Guðný Guðjónsdóttir fæddist 10. júlí 1927. Hún lést 7. mars 2022.

Útför Guðnýjar var gerð 14. mars 2022.

Veröldin snýst um að vera ekki eins í dag og hún var í gær og hún hlýðir í engu þrá okkar

eftir einhverju varanlegu.

Kannski að íhaldssemi okkar spretti af þessari tilhneigingu hennar.

Í mótvægi við þetta eðli tilverunnar reynum við að finna eitthvað varanlegt, tryggt og notalegt og skemmtilegt.

Þar komu til sögunnar Guðmundur og Guðný; þau hafa kannski verið með eitthvað svipað í huga við stofnun Mokka fyrir meira en sextíu árum.

Við kveðjum nú Guðnýju, nokkrir fastagestir, sem hún trakteraði ætíð með ókeypis kaffi á stórhátíðum eins og við jól og áramót.

Úr þessum hópi gesta, sem margir hverjir rekja tengsl sín við Mokka enn lengra aftur, ein sextíu ár jafnvel, þegar manni sem blaðsöludreng var kurteislega bent á að hér mætti ekki ónáða gesti með blaðasölu, því blöðin væru keypt á staðnum, hefur vissulega kvarnast, sumir dáið, aðrir leitað

á önnur mið eða hætt að mæta; eftir stendur að í síbreytilegum heimi bjuggu Guðný og Guðmundur okkur griðastað, sem haldist hefur óbreyttur lungann úr ævi okkar. Fyrir það erum við þakklátir en líka margt annað.

Blessuð sé minning Guðnýjar,

blessuð sé minning þeirra hjóna.

Við vottum dætrum, syni og venslafólki samúð okkar.

Fyrir hönd kaffifélaganna,

Bárður R. Jónsson.