Friðrik Ferdinand Söebech fæddist 30. desember 1931. Hann lést 11. mars 2022.

Friðrik var eldri sonur hjónanna Emilíu Guðbjargar Þ. Söebech, f. 15. júní 1903, d. 25. desember 1968, og Þórarins Söebech, f. 31. maí 1890, d. 12. janúar 1962. Yngri bróðir Friðriks var Sigurður Þór Söebech verslunarmaður, f. 26. ágúst 1936, d. 22. júní 1981.

Friðrik kvæntist Ingu Th. Mathiesen í ágúst 1955 og eignaðist með henni börnin Katrínu Kristínu Söebech, f. 27. október 1955, og Theódór Júlíus Söebech, f. 16. október 1958. Börn Katrínar eru Haukur Þór, Ari Már, Theódór Árni og Alexander og afkomendur þeirra eru tólf. Börn Theódórs og konu hans Sigríðar Önnu Guðnadóttur eru Rúnar Snær, Anna Marta og Guðbjörg Inga.

Seinni kona Friðriks var Ásthildur Salbergsdóttir, þau giftust 18. febrúar 1967. Börn þeirra eru Berglind Söebech, f. 8. ágúst 1967, og Þórarinn Söebech, f. 14. desember 1969. Kona Þórarins er Stefanía Unnarsdóttir og eiga þau börnin Birtu Kristínu, Ástu Fanneyju og Friðrik Fannar.

Friðrik var ættaður af Ströndum en fæddist í Reykjavík. Hann ólst upp á Hofsvallagötu og gekk í Miðbæjarbarnaskólann. Í framhaldi fór hann í Iðnskólann og á samning í Stálsmiðjunni og útskrifaðist sem plötu- og ketilsmiður 1951. Eftir sveinsprófið vann hann sem járnsmiður í Stálsmiðjunni til 1953. Hann varð síðan bifreiðarstjóri og keyrði strætó, rútu, vörubíl og leigubíl en vann lengst af hjá Strætisvögnum Reykjavíkur, byrjaði sem sumarstarfsmaður 1960 en var fastur starfsmaður SVR frá 1974-1999 þegar starfsævinni lauk.

Útför Friðriks fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 23. mars 2022, klukkan 15.

Pabbi sofnaði að kveldi og draumur hans rættist, að komast í sumarlandið og hitta mömmu.

Fyrsta starf hans var í Stálsmiðjunni þar sem afi var að vinna. Þá var hann í Iðnskólanum að læra plötu- og ketilsmíði. Bíladellan tikkaði fljótt og fór hann þá að keyra leigubíla hjá Steindóri og aka rútum hjá Þingvallaleið þar sem hann kynntist mömmu sem vann á þeim tíma í Valhöll á Þingvöllum. Eftir það fór hann að keyra strætó og fékk einnig leigubílaleyfi sem hann hafði í mörg ár með strætókeyrslunni. Strætóaksturinn varð að ævistarfi hans ásamt því að hafa leigubílinn með.

Oft fór ég með mömmu til að sækja pabba eftir dagvakt hjá honum og þá fékk ég að stýra vagninum frá fjögurra ára aldri innan girðingar og oft alla leið inn á þvottastöð þar sem við vorum fyrstir á svæðið. Hefur þessi reynsla komið sér vel á seinni árum fyrir mig bæði í rútuakstri og við akstur á strætisvögnum.

Pabbi og mamma fengu úthlutaða lóð þar sem þau byggðu flott raðhús á mjög fallegum stað og þar leið þeim mjög vel. Eftir að hafa búið þar í 34 ár ákváðu þau að minnka við sig og þá keyptum við húsið af þeim. Þá keyptu þau minni íbúð og bjuggu í henni í 13 ár og eftir að mamma dó fékk pabbi inni á Seljahlíð sem var mjög gott fyrir hann. Á þessum tíma hætti hann að keyra og seldi barnabarninu bílinn sinn.

