Yngvinn Valdimar Gunnlaugsson fæddist í Reykjavík 27. september 1951. Hann lést 7. mars 2022 á Landspítalanum.

Hann var sonur Gunnlaugs Valdimarssonar og Sonju Einarsdóttur. Þau eru bæði látin.

Bróðir Yngvins er Einar, kona hans er Þóra M. Sigurðardóttir.

Yngvinn var kvæntur Jóhönnu Th. Þorleifsdóttur, f. 19. júlí 1952, þau eignuðust þrjú börn: 1) Jóhann Svan, f. 30.5. 1977, d. 14.10. 1996. 2) Maríu, f. 22.3. 1982, gift Róberti Geir Gíslasyni og eiga þau tvö börn, Jóhann Dag og Anitu Rós. 3) Helgu Sigríði, f. 24.4. 1983, og á hún eina dóttur, Petrínu Jónu.

Yngvinn vann hjá Orkuveitu Reykjavíkur þar til hann lét af störfum 2018. Yngvinn var virkur í skátastarfi og einnig var hann frímúrari.

Útför hans fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 23. mars 2022, kl. 13.

Elskulegur bróðir minn Yngvinn er látinn. Mig langar að skrifa nokkur minningarorð um hann og rifja upp æsku okkar í nokkrum orðum. Við ólumst upp á Skólavörðuholtinu, en á þeim árum var þar braggahverfi sem breski herinn hafði reist á stríðsárunum. Bragginn okkar var í röð bragga sem stóðu á milli Leifsstyttunnar og innkeyrslunnar til Tækniskólans frá Frakkastíg. Skólavörðuholtið var okkar leikvöllur fyrstu fimm æviár Yngvins en fyrstu tíu æviár mín. Það má segja að Skólavörðuholtið hafi verið mikið ævintýraland fyrir okkur bræður. Frá því að Yngvinn var u.þ.b. tveggja ára dröslaðist ég með hann í kerru um holtið og ósjaldan fórum við að heimsækja starfsfólkið í Listvinahúsi Guðmundar Einarssonar frá Miðdal sem stóð þar sem nú stendur nýjasta álma Tækniskólans. Þar fengum við stundum að standa og horfa á fólkið framleiða leirstyttur, eins og t.d. rjúpuna með ungana sína og hrafninn o.fl. Báðum megin við Leifsstyttuna hafði verið grjótnám, þar sem grjót var tekið til uppfyllingar t.d. við Reykjavíkurhöfn. Við þetta grjótnám mynduðust sléttar flatir báðum megin við styttuna sem síðan voru tyrfðar og urðu hin bestu leiksvæði okkar krakkanna á holtinu. Við Yngvinn þurftum ekki að ferðast langar leiðir á holtin til að fara að leika okkur í fótbolta á þessum grasfötum því gaflinn á bragganum okkar, sem var nr. 36, var við grjótkantinn á annarri grasflötinni. Þarna lékum við okkur á sumardögum við alls konar leiki. En svo kom að því að braggahverfið skyldi rifið og foreldrar okkar fengu úthlutað húsnæði í blokk við Gnoðarvoginn. Þar gekk Yngvinn í barnadeild Vogaskóla og lauk þar barnaskólaskyldunni, ég lauk skólaskyldunni í Langholtsskóla og síðan gagnfræðaprófi í framhaldsdeild Vogaskóla 1964, sem nú er Menntaskólinn við Sund. Ég man hve stoltur ég var þegar Yngvinn sagði mér að hann hefði ákveðið að læra bólstrun. Eftir það nám vann hann við bólstrun í allnokkur ár áður en hann hóf störf hjá Vatnsveitu Reykjavíkur þar sem hann átti alla tíð farsælan starfsferil og lauk hann starfsævinni þar. Leiðir okkar Yngvins skildi um nokkurra ára bil, þar sem við Þóra fluttum til Hornafjarðar og bjuggum þar í um 10 ár, en leiðir okkar lágu svo saman aftur og var það mikið gæfuspor fyrir okkur báða og fjölskyldur okkar. Við áttum saman margar ánægjustundir, og minnist ég sérstaklega ánægjulegra heimsókna þeirra til okkar austur í Hraunborgir. Við vitum að foreldrar okkar, Jóhann Svanur sonur Yngvins og Jóhönnu sem lést aðeins 19 ára að aldri hinn 14. október 1996 og Sonja dóttir okkar Þóru sem lést 49 ára hinn 9. júní 2019, ásamt því fólki okkar sem farið hefur á undan honum, sitja núna í „blómabrekkunni“ og bíða þess að taka þar vel á móti honum.

