Gátan er sem endranær eftir Guðmund Arnfinnsson: Karlmannslimur leynist hér, Lykkja af honum geðjast mér. Landsins forni fjandi er. Fákur þetta heiti ber. Guðrún B. leysir gátuna svona: Göndull nefndur gráni er. Gráni hákarlslykkja.

Gátan er sem endranær eftir Guðmund Arnfinnsson:

Karlmannslimur leynist hér,

Lykkja af honum geðjast mér.

Landsins forni fjandi er.

Fákur þetta heiti ber.

Guðrún B. leysir gátuna svona:

Göndull nefndur gráni er.

Gráni hákarlslykkja.

Gráni kallast hafís hér.

Hrossið Gráni bikkja.

Þessi er lausn Helga R. Einarssonar:

Sem limur gráni leynist hér,

líka gráni hákarl er.

Gráni er heiti hafís á.

Í haganum má Grána sjá.

Sjálfur skýrir Guðmundur gátuna þannig:

Gráni er limur getnaðar.

Gránar eru hákarlar.

Grána heiti hafís ber.

Hestur nefndur Gráni er.

Þá er limra:

Gráni var gæðinga bestur,

gráðugur át sá hestur

guðsorðabækur

og gerðist þá sprækur,

því hann var biblíuhestur.

Síðan er ný gáta eftir Guðmund:

Hríðin ekki linnir látum,

lítið skánar tíðin hér,

og síst er lát á góðum gátum

að glíma við, sem betur fer:

Götuheiti hér mun vera.

Hiklaust fer ég veginn þann.

Afglöp mörg, sem aular gera.

Einnig hrekkur vera kann.

Í Vísnasafni Jóhanns frá Flögu segir að vísu þessa orti Magnús Sigurðsson frá Heiði í Gönguskörðum, að hann hafi kveðið hana rétt áður en hann fórst ásamt allri skipshöfn (1862):

Þó ég sökkvi í saltan mar

sú er eina (eða: meina) vörnin:

Ekki grætur ekkjan par

eða kveina (eða: veina) börnin.

Hermann Jóhannesson orti:

Í ellinni ennþá ég megna

svo ákaft að furðu má gegna

á kvenfólkið væna

að mæna og mæna

– en ég man ekki lengur hvers vegna.

Örlygur Benediktsson kvað:

Til fjandans það fari og veri

allt fásinnið á þessu skeri!

Ég mæli því mót

að mæla því bót

að mótmælum mótmæla beri.

Gömul vísa í lokin:

Gaman er að sigla um sjó,

söðla ljóni ríða.

Indælast af öllu er þó

ungrar meyjar blíða.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is