Pabbi var þúsundþjalasmiður. Það sem hann langaði að gera framkvæmdi hann og ef hann vantaði eitthvað var það smíðað. Oftast var ekki verið að hugsa um fegurð í þessum smíðum heldur einungis um notagildi hlutarins.

Verð að minnast á einn hlut sem pabbi hannaði áður en sjónvörp voru seld með fjarstýringu og voru með tökkum til að skipta um rás. Hann breytti málningarskafti í fjarstýringu með því að skrúfa skrúfu neðst á skaftið, setti það svo á milli stóru tásunnar og þeirrar næstu og með því gat hann skipt um rás án þess að standa upp. Svona var þetta allt hjá honum, bara hugmyndir og útfærslur.

Pabbi var mjög flughræddur maður og urðu ferðalögin því öll innanlands og fórum við oft um fallega landið okkar, annaðhvort með tjald eða tjaldvagninn góða. Það var svo ekki fyrr en hann var orðinn 57 ára að mágur hans flugvirkinn dró hann með sér inn í flugvél og tókst honum að ná úr honum flugveikinni og eftir það fóru þau hjónin annaðhvort ein eða með vinum sínum til útlanda og voru þau ferðalög mjög skemmtileg.

Ætla að vona að flugferðin í sumarlandið hafi verið góð og ég vonandi líður þér vel elsku pabbi.

Þinn sonur,

Þórarinn Söebech.

Þá er elsku tengdapabbi farinn í sumarlandið til hennar Ástu sinnar, sáttur við að biðin eftir að hitta hana aftur sé loksins á enda.

Friðrik tók mér opnum örmum þegar við Tóti kynntumst og sagði að nú væri komin ný Stefanía „Söebech“ í fjölskylduna sem væri álíka sjónlaus og Stefanía föðursystir hans, sem einnig var verslunarkona og rak litla verslun á Vestfjörðum og ég fékk að heyra flöskutappasöguna nokkrum sinnum, en þá voru settir flöskutappar á stíginn milli húsa til að vísa henni veginn.

Friðrik var skemmtilegur karakter, hávaðasamur og stríðinn og gat látið mann heyra það og hafði mjög gaman af því þegar maður svaraði í sömu mynt, sem var ósjaldan og við náðum mjög vel saman.

Hann var vakinn og sofinn yfir litlu blómabúðinni okkar og vildi allt fyrir mig gera, hvort sem það var að skutla mér útum allt eða fara með blómasendingar, enda þaulvanur atvinnubílstjóri.

Og börnin okkar voru auðvitað tekin í „ökukennslu“ mjög ung, og það var venjan að fá að setjast undir stýri hjá afa um leið og komið var inn í afagötu eða götuna heima, og stýra bílnum þar til heim var komið. Eitt skiptið keyrði yngri dóttirin á ruslatunnurnar á planinu og fékk ömmubíll smá beyglu, sem aldrei var löguð.

Tengdapabbi var brasari af Guðs náð, einstaklega handlaginn og það var ekkert sem hann gat ekki smíðað, hann smíðaði alls konar leikföng fyrir börnin, bíla, flugvélar og rólu, ef honum datt eitthvað í hug þá varð að framkvæma það ekki seinna en strax. Hann bjó m.a. til níu holu golfvöll í garðinum og svo var púttað með alls konar kylfum, barna og fullorðins.

Við erum svo lánsöm að búa í húsinu sem þau Ásta byggðu svo vel og var vandað til verka í hvívetna.

Ef einhver lenti í vandræðum, þá var Friðrik yfirleitt fyrstur manna á vettvang að hjálpa til og redda málum og var hann alltaf jafn úrræðagóður.

Ferðalögin voru þó nokkuð mörg sem við fórum í og alltaf jafn gaman að sjá afa í leik með börnunum eða að draga þau út um allar trissur, gangandi eða á fjórhjóli, í berjamó eða að busla í næsta læk.

Hann var líka duglegur að sækja börnin í skóla og skutla á æfingar og í tónlistarskóla og auðvitað mættu hann og Ásta amma á alla tónleika, danssýningar o.fl. og stoltið leyndi sér ekki.