Yngvinn bróðir mun færa þeim öllum okkar bestu kveðjur.

Við kveðjum þig bróðir sæll með miklum söknuði og biðjum góðan Guð að veita Jóhönnu og fjölskyldu góðan styrk.

Einar og Þóra.

Kynni sem takast á miðjum aldri geta orðið djúpstæð og innileg ekkert síður en gömlu kynnin sem gleymast ei. Þannig var um okkur sem þáðum boð um að gera gott hjónaband betra á LH-helgi aldamótaárið 2000. Í tilfinningarúsinu eftir helgina þótti okkur öllum sjálfsagt að vera sett í úrvinnsluhóp fimm hjóna sem þekktust lítið sem ekkert fyrir fram. Ekki óraði okkur fyrir því þá að það kærleiks- og mannræktarstarf stæði enn 22 árum síðar.

Svo mikið er hægt að segja að leyndarmálið í þessum samskiptum snýst um aðferðir við að tjá tilfinningar og hlusta vel. Yngvinn Gunnlaugsson, sem við kveðjum nú, var ekki í vandræðum með að tjá sig í okkar hópi. Hann var opinn, glaðbeittur og ákveðinn, góður sögumaður og hafði frá mörgu að segja með lifandi dæmum úr veiðiskap, skáta- og kirkjustarfi, bræðrareglu og veituvinnu. Frá upphafi okkar kynna talaði Yngvinn einstaklega fallega til konu sinnar og um hana: – Jóhanna mín, sagði hann með innileik. Eða: – Við Jóhanna mín. Og víst er um það að Yngvinn og Jóhanna voru ákaflega samrýnd hjón og höfðu deilt súru og sætu frá því þau voru kornung og kynntust í skátunum. Skátastarfinu fylgir mikil útilegu- og ferðamenning sem þau báru með sér inn í starf hópsins. Það varð því að reglu að hvíla sig á fundum yfir sumarið en fara þess í stað í stutta ferð um sveitir landsins. Eitt skiptið fórum við í ógleymanlega ferð til Skotlands undir styrkri fararstjórn þeirra tveggja. Yngvinn átti þar góðan vin og þau Jóhanna þekktu vel til í þessu fagra nágrannalandi.

Árið 2020 tóku Yngvinn og Jóhanna forystu fyrir því að haldið yrði upp á 20 ára starf þessa hjónahóps sem þá hafði setið saman hundrað fundi! En Covid-19 setti aftur og aftur strik í þann reikning. Við vorum öll orðin tuttugu árum eldri en þegar við kynntumst fyrst og kusum að fylgja ráðleggingum heilbrigðisyfirvalda, varast mannamót utan nánustu fjölskyldu framan af, þiggja þrefalda bólusetningu þegar hún bauðst og fresta samkomum til betri tíma. Nú þegar vorið var fram undan stóð til að halda upp á afmælið með tveggja ára seinkun. En þá tók Covid enn eina rispuna og felldi „á snöggu augabragði“ yngsta karlmanninn í hópnum okkar! Það kom eins og reiðarslag yfir okkur öll. En þó mest yfir okkar kæru Jóhönnu.

Um leið rifjast upp að Yngvinn og Jóhanna höfðu ekki aðeins deilt með okkur vinunum gleðiefnum sínum heldur einnig þeim djúpa harmi sem fylgdi því að missa son sinn, Jóhann, aðeins 19 ára úr bráðasjúkdómi. Ekkert okkar átti von á því að Yngvinn færi með jafn skjótum hætti. Yngvinn, sem alltaf fylgdi hressandi andblær og lífsgleði. Yngvinn, sem sagði svo skemmtilega frá. Traustur vinur og jákvæður. Gott að hitta og gleðjast með. Lífsreyndur. Mannvinur. Þannig hafa lýsingar á honum streymt um hópinn okkar.

