Við þær aðstæður þegar uppi er grunur um heilsuspillandi skólahúsnæði barna njóta foreldrar lagalegs réttar samkvæmt upplýsingalögum nr. 140/2002 til þess að fá fram allar upplýsingar sem það kunna að varða

Á vormánuðum fara fram kosningar í Reykjavík þar sem borgarbúar munu kjósa sér forystufólk til næstu fjögurra ára. Á framboðslistum má sjá að nokkur endurnýjun er að eiga sér stað í stjórnarandstöðuflokkum en fyrir liggur að núverandi borgarfulltrúar meirihlutans hyggjast margir sækjast eftir endurkjöri, þriðja kjörtímabilið í röð. Við þessar aðstæður er eðlilegt að kjósendur taki til skoðunar hvort störf núverandi meirihluta hafi verið það árangursrík að rétt sé að veita þeim umboð til áframhaldandi starfa, eða hvort öðrum aðilum með aðrar áherslur sé betur treyst til að vinna að þeim verkefnum sem borgarstjórn fer með ábyrgð á. Fjögur ár eru heil ævi í pólitík eins og einhver sagði.

Samkvæmt kosningalögum nr. 112/2021 fara með kosningarétt allir Reykvíkingar 18 ára og eldri. Margt bendir hins vegar til þess að kosningarnar í vor komi til með snúast að miklu leyti um hagsmuni þeirra sem ekki hafa kosningarétt. Aðila sem hafa ekki möguleika á að tjá afstöðu sína í kosningum. Börn á leik- og grunnskólastigi.

Aðstöðumál barna og ástand skólahúsnæðis í Reykjavíkurborg virðist vera það mál sem virkjað hafi ungt fólk til athafna og mótað skýra afstöðu um það hvernig borg foreldrar vilja búa börnum sínum. Sú sýn foreldra virðist ekki hafa endurspeglast í áherslum núverandi borgarstjórnarmeirihluta og er það sérstaklega ljóst í rótgrónum hverfum í Reykjavík. Þessi foreldrahópur hefur um árabil ekki fengið pláss fyrir börn sín á leikskólum og hvað þá ungbarnaleikskólum þrátt fyrir fögur fyrirheit um tímanlega byggingu þeirra. Ungbarnaleikskólarnir voru ekki byggðir nema í mýflugumynd og hafa helst birst í formi endurtekinna framtíðarloforða í kosningabæklingum. Börnin sem á þeim þurftu á þeim að halda eru á sama tíma að nálgast unglingadeildir grunnskólanna. Guði sé lof að áform meirihlutans um leikskóla á hjólum og einingahús á hringtorgum urðu þó aldrei að veruleika.

Þann 2. nóvember sl. birti Reykjavíkurborg á vef sínum rúmlega 700 bls. ástandsúttekt á húsnæði leikskóla, grunnskóla og frístundar í Reykjavík. Sú skýrsla er vægast sagt skelfileg lesning fyrir foreldra enda staðfestir hún það sem foreldrar og hagsmunasamtök þeirra hafa ítrekað reynt að benda á, að húsnæði barnanna okkar liggur undir skemmdum og er í mörgum tilvikum undirlagt af heilsuspillandi mygluskemmdum. Reykjavíkurborg hefur í samtali við foreldra síður viljað tala um „myglu“ en kosið að nota heldur orðið „innivist“, hvað svo sem það þýðir. Vandamálið varð auðvitað ekkert minna eftir að það var kallað eitthvað annað.

Núverandi ástand skólahúsnæðis gerðist hins vegar ekki á einni nóttu og virðist í öllum meginatriðum rakið til áhugaleysis á málaflokknum og ákvörðun um að veita ekki viðeigandi fjármuni til viðhalds mannvirkja í samræmi við brýna þörf þar um. Ótalinn er þar skortur á ráðstöfun fjármuna til aðstöðu barna til íþróttaiðkunar, sem er efni í annan pistil. Líklegast er að núverandi viðhaldsþörf skólahúsnæðis sé um 10-15 milljarðar, bara til að koma hlutunum í viðunandi horf. Rétt tæplega ein borgarlína. Svipað og Reykjavíkurborg endaði á að verja til byggingar eins skóla í Úlfarsárdal.

Í samræmi við lýðræðislegt aðhald borgaranna er því eðlilegt að velta fyrir sér í aðdraganda kosninga: Hefur þetta verið skynsamleg meðferð fjármuna og hver ber ábyrgð á því hversu alvarlegur vandinn er nú? Var vitneskja um slæmt ástand skólahúsnæðis til staðar og hefðu hagsmunir barnanna okkar ekki átt að gefa tilefni til að bregðast við fyrr? Er allt raunverulega uppi á borðum varðandi heilsu og öryggi barnanna okkar?

Við þær aðstæður þegar uppi er grunur um heilsuspillandi skólahúsnæði barna njóta foreldrar lagalegs réttar samkvæmt upplýsingalögum nr. 140/2002 til þess að fá fram allar upplýsingar sem það kunna að varða. Verandi foreldri og með ágætis þekkingu á lagalegum rétti beindi ég sjálfur erindi til Reykjavíkurborgar vegna skólahúsnæðis minna barna.

Þau gögn, sem eftir töluverða eftirfylgni voru afhent, staðfestu að skólahúsnæðið var ekki bara verulega skemmt í dag, heldur hafði það verið svo með vitneskju Reykjavíkurborgar í töluverðan tíma, án þess að við því hefði verið brugðist. Unnið er í dag að brýnustu viðgerðum viðkomandi húsnæðis, ekki fyrir sakir áhuga borgarinnar, heldur eftir háværar kröfur foreldra. Sambærileg staða hefur verið í Fossvogi. Sama staða í Vesturbæ. En viðgerðir virðast aðallega fara fram þar sem foreldrar hafa hæst. Skal kannski engan undra enda er vandamálið bæði pólitískt óvinsælt og peningalega dýrt. Börnin kvarta heldur auðvitað aldrei.

Miðað við ástandsúttekt Reykjavíkurborgar og fjölda dæma um skemmdir á skólahúsnæði á liðnum árum kann að vera réttmætt tilefni til þess að foreldrafélög í leik- og grunnskólum í Reykjavík beiti lagalegum rétti sínum á grundvelli upplýsingalaga með erindi á netfangið upplysingar@reykjavik.is og óski þar eftir öllum úttektarskýrslum viðkomandi skólahúsnæðis síðastliðin átta ár. Þannig ættu foreldrar að geta séð svart á hvítu hvernig málaflokknum hefur verið sinnt gagnvart þeirra barni á síðustu kjörtímabilum. Slíkar upplýsingar koma líklega til með að leiða til kosningaréttar barnanna í reynd.