Ingi Guðjónsson fæddist 4. janúar 1943. Hann lést 4. mars 2022. Útför Inga fór fram 14. mars 2022.

Mikið er sárt að hugsa til þess að við fáum aldrei að hitta þig aftur, kíkja í kaffi um helgar og heyra nýjustu sögurnar úr sveitinni, ræða pólitík og tölum nú ekki um Gísla Martein. En þú ert örugglega hvíldinni feginn og ert nú laus við allar þjáningarnar minn kæri en við vorum samt engan veginn tilbúin að sjá á eftir þér. Við eigum dásamlegar minningar um okkar vinskap og þær munum við ávallt varðveita og geyma í hjartanu elsku Ingi okkar.

Mín skemmtilegasta minning er þegar við Nonni (Ingi kallaði hann alltaf Nonna) vorum að koma austur síðasta vor, nema Nonni var að fara að vinna á Flúðum og ætlaði að skutla mér fyrst í bústaðinn. Þér fannst það nú mesta rugl og komst og sóttir mig við Skeiðavegamót og ég hélt að þú myndir skutla mér beint í bústaðinn... en nei, það voru teknir allir hliðarvegir á leiðinni og sögur sagðar af fólki og bæjum. Svo þegar við nálguðumst Hellu kom púkinn upp í þér, svo það var stoppað í bakaríinu á Hellu til að spjalla við karlana sem þar voru í kaffi, því þú vildir endilega koma af stað kjaftasögum. Við hittum þarna nokkra sveitadúdda sem voru fastagestir þarna og það var mikið spjallað og jú nokkrar augnagotur enda var það það sem þú vildir. Þú fórst líka með mig á markaðinn á Hellu þar sem allt er til og þar skoðuðum við alls konar hluti og höfðum gaman af. Daginn eftir komstu svo og sóttir mig og fórst með mig í kaffi á N1 á Hvolsvelli til að halda áfram með kjaftasögurnar. Þetta var svo gaman og vil ég þakka þér þessar skemmtilegu minningar sem ég mun hlæja að í mörg ár.

Alveg sama hvort spurt var að veðri, færð, skutli eða öðru, þá var svarið alltaf „já ég kem“ eða hugsað í lausnum. Þú varst alltaf vinur í raun og það var alltaf svo gaman að spjalla við þig um líf þitt, vinnu og upplifanir.

Takk fyrir allar klósettferðirnar hjá litlu ungunum mínum hérna á árum áður þegar ég var að byggja bústaðinn og takk fyrir alla hjálpina í gegnum tíðina okkar kæri vinur.

Við munum alltaf sakna þín og hugsa til þín.

Hvíl í friði elsku vinur.

Jón Helgi og Inga.

Það er erfitt að hugsa til þess að þú sért farinn frá okkur, Ingi frændi. Þú sem varst alltaf svo hress og góður við okkur systkinin. Ég, Lilja, minnist þess helst hvað mér þótti alltaf gaman að fara í heimsókn til þín á Hvolsvöll og fara á leikvöllinn á móti heimili þínu, það þótti mér nú bara stærsti leikvöllur í heimi. Þegar ég hugsa til baka líður mér eins og ég sé mætt þangað aftur. Samband ykkar systkinanna var alltaf náið og samgangurinn mikill, sérstaklega þegar við börnin vorum yngri. Núna metum við allar samverustundirnar og minningarnar mikils. Með tíð og tíma fór heimsóknum út á land um helgar að fækka, tímarnir breytast og mennirnir með, en þegar tækninni fleygði fram þá var gott að vita að þú fylgdist með okkur. Þú skrifaðir til dæmis alltaf fallegar athugasemdir við það sem við settum á samfélagsmiðla og samgladdist okkur við minnsta tilefni. Við hugsum fallega til þín, geymum allar góðu minningarnar og þökkum þér fyrir allt. Elsku Gunna, Gunni, Lára, Hemmi, Ingi, Gróa, barnabörn og barnabarnabörn, við vottum ykkur okkar dýpstu samúð.

Klukkur tímans tifa

telja ævistundir

ætíð lengi lifa

ljúfir vinafundir.

Drottinn veg þér vísi

vel þig ætíð geymi

ljósið bjart þér lýsi

leið í nýjum heimi.

(Hákon Aðalsteinsson)

Þín

Lilja og Kolfinnur Ernir Kjartansbörn.