Gátan er sem endranær eftir Guðmund Arnfinnsson:
Karlmannslimur leynist hér,
Lykkja af honum geðjast mér.
Landsins forni fjandi er.
Fákur þetta heiti ber.
Göndull nefndur gráni er.
Gráni hákarlslykkja.
Gráni kallast hafís hér.
Hrossið Gráni bikkja.
Þessi er lausn Helga R. Einarssonar:
Sem limur gráni leynist hér,
líka gráni hákarl er.
Gráni er heiti hafís á.
Í haganum má Grána sjá.
Sjálfur skýrir Guðmundur gátuna þannig:
Gráni er limur getnaðar.
Gránar eru hákarlar.
Grána heiti hafís ber.
Hestur nefndur Gráni er.
Gráni var gæðinga bestur,
gráðugur át sá hestur
guðsorðabækur
og gerðist þá sprækur,
því hann var biblíuhestur.
Hríðin ekki linnir látum,
lítið skánar tíðin hér,
og síst er lát á góðum gátum
að glíma við, sem betur fer:
Götuheiti hér mun vera.
Hiklaust fer ég veginn þann.
Afglöp mörg, sem aular gera.
Einnig hrekkur vera kann.
Þó ég sökkvi í saltan mar
sú er eina (eða: meina) vörnin:
Ekki grætur ekkjan par
eða kveina (eða: veina) börnin.
Í ellinni ennþá ég megna
svo ákaft að furðu má gegna
á kvenfólkið væna
að mæna og mæna
– en ég man ekki lengur hvers vegna.
Til fjandans það fari og veri
allt fásinnið á þessu skeri!
Ég mæli því mót
að mæla því bót
að mótmælum mótmæla beri.
Gömul vísa í lokin:
Gaman er að sigla um sjó,
söðla ljóni ríða.
Indælast af öllu er þó
ungrar meyjar blíða.
halldorblondal@simnet.is