Henry Þór Henrysson fæddist í Reykjavík 23. mars 1934. Hann lést á Landspítalanum 8. janúar 2022.

Foreldrar Henrys Þórs voru Guðrún S. Þorsteinsdóttir húsmóðir, f. 1913, d. 2008, og Henry Alexander Hálfdansson, loftskeytamaður og framkvæmdastjóri Slysavarnafélags Íslands, f. 1904, d. 1972. Systkini Henrys Þórs eru Ragnar, f. 1928, d. 1987, hálfbróðir samfeðra, Helga, f. 1931, Haraldur, f. 1938, Hálfdan, f. 1943, Hjördís, f. 1946, og Þorsteinn, f. 1953, d. 2015.

Árið 1956 giftist Henry Þór Gíslínu Garðarsdóttur, f. 12. desember 1935, en hún er dóttir hjónanna Jónu S. Björnsdóttur, f. 1896, d. 1966, og Garðars Jónssonar, f. 1898, d. 1967. Gíslína lést 7. janúar 2018. Börn Henrys Þórs og Gíslínu eru: 1) Jón Garðar, f. 16. apríl 1966, d. 1. janúar 2018, hann var giftur Höllu Skúladóttur og eru dætur þeirra Marín, f. 1991, sambýlismaður Björn Ásgeirsson, synir þeirra eru Óliver, f. 2018, og Breki, f. 2021, Sóley, f. 2001, og Ásta f. 2003; 2) Guðrún Katla, f. 28. maí 1968, gift Helgu Sigurjónsdóttur; 3) Henry Alexander, f. 2. júní 1973, giftur Regínu Bjarnadóttur, börn þeirra eru Elín Katla, f. 2003, Emma Karen, f. 2008, og Henry Benedikt, f. 2012.

Henry Þór ólst upp í Vesturbænum, gekk þar hefðbundna skólagöngu og tók sem ungur maður virkan þátt í starfi skátahreyfingarinnar. Hann lauk stúdentsprófi frá MR 1954 og hóf nám í byggingaverkfræði við tækniháskólann í München sama ár. Á árunum 1960 til 1963 stundaði hann nám við tækniháskólann í Graz í Austurríki. Eftir að heim var komið hóf hann störf hjá Íslenskum aðalverktökum þar sem hann vann til 1971. Það ár varð hann starfsmaður og meðeigandi verkfræðistofunnar Hnit hf. Þegar hefðbundnum starfsferli lauk hjá Hnit árið 2004 gerðist Henry Þór skógarbóndi á jörð sinni Sumarliðabæ í Ásahreppi þar sem mikið ræktunarstarf liggur eftir hann og Gíslínu.

Bálför Henrys Þórs hefur þegar farið fram, en útför hans verður frá Fossvogskirkju í Reykjavík í dag, á afmælisdegi hans, 23. mars 2022, klukkan 13.

Þegar við kveðjum Henry Þór bróður minn eru mér efst í huga samfundir okkar eftir að við fluttumst báðir haustið 2020 í íbúðir í kjarnanum við Sléttuveg. Þar hittumst við nær daglega og ræddum margt og rifjuðum ekki síst upp æskuminningar okkar. Við ólumst upp á Brávallagötu í Vesturbænum. Reykjavík var allt önnur á þessum tíma og á það ekki síst við um líf barna og unglinga og samskipti þeirra. Leiksvæðið var aðallega gatan en einnig opið port sem var á milli götunnar okkar og Ljósvallagötu. Þarna var oft þröng á þingi. Þá var vinsælt að þreyta kapphlaup umhverfis lóð elliheimilisins Grundar. Henry var oft sigurvegari í þessum hlaupum en undirritaður var þar nokkur eftirbátur.

Henry var virkur félagi í skátahreyfingunni sem hafði aðsetur í bragga við Snorrabraut og dreif hann mig með sér. Þar kynntist hann síðar Gígí konu sinni. Vorum við báðir stofnfélagar í skátasveitinni Landnemum. Henry og nokkrir félagar hans voru á þessum tíma helstu foringjar sveitarinnar og stóðu fyrir mjög vinsælum skemmtunum. Þessir félagar héldu lengi hópinn og mynduðu þeir síðar skátaflokkinn Blástakka, sem hefur starfað fram á þennan dag.

Við Henry stunduðum báðir nám við Gagnfræðaskóla Vesturbæjar og síðan í MR. Við rifjuðum oft upp nöfn þeirra kennara sem við báðir höfðum kynnst og voru margir minnisstæðir. Annað sem við rifjuðum upp í samræðum okkar var sú sameiginlega reynsla að hafa stundað sjó í sumarleyfum á skólaárum. Höfðum við verið á sama togara, Hvalfelli, undir skipstjórn þess góða og farsæla manns, Snæbjörns Ólafssonar, en kokkurinn var móðurbróðir okkar, Bjarni Þorsteinsson. Henry var svo heppinn að fara í nokkra sölutúra til Þýskalands og Bretlands. Þetta var skömmu eftir síðari heimsstyrjöld og ræddi Henry oft um þær rústir og vesöld sem blasti við, einkum í Þýskalandi. Eftir heimkomu frá námi erlendis vann hann lengst af og til starfsloka hjá Hnit, sem hann var meðeigandi í.

Henry hafði sem ungur drengur oft dvalist á Sumarliðabæ í Holtum þar sem föðuramma okkar, Þórkatla Þorkelsdóttir, var ráðskona hjá Sigurði Hannessyni bónda sem tók miklu ástfóstri við Henry og hélst vinátta þeirra meðan báðir lifðu. Sigurður arfleiddi Henry að eignarhluta sínum í Sumarliðabæ. Þegar Henry lét af störfum fluttu þau hjónin þangað og gerðust skógarbændur. Vegna veikinda Gígíar urðu þau að flytja aftur í bæinn en þar lést hún í janúar 2018. Henry hélt áfram skógarbúskap en í minni mæli en áður.

