Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir
Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir
Eftir Ragnhildi Öldu Maríu Vilhjálmsdóttur: "Ég veit að ég á samleið með stærstum hluta Reykvíkinga og er tilbúin til að þjóna þeim."

„Hvað vilt þú upp á dekk?“ sagði einn gamall í hettunni við mig þegar ég tilkynnti honum að ég ætlaði að bjóða mig fram til að leiða Sjálfstæðisflokkinn í Reykjavík. Einfaldasta svarið er sennilega: allt. Í námi sérhæfði ég mig í rekstri þjónustustofnana eins og Reykjavíkurborgar, ég hef margra ára reynslu af því að taka virkan þátt í flokksstarfinu og ég er alin upp í flokknum með foreldri og fjölskyldumeðlimi á þingi. Ég veit því mætavel hvað ég er að bjóða mig fram í og hvað flokksmenn kalla eftir í leiðtoga. Það þarf kjark og þor til að standa í lappirnar, en flokksmenn vilja líka einhvern sem kann að spila í liði, því ef þú ætlar að leiða lið þarftu að vera marktækur liðsfélagi.

Fyrirliðinn þarf að gefa skýr skilaboð um markmið og leiðir, hvetja liðsfélaga sína áfram og leggja sjálfur harðast að sér. Það er líka mikilvægt að muna í stjórnmálastarfi að fólk ætlast ekki til þess að allir séu sammála, þvert á móti. Það sem límir fólk úr ólíklegustu áttum saman er traust á því að jafnvel þegar fólk er ósammála sé hægt að komast niður á sameiginlega línu sem allir fylgja, til að passa upp á hagsmuni heildarinnar og samstarfsins. Slíkt traust er jafnframt forsenda þess að forsvarsmenn annarra flokka treysti þér í meirihlutasamstarf. Sömuleiðis má aldrei gleymast að þegar maður er í forsvari fyrir flokk þarf maður að vera til fyrirmyndar. Það er fyrsti og mikilvægasti samningurinn sem við stjórnmálamenn gerum við okkar kjósendur. Sá næsti er að standa með stefnumálum okkar sem við lofuðum kjósendum og líta á sig sem þjón almennings jafnt og leiðtoga.

Því hefur verið fleygt að hinir frambjóðendur flokksins verði að passa sig á því að tala sig ekki út í horn því ellegar gæti sú staða komið upp að aðrir flokkar vilji ekki mynda meirihluta með okkur. Þessu vísa ég á bug.

Sjálfstæðisflokkurinn verður aldrei stærsti flokkurinn í borginni með því að beygja sig undir stefnumál annarra flokka í kosningabaráttu. Það er ekki leiðandi stjórnmálaafl sem lætur stjórnmálamenn annarra flokka móta sín stefnumál. Af hverju ættu kjósendur að kjósa einn flokk umfram annan ef allir tala eins? Það er skylda okkar sem viljum vera í forsvari fyrir Sjálfstæðisflokkinn að vera trú okkar kjósendum, tala þeirra máli og berjast fyrir þeirra stefnumálum. Enginn verður góður foringi nema standa með eigin málstað.

Ég er klassískur sjálfstæðismaður. Frjálslyndur íhalds- og frjálshyggjumaður með vænum skammti af jafnaðarmanni. Ég veit hvaðan ég kem og hvert ég vil stefna. Ég gaf kost á mér til að leiða lista Sjálfstæðisflokksins vegna þess að ég veit að ég á samleið með stærstum hluta Reykvíkinga og er tilbúin til að þjóna þeim. Ég heiti ykkur því að standa með okkar góðu gildum fyrir fólkið í borginni. Það er kominn tími á Öldu breytinga og þess vegna óska ég eftir ykkar stuðningi í fyrsta sætið í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík sem fram fer í dag og á morgun.

Höfundur býður sig fram í 1. sæti í prófkjöri sjálfstæðismanna í Reykjavík. ragnhildur.alda.vilhjalmsdottir@reykjavik.is

Höf.: Ragnhildi Öldu Maríu Vilhjálmsdóttur