Reykjavík hefur alla burði til að vera leiðandi sveitarfélag á landinu. Vegalengdir eru stuttar en samt er landslagið fjölbreytt. Auðvelt er að koma sér á stað til að njóta útsýnis yfir sjó og fjöll. Að mestu leyti er stutt í alla þjónustu. Mikilvægustu opinberu stofnanirnar eru í miðbæ Reykjavíkur. Innanlandsflugvöllur er þar steinsnar frá, landsbyggðinni til heilla. Sem bornum og barnfæddum Reykvíkingi finnst mér almenningslaugarnar standa upp úr í borgarlífinu, þar er hægt að huga að líkamsrækt sem og þjálfa hugann með samtölum við aðra góða og gegna pottverja.
Í grunninn er borgin frábær.
Skipulagsstefna Reykjavíkurborgar hefur um langt skeið verið reist á þeirri forsendu að þétta þurfi byggð og þrengja þurfi að einkabílnum. Þessi nálgun sem og aðferðin við að úthluta lóðum er til þess fallin að styðja við hækkandi fasteignaverð. Stefnan leiðir óhjákvæmilega til lóðaskorts. Nægt er þó byggingarlandið. Skortur á fjárfestingum í samgöngumannvirkjum hægir á umferð og leiðir til aukins kostnaðar fyrir almenning. Þessu þarf að breyta. Það er hægt að stækka borgina til austurs samhliða því sem greitt er fyrir umferð allra. Aukið lóðaframboð í nýjum hverfum styður við það markmið að jafnvægi náist á fasteignamarkaði. Auðveldara verður þá fyrir ungt fólk að festa kaup á sinni fyrstu íbúð.
Borgarstjórnarkosningarnar í vor geta orðið sögulegar. Koma þarf núverandi meirihluta borgarstjórnar frá völdum. Til þess þarf Sjálfstæðisflokkurinn að standa saman og ná góðri kosningu. Styrkjum stoðir Sjálfstæðisflokksins í dag með því að taka þátt í prófkjörinu og tryggjum að listi flokksins verði sigurstranglegur.
Með viljann að vopni gerum við Reykjavík að borg tækifæranna.
Höfundur óskar eftir stuðningi í 5. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík. helgigretarsson@gmail.com