Valgeir Sigurjónsson fæddist á Patreksfirði 15. maí 1968. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Suðurlands í Vestmannaeyjum 13. mars 2022 eftir erfiða baráttu við MS-sjúkdóm.
Foreldrar Valgeirs voru Svanhvít Bjarnadóttir, f. 8.12. 1929, d. 10.1. 2018, og Sigurjón Árnason, f. 24.4. 1923, d. 15.4. 2010. Systkini Valgeirs eru: Bjarni Heiðar, Einar Árni og Sigfríður Guðbjörg.
Eftirlifandi eiginkona Valgeirs er Björg Ólöf Bragadóttir, f. 4.2. 1973. Börn þeirra eru Sigþór Örn, f. 6.12. 1999, og Sandra Dögg, f. 13.2. 2003.
Útförin fer fram frá Landakirkju í dag, 19. mars 2022, kl. 11. Hlekkur á streymi:
Tárin falla
sorgin snertir hjartað
mitt
og hugurinn reikar stjórnlaust
en hvert, veit ég ekki.
Lítið tré fellir laufin
eitt og eitt
uns þau hverfa
og koma ekki aftur.
Ég sé þig í huga
mínum
geymi allar minningar
um þig
í hjarta mínu
og dagurinn hverfur
út í buskann
og eilífðin sjálf
stoppar.
Eins og hörpustrengur
er hjarta mitt
þegar ég hugsa um
brosið þitt
eins og fallegur dagur
sem kemur og fer
lýsir stjarnan þín upp
hjá mér.
Með söknuð í hjarta og
tár á kinn
kveð ég þig
hjartans bróðir minn.
(SM)
Þín systir,
Sigfríður.
Valgeir var einn af þeim sem framkvæmdi hugmyndir sínar og alltaf hundrað prósent. Sumar eitt, þegar hann bjó í Reykjavík, hjólaði hann vestur ásamt vini sínum, Eggerti Eggertssyni. Þeir vinirnir hjóluðu gjarnan saman þvers og kruss um landið. Svona var Valgeir, ekkert hálfkák við neitt. Gott dæmi um það er hvernig hann hugsaði um bílana sína. Ég og fleiri mættum taka það til fyrirmyndar. Það var ekkert verið að reka ryksugustút í sætin og pússa hraðamælinn. Nei, hann tók sætin gjarnan úr og djúphreinsaði gólfið undir, svo bíllinn leit út eins og hann væri að koma úr verksmiðjunni. Nostrað við allt og hvergi slegið af kröfunum til sjálfs sín.
Valgeir var mikill fjölskyldumaður, ástríkur faðir og hugsaði vel um börn sín og bú.
Eftir að sjúkdómur hans fór að herja á hann af meiri þunga tók hann meðal annars til við að renna fagra gripi úr tré. Hann var afar handlaginn og ég og fleiri búum að því.
Elsku Björg, Sigþór Örn og Sandra Dögg, guð gefi ykkur styrk í minningunni um yndislegan föður, eiginmann og vin.
Egill Össurarson.
Mér til undrunar hafði Valli mjög fljótlega samband við mig. Við fórum í búð og keyptum fjallahjól ásamt helstu græjum sem fylgja ferðalögum á hjóli. Mér fannst þetta heldur bratt hjá honum, í engu formi, að ætla sér svona snögga lífsstílsbreytingu. En einu sinni sem oftar og æ síðan kom hann mér á óvart með seiglu sinni og þrjósku. Á nokkrum mánuðum var hann kominn með betra þol en ég. Ég bara skildi þetta engan veginn!
Næstu árin fórum við í margar dagsferðir í nágrenni Reykjavíkur. Við fórum norður og hjóluðum frá Akureyri, að Mývatni, meðfram Jökulsárgljúfri að Ásbyrgi, út Tjörnes, að Húsavík og aftur á Akureyri. Hlynur Leifs var stundum með okkur enda góður vinur okkar beggja.
Lengsta og eftirminnilegasta ferðin var þegar við hjóluðum frá Reykjavík til Patró. Við tókum reyndar Akraborgina á Skagann enda ekki fýsilegt að hjóla Hvalfjörðinn á þessum tíma. Allt í allt vorum við sex daga á leiðinni. Gistum m.a. á Laugum í Sælingsdal, Djúpadal og Birkimel. Köldust var vistin í einhverjum firðinum daginn áður en við komum á Birkimel þar sem við tjölduðum okkar ódýra tjaldi í roki og rigningu. Tjaldið lak og bara vesen. En okkur til mikillar ánægju komu foreldrar Valla til móts við okkur daginn eftir og færðu okkur dýrindis kaldar kótilettur og ég veit ekki hvað. Ég á eingöngu ljúfar minningar um Valla.
„The rest is history,“ eins og sagt er. Við héldum báðir á vit fjölskyldulífs, barneigna og svona. Sambandið varð slitrótt eins og gengur en taugin var alltaf sterk á milli okkar enda höfðu sterk bönd myndast á milli okkar í hjólaferðunum. MS-sjúkdómurinn tók Valla í lokin. Hvað getur maður sagt? Jú, vertu blessaður gamli vin og takk fyrir ómetanlegar stundir. Reyndu svo að víkka aðeins tónlistarsmekkinn hinum megin. Þú veist hvað ég á við.
Eggert Eggertsson (Eddi).