Ríkisfyrirtækið Íslandspóstur er ár eftir ár rekið með miklu tapi. Síðastliðin tvö ár hefur ríkið látið skattgreiðendur hlaupa undir bagga með fyrirtækinu og nemur reikningurinn hvort ár yfir hálfum milljarði króna.

Ríkisfyrirtækið Íslandspóstur er ár eftir ár rekið með miklu tapi. Síðastliðin tvö ár hefur ríkið látið skattgreiðendur hlaupa undir bagga með fyrirtækinu og nemur reikningurinn hvort ár yfir hálfum milljarði króna. Sé litið nokkur ár aftur í tímann er um þúsundir milljóna að ræða.

Þrátt fyrir þetta birti fyrirtækið í gær upplýsingar um afkomu sína í löngu máli og þar er varla hægt að finna upplýsingar um þetta ítrekaða og mikla tap. Þess í stað stendur á forsíðu fyrirtækisins á vefnum að niðurstöður ársskýrslunnar 2021 séu „mikið fagnaðarefni enda sýna þær fram á góðan árangur á sviði rekstrar, þjónustu og umhverfismála“.

Þegar smellt er til að lesa áfram er að finna yfir fimm hundruð orð frá forstjóranum þar sem ekki er minnst einu orði á styrk upp á 563 milljónir króna en látið eins og afkoman hafi verið jákvæð og batnað stórlega á milli ára.

Þeir sem hætta sér enn lengra og lesa ársskýrslu félagsins og sjálfbærniuppgjör finna yfir áttatíu fallega upp settar blaðsíður sem sýna glöggt það svigrúm sem er til sparnaðar hjá ríkisfyrirtækinu, en þar er framlag skattgreiðenda ekki nefnt einu orði.

Sé ársreikningurinn sjálfur lesinn vandlega má þó með góðum vilja og útsjónarsemi finna ríkisstyrkinn. Hann er nefndur í skýringu fimm, en heitir þar Tekjur vegna alþjónustuskyldu !