Það er ekki sjálfgefið að menn á áttræðisaldri og um áttrætt séu svona vel á sig komnir eins og hann var, í fullu fjöri meðan börnin okkar voru yngri, en hann hugsaði alltaf vel um heilsuna, fór í sund nánast á hverjum degi og í langa göngutúra með elsku Ástu sinni.

Það dró þó mikið af honum eftir að hún veiktist og lést árið 2018 enda var ekki planið að hún færi á undan honum.

En nú eru þau loks sameinuð á ný og eflaust byrjuð að brasa eitthvað skemmtilegt.

Takk fyrir allt elsku besti tengdapabbi minn.

Þín

Stefanía.

Í dag kveðjum við elsku afa okkar. Hann var yndislegur í alla staði og mjög duglegur maður. Hann sá til þess að barnæskan okkar var full af fjöri.

Afi var afar uppátækjasamur og alltaf stutt í hláturinn með honum. Hann var einnig ansi handlaginn. Hann bjó til alls konar sniðugt dót fyrir okkur, eins og rólu úti í garði, sandkassa, 9-holu golfvöll á grasinu og bolta í bandi svo við myndum aldrei týna þeim aftur.

Afi var mjög hugulsamur og þegar hann sá eitthvað í fréttablaðinu sem honum datt í hug að okkur myndi finnast flott eða fyndið klippti hann það út og gaf okkur.

Uppáhaldssjónvarpsþátturinn okkar til að horfa á með afa var Mr. Bean og gátum við setið í marga klukkutíma saman að hlæja.

Afi tók okkur í alls kyns ferðalög, og ein af bestu stundunum okkar þegar við vorum lítil var þegar við fengum að sitja undir stýri með honum og hjálpa honum að keyra, nema kannski í það eina skipti þegar sex ára Ásta keyrði óvart á ruslatunnu en það var bara hlegið að því.

Okkur þykir svo vænt um þig elsku afi og minningar um þig munu lifa að eilífu.

Við huggum okkur við það að þú sért loksins kominn til ömmu aftur.

Takk fyrir allt elsku afi. Þín verður sárt saknað.

Birta Kristín, Ásta Fanney og Friðrik Fannar.

Ég vil minnast föðurbróður míns með nokkrum kveðjuorðum.

Fyrsta minningin sem kom í huga mér þegar ég frétti af fráfalli Friðriks frænda var hversu mikil gleði það var heima þegar hann og hans fjölskylda komu í óvænta sunnudagsheimsókn. Oftast voru bakaðar pönnukökur eða vöfflur og mikið hlegið. Hann hafði mikið jafnaðargeð, stóð fast á sínu en alltaf í góðu skapi.

Friðrik, ég vil þakka þér fyrir allan styrkinn sem þú sýndir fjölskyldu minni í veikindum og við fráfall föður míns, bróður þíns. Þú varst klettur þegar við vorum í mikilli sorg. Tókst á móti okkur heima hjá þér með væntumþykju og alúð eftir eina erfiðustu stund lífs míns, þ.e.a.s. þegar faðir minn var jarðaður. Ég er samt viss um að þá var líka erfitt tímabil hjá ykkur hjónum. Sonur þinn að jafna sig eftir alvarlegt slys og sjálfur varstu að syrgja bróður þinn sem féll frá eftir stutt veikindi.

Einnig vil ég þakka þér fyrir frábæru frændsystkinin okkar. Ásthildur heitin á þó hálfan heiðurinn þar skilið. Takk sérstaklega fyrir Berglindi en hún er eins og ein af mínum systrum. Ég viðurkenni að ég var ekkert sérstaklega góð við hana á meðan við dvöldum saman í Reykjafirði og mér var óttalega létt þegar þú og fjölskyldan þín komuð loks að sækja okkur að lokinni dvölinni. Sjaldan hef ég verið glaðari að sjá þitt brosmilda andlit uppljómað.

Nú ertu kominn til Ástu þinnar. Takk fyrir samveruna og hvíl í friði.

Að hryggjast og gleðjast

hér um fáa daga,

að heilsast og kveðjast.

