, hans kona var Guðrún Jónsdóttir úr Reykjavík.

Guðbjörg bjó með foreldrum sínum á bænum Svartagili á árunum 1930-46 og þaðan fluttu þau á Veiðilæk. Guðbjörg og Sæmundur fluttu árið 1958 ásamt Guðmundi, föður sínum, og Guðmundi, syni sínum, að Galtarlæk í Skilmannahreppi (nú Hvalfjarðarsveit). Galtarlæk keyptu þau saman og þar var hún bæði húsfreyja og bóndi.

Guðbjörg gekk í Húsmæðraskólann á sínum yngri árum. Hún var mjög ánægð með námið þaðan og nýtti sér kunnáttu sína í eldhúsinu og ýmiss konar handavinnu alla tíð. Hún prjónaði mikið og þegar sjóninni hrakaði fann hún nýjar leiðir til þess að vinna í höndunum. Þá fór hún meðal annars að mála á dúka og teikna myndir.

Guðbjörg hóf störf í mötuneytinu hjá Ístaki og síðar hjá Íslenska járnblendifélaginu á Grundartanga. Þangað átti að ráða hana í þrjá daga til reynslu sem endaði með sautján ára starfsferli.

Guðbjörg og Sæmundur voru í mikilli trjáræktun við Galtarlæk og þar var kominn dágóður skógur allt um kring þar sem áður var allt autt. Sæmundur var virkur í samtökunum SÓL í Hvalfirðinum og Guðbjörg studdi hann í því eins og flestu öðru.

Ásamt þessu var hún virk í kvenfélaginu Björk um margra ára bil.

Útför Guðbjargar hefur farið fram í kyrrþey að hennar ósk.

Elsku mamma mín! Skrýtið og erfitt að skrifa síðasta bréfið til þín. En mikið sem ég á af fallegum, skemmtilegum og þakklátum stundum með þér í minningabankanum sem er svo notalegt að rifja upp, brosa og hlæja að. Allar okkar ferðir í berjamó, tónleika, leikhús og kaffihús og svo fórum við í margar ferðir í gegn um kaffibollalesturinn.

Ég vil þakka þér af öllu mínu hjarta fyrir allt það sem þú gafst mér og gerðir fyrir mig og börnin mín.

Þú varst og ert verndarengillinn minn.

Guð geymi þig. Takk fyrir allt og allt.

Þín dóttir,

Halldóra (Dóra).

Elsku tengdamamma. Margs er að minnast við kveðjustund.

Ég minnist góðra stunda á Galtalæk þar sem þú tókst ávallt á móti mér með kærleika, hlýju og brosi. Þér þótti gaman að fá gesti og varst afar gestrisin. Það voru ánægjulegar stundir sem við áttum saman við eldhúsborðið á Galtalæk þar sem við drukkum kaffi og spjölluðum.

Þú varst bóndakona af Guðs náð og undir þér vel í sveitinni og við bústörfin. Þú varst náttúrubarn og elskaðir íslenska náttúru og dýrin. Þér var afar annt um fjölskyldu þína, ættingja og vini og þess fékk ég að njóta frá því við kynntumst og þar til þú fékkst hvíldina frá þessu jarðneska lífi.

Það var gaman að heimsækja þig á Höfða, drekka með þér kaffi og spjalla um liðna tíma. Þeir voru ófáir bollarnir sem við settum yfir ofninn og lásum úr.

Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst þér og fengið að njóta kærleika þíns og hlýju og fyrir allar þær samverustundir sem við áttum.

Þegar leiðir skilur eru það ljúfu minningarnar í hjartanu sem lifa.

Takk fyrir allt elsku Bogga.

Ragnar Viktor Karlsson.