Við sendum Jóhönnu, dætrum þeirra Yngvins og barnabörnum innilegustu samúðar- og kærleikskveðjur og teystum því að minningarnar um þennan góða mann sefi sorg þeirra.

Blessuð sé minning Yngvins Gunnlaugssonar.

Steinunn og Einar Karl,

Guðný og Lúðvík,

Björn og Kolbrún,

Magnús og Guðbjörg.

Yngvinn vinur minn, skátabróðir og frímúrarabróðir er farinn heim eins og við skátar segjum. Hann fór alltof snemma eftir stutt en erfið veikindi.

Við kynntumst fyrst fyrir um 60 árum, þá ungir skátar. Fóstbræðraflokkurinn var okkar leikvangur. Farið var í útilegur, skátamót og margt skemmtilegt brallað. Þroskuðumst við mikið undir stjórn hæfileikaríks flokksforingja, Ólafs Ásgeirssonar. Á landsmóti skáta 1962 vann flokkurinn flokkakeppni mótsins og höfum við ávallt verið stoltir af þeim sigri. Þarna bundust traust vinabönd sem aldrei rofnuðu þótt samskiptin hafi ekki alltaf verið mikil á fullorðinsárum. Á skátamótum síðustu áratuga höfum við hitt þau Jóhönnu og rifjað upp gamlar og góðar minningar.

Nú síðustu ár höfum við starfað í bakhópi fyrir fundi eldri skáta, súpufundina sem svo eru kallaðir, haldnir einu sinni í mánuði. Þar hafa Yngvinn og Jóhanna verið máttarstólpar í því starfi. Greiðvikni, glaðværð, frumkvæði og hjálpsemi þeirra beggja hafa komið vel fram í því starfi. Yngvins verður sárt saknað í þeim hópi.

Nú að leiðarlokum þökkum við áratuga vináttu og tryggð. Jóhönnu, dætrum og fjölskyldum þeirra sendum við hlýjar samúðarkveðjur. Verðum með ykkur í anda á kveðjustund þar sem við erum stödd erlendis.

Hvíl í friði kæri vinur og megi hinn hæsti höfuðsmiður taka vel á móti þér.

Margrét og Matthías Guðm. Pétursson.

Skátahreyfingin er um margt sérstakur félagsskapur, sumum finnst hann jafnvel skrýtinn. Þau sem hafa starfað lengi sem skátar og hafa þekkst lengi mynda sérstök bönd sem erfitt er að útskýra og reyndar ekki nauðsynlegt að útskýra. Sameiginleg reynsla unglingsára verður gersemi fullorðinsára. Orðtakið „eitt sinn skáti, ávallt skáti“ er meitlað í okkar stein. Við sem erum orðin eldri erum nokkuð sammála um að það mikilvægasta sem skátastarfið skilur eftir er vináttan. Þannig var það með kynni okkar við Yngvin. Við vorum nokkur sem mynduðum bakhóp að skipulögðu starfi eldri skáta í Reykjavík, sem við kölluðum Endurfundi skáta. Hér var aldeilis allt á fullu og okkar maður í essinu sínu, – gamla röggsemin, dugnaðurinn og glaðværðin. Hann var miðjan í öllu; gera og græja, grobba, gantast og hlæja og auðvitað taka lagið. Hann var yndislegur. Yngvinn gerðist kornungur skáti og við sum munum hann jafnvel á Landsmóti skáta á Þingvöllum 1962. Vinahópur hans var í skátunum, tómstundirnar og allur hugurinn líka. Yngvinn kynntist meira að segja æskuástinni sinni, henni elsku Jóhönnu okkar, í skátunum og áttu þau lífið saman í stríðu sem blíðu alla tíð þangað til í dag, að höggið þunga ríður af. Sorgin er mikil og treginn er þungur en það er ljós þarna á bak við. Hugur okkar er hjá Jóhönnu, dætrunum og fjölskyldunni allri.

Bakhópurinn og Endurfundir skáta í Reykjavík þakka samfylgdina.

Haukur Haraldsson.