Ég hef nefnt nokkur atriði er við bræður spjölluðum um er snerti lífshlaup Henrys. Meðal annars ræddum við félagsmálastörf föður okkar, sem við fylgdumst alltaf með, bæði á vettvangi Slysavarnafélags Íslands og Sjómannadagsráðs. Nokkrum sinnum var bróðir okkar Hálfdan með í þessu spjalli en hann var á þessum tíma formaður Sjómannadagsráðs sem pabbi hafði verið í 25 ár. Áttum við bræður þar góðar stundir saman. Margt fleira gæti ég auðvitað nefnt þegar ég minnist Henrys en mér eru settar skorður varðandi lengd. Ég er honum þakklátur fyrir samfylgdina og sakna hans sárt.

Haraldur Henrysson.

Henry Þór Henrysson kvaddi þessa jarðvist 8. janúar sl. Hann var giftur móðursystur minni, Gíslínu Garðarsdóttur, sem við kölluðum Gígí frænku. Hún var yngst fimm dætra Garðars Jónssonar, fv. formanns Sjómannafélags Reykjavíkur, og Jónu Björnsdóttur konu hans. Gígí lést fyrir réttum fjórum árum. Henry hverfur síðastur úr traustri kynslóð fjölskyldu afa Garðars og ömmu Jónu. Henry átti styrkar rætur í vestfirskum ættum. Hann var sonur Guðrúnar Þorsteinsdóttur og Henrys Hálfdanssonar, framkvæmdastjóra Slysavarnafélags Íslands. Alltaf var gott samband á milli fjölskyldna hjónanna.

Ég man fyrst eftir Henry sem skáta á björgunaræfingu við lok 6. áratugarins. Hann var þar fremstur í flokki unglinga sem hífðu „sjúklinga“ úr nýbyggingu Heilsuverndarstöðvarinnar og gerðu að „sárum“ þeirra. Ég var bara stráklingur á þessum tíma en hann menntaskólanemi í MR. Að loknu stúdentsprófi giftist hann Gígí og þau fóru til náms í verk- og tæknifræðum í München og Graz.

Ég laðaðist að Gígí og Henry. Hún var hlý og hann traustur og áhugasamur. Ég man að ég bar óbilandi traust til Henrys og fékk hann til að vera ábyrgðarmaður námslána minna fyrst eftir að ég hóf háskólanám. Hann var orðhagur og orti tækifærisljóð, en flíkaði því ekki. Innan skátahreyfingarinnar var hann stundum fenginn til að semja mótssöngva skátamóta. Hann var hugsjónamaður, en dulur og hafði sig ekki mikið í frammi, en þegar hann talaði var tekið eftir skoðunum hans sem leiftruðu af réttlætissýn og betra samfélagi.

Henry vann aðallega við ýmiss konar byggingarframkvæmdir, sem mælingamaður og verkstjóri. Hann var t.d. umsjónarmaður framkvæmda við lagningu Keflavíkurvegar og Vesturlandsvegar í Ártúnsholti. Eitt sumar á menntaskólaárum mínum fékk ég þar sumarvinnu. Þetta voru viðamikil verkefni og margir verkamenn og ýmiss konar tæki. Ég man að ég dáðist oft að Henry þetta sumar. Hann var vakinn og sofinn yfir verkefninu og hafði í mörg horn að líta. Iðulega stóð hann við kíki og mældi og yfirfór áætlanir verkefnisins. Allt var klárt þegar vinna hófst hvern morgun og menn gengu öruggir til verka.

Henry erfði jörð á Sumarliðabæ í Ásahreppi, þar sem hann hafði verið sumarstrákur í nokkur sumur. Á efri árum gerðu þau Gígí upp hús þar og Henry gerðist skógarbóndi. Eru þar ófá handtök hans við hugsjónastörf, skógrækt og jarðarbætur. Það var gaman að heimsækja hann austur og ræða smá og stór verkefni við ræktun lýðs og lands.

Ég kveð Henry með söknuði og þakklæti. Við Maja sendum börnum hans, tengdabörnum og barnabörnum innilegar samúðarkveðjur.

Sigurjón Mýrdal.

Fyrrverandi samstarfsmaður okkar, Henry Þór Henrysson, andaðist á Landspítalanum 8. janúar sl.

Hann hafði starfað hjá Íslenskum aðalverktökum á Keflavíkurflugvelli í allmörg ár þegar hann réðst til starfa hjá Hniti verkfræðistofu hf. árið 1971 og nokkru seinna varð hann meðeigandi.

Henry var sérfræðingur í lagningu malbiks á vegi og plön og var aðalstarf hans hjá Hniti hf. að hafa eftirlit með slíkum framkvæmdum, nýlagningum og viðgerðum. Eftirlit með malbiksframkvæmdum fer að stærstum hluta fram að sumrinu en á veturna vann Henry við skýrslugerð um framkvæmdir sumarsins.

Hann sat í stjórn Hnits hf.í samtals sjö ár og hluta af tímanum var hann ritari.

Hann lauk störfum vegna aldurs 2005 og lauk þá einnig eignaraðild hans að Hniti hf.

Henry var traustur starfsmaður og góður félagi. Við þökkum honum farsæla samvinnu í 34 ár og vottum fjölskyldu hans okkar innilegustu samúð.

Guðmundur Björnsson,

Hilmar Sigurðsson.