- Það er lífsins saga.

(Páll J. Árdal)

Þín frænka,

Sigurbjörg Fuellemann Söebech.

Friðrik, föðurbróðir minn, kvaddi sáttur og tilbúinn að hitta Ástu sína í Sumarlandinu, sem hann trúði einlægt á að yrði hans næsti áfangastaður.

Friðrik átti langa og góða ævi og fyrir það ber að þakka sem og að gleðjast yfir farsælu ævistarfi.

Friðrik var einstaklega góður og traustur maður. Hann var einkabróðir föður míns og voru þeir nánir en faðir minn féll frá langt um aldur fram. Hann og Ásta sýndu okkur systrum, þá ungum að árum, mikla ræktarsemi og stuðning við fráfall föður okkar.

Lengst af bjuggu Friðrik og fjölskylda í Selbrekkunni þangað til komið var að því að minnka við sig og fluttu í Grænlandsleið um leið og yngri kynslóðin, Tóti og Steffý, fluttu í Selbrekkuna með börnin sín. Við heimsóttum þau í Grænlandsleið og alltaf var mjög uppörvandi að hitta þau hjónin.

Friðrik ferðaðist innanlands sem utan. Þeir bræður áttu ættir að rekja m.a. til Árneshrepps á Ströndum, en amma þeirra og afi bjuggu í Reykjarfirði allan sinn búskap. Friðrik var mörg minnisstæð sumur í sumardvöl í Reykjarfirði. Faðir þeirra, Þórarinn, vann við síldarverksmiðjuna í Djúpavík.

Það sem kemur einnig upp í hugann þegar ég hugsa til föðurbróður míns er nokkur sérviska hans og skrautlegar skyrtur sem hann klæddist. Hann hafði afskaplega glaðlegt viðmót og tók alltaf hressilega á móti manni. Hann gat líka verið stríðinn á góðlátlegan hátt og átti það til að segja eitthvað sem hann vissi að myndi espa bróðurdætur sínar upp og í framhaldi gátu skapast mjög háværar en skemmtilegar samræður.

Frikki átti erfitt með að henda gömlum hlutum og safnaði munum sem tengdust fjölskyldunni. Hann gaf okkur oftar en ekki eitthvað af þeim fjölmörgu sögulegu hlutum sem tilheyrðu föðurfjölskyldu minni. Þannig endaði gömul hilla og ýmsir munir sem tengjast ætt okkar í sumarhúsinu okkar í Reykjarfirði eftir að við hjónin tókum við jörðinni. Friðrik sýndi uppbyggingu okkar í Reykjarfirði mikinn áhuga og var mjög fróður um sveitina. Það var okkar einlæga ósk að hann myndi koma og heimsækja okkur seinni árin en ekki varð okkur að þeirri ósk. Við munum ávallt minnast hans, sérstaklega þegar við dveljum í firðinum sem var honum hugleikinn.

Síðasta heimsókn okkar til Frikka var eftir að hann flutti í Seljahlíð. Við flettum með honum í gegnum myndaalbúmin hans þar sem við skyggndumst inn í hin ýmsu ferðalög þeirra hjóna. Hugur hans var greinilega hjá Ástu og samverustundum sem hann hafði átt með henni. Við erum þakklát fyrir að hafa hitt hann svona hressan áður en Covid skellti öllu í lás.

Komið er að leiðarlokum og viljum við minnast Friðriks með gleði og hlýhug og þökkum fyrir samfylgdina í gegnum stóru stundirnar sem og þær hversdagslegu í gegnum lífið. Við Halldór og börn sendum Beggu, Tóta og fjölskyldunni allri okkar innilegustu samúðarkveðjur. Megi frænda mínum farnast vel í Sumarlandinu.

Karólína Fabína Söebech og Halldór J. Kristjánsson.

HINSTA KVEÐJA
Þegar dags er þrotið stjá
þróttur burtu flúinn.
Fátt er sælla en sofna þá
syfjaður og lúinn.
(Rögnvaldur Björnsson)
Takk fyrir allt og allt elsku pabbi.
Berglind.