Fram á sjötta áratuginn byggði fyrirtækið á þeirri nálgun að kaupa vín af framleiðendum og selja undir eigin nafni. En fyrirtækinu óx ásmegin og faðir Torres hafði áhuga á að auka gæðin og stýra framleiðslunni betur.
Fram á sjötta áratuginn byggði fyrirtækið á þeirri nálgun að kaupa vín af framleiðendum og selja undir eigin nafni. En fyrirtækinu óx ásmegin og faðir Torres hafði áhuga á að auka gæðin og stýra framleiðslunni betur. — Ljósmyndir/Torres
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Stefán E. Stefánsson ses@mbl.is Frá árinu 1991 hefur Miguel Torres verið óskoraður leiðtogi vínrisans sem ber nafnið hans. Fyrirtækið var hins vegar stofnað af forfeðrum hans á 19. öld.

Stefán E. Stefánsson ses@mbl.is Frá árinu 1991 hefur Miguel Torres verið óskoraður leiðtogi vínrisans sem ber nafnið hans. Fyrirtækið var hins vegar stofnað af forfeðrum hans á 19. öld. Þá sem nú eru áskoranirnar margar en loftslagsváin er ofarlega í huga hins aldna höfðingja sem falið hefur afkomendum sínum hinn daglega rekstur fyrirtækisins sem teygir umsvif sín um heim allan.

Við ákváðum að mæla okkur mót með góðum fyrirvara og svo rann dagurinn upp. Þegar við tengdumst gegnum netið voru nokkrar vöflur á Miguel Torres og aðstoðarmaður hans tjáði mér að það hefði engu tauti verið komið við hann. Það kom ekki til greina að notast við annarra manna tölvu, hann vildi læra á Teams.

Það þurfti bara nokkrar mínútur til að koma hlutunum í rétt horf. Hann var fljótur að tileinka sér tæknina og þar hefur án efa komið sér vel það hugarfar sem einkennt hefur allan hans feril, þ.e. að leita nýrra tækifæra og hagnýta tæknina þar sem því verður við komið.

Miguel Torres ber stoltur nafnið sem tengt er einni þekktustu víngerð heims órofa böndum og segja má að fyrirtækið hafi verið eitt hið fyrsta til þess að ná sterkri stöðu á íslenska markaðnum. Saga þess teygir sig þó lengra aftur.

„Langafabróðir minn hafði búið á Kúbu í nokkur ár og hann fann fyrir áhuga heimamanna á því að komast í vín frá Spáni. Hann ræddi hugmyndina við langafa minn og þeir komu sér upp vínkjallara. Þeir keyptu vín af bændum og seldu í tunnum inn á markaðinn í Kúbu og til Mexíkó. Þetta voru einföld og ódýr vín.“

Fundu nýjan markað í Bandaríkjunum

Í miðri síðari heimsstyrjöldinni voru foreldrar Torres á faraldsfæti. Þau ákváðu árið 1941 að heimsækja viðskiptavini sína á Kúbu og á leið þaðan, komu þau við í New York þar sem þau leituðu tækifæra til þess að koma vínunum sínum á framfæri.

„Þar kom í ljós að Bandaríkjamenn vildu kaupa vín í flöskum en ekki á tunnum. Þeir gátu á þessum tíma ekki keypt vín frá Frakklandi því það var hernumið af Þriðja ríkinu. Þeir vildu geta keypt vín sem líktust Búrgúndí eða Chablis og jafnvel Sauternes. Faðir minn var snöggur til svars og sagði það ekki vera neitt einasta mál. Við eigum enn í dag flöskumiðana þar sem stóð á Chablis frá Spáni, svo dæmi sé tekið.“

Það var um svipað leyti sem faðir Miguel Torres hóf viðskipti við Ísland. Þurftu þau að eiga sér stað í formi vöruskipta þar sem spánski pesóinn naut ekki viðurkenningar í alþjóðlegum viðskiptum. Þar kom íslenski þorskurinn sér vel.

Seldi faðir þinn þorskinn áfram þegar skiptin höfðu átt sér stað?

„Já. En svo borðuðum við líka saltfisk á hverju kvöldi,“ segir hann léttur í bragði og minnist liðinnar tíðar. Síðan færðust hlutir í fastari skorður og hefðbundnari.

Minnist Torres þess að hafa tvívegis sótt Ísland heim, fyrst á áttunda áratugnum í viðskiptaerindum og svo á þeim níunda en þá í einkaerindum með konu sinni.

„Ég tók eftir því þegar ég kom fyrst til Íslands að það virtust allir þekkja Torres. Við höfðum ótrúlega sterka stöðu á markaðnum. Síðar ferðuðumst við um landið og það var stórkostleg upplifun,“ segir hann.

Yfir 1.000 hektarar í ræktun

Fram á sjötta áratuginn byggði fyrirtækið á þeirri nálgun að kaupa vín af framleiðendum og selja undir eigin nafni. En fyrirtækinu óx ásmegin og faðir Torres hafði áhuga á að auka gæðin og stýra framleiðslunni betur.

„Þetta var um svipað leyti og ég lauk námi í víngerð í Dijon [í Búrgúndí]. Þá varð stefnubreytingin og við tókum að kaupa ber til framleiðslunnar. Það var svo síðar sem ég fór að kaupa ræktarland undir starfsemina og nú er svo komið að við eigum yfir 1.000 hektara sem við ræktum auk þess að kaupa uppskeru af ræktendum sem við erum í miklum og góðum tengslum við.“

Vöxturinn hefur í raun verið ævintýralegur og er Torres í hópi stærri vínframleiðenda Spánar. Þá hefur fyrirtækið unnið sér virðingarsess og í fyrra var það útnefnt vinsælasta vörumerki í vínheiminum af Drinks International.

„Það eru sannarlega stærri vínframleiðendur en við á Spáni en það eru aðilar sem eru í ódýrari vínum en við,“ útskýrir Torres.

Barist gegn loftslagsbreytingum

Á síðustu áratugum hefur hann vakið athygli fyrir baráttu sína gegn loftslagsbreytingum. Hann segir að það sé barátta upp á líf og dauða fyrir fyrirtæki hans.

„Loftslagsbreytingarnar eru hræðilegar. Við höfum lengi haft miklar áhyggjur af þessu og það dró ekki úr þeim eftir að ég sá myndina Inconvenient Truth sem Al Gore framleiddi á sínum tíma. Við ákváðum að bregðast við enda er hækkandi hitastig fyrir talsvert löngu farið að hafa áhrif á framleiðsluna hjá okkur.“

Meðal þess sem Torres hefur gert er að kaupa land ofar í Píreneafjöllunum og á þar nú nokkur hundruð hektara lands. Fyrir hverja 100 metra sem ræktunin er færð ofar í fjöllin lækkar meðalhitastigið um u.þ.b. eina gráðu.

„Við gripum til svipaðra aðgerða í vínræktinni sem við erum með í Síle. Þar færðum við okkur sunnar þar sem loftslagið er svalara,“ útskýrir Torres en fyrirtæki hans var það fyrsta sem haslaði sér völl í víngerð þar í landi eftir að opnað var fyrir þann möguleika árið 1979.

„Við höfum einnig gert tilraunir sem miða að því að hægja á þroskaferli ávaxtarins. Það er grundvallaratriði. Það væri hægt að fylgjast með hlutunum breytast og taka uppskeruna inn í júlí. En þá missum við gæðin niður. Berin eru einfaldlega ekki tilbúin til vínframleiðslu svo snemma á sumrinu. Þau þurfa meiri tíma og við viljum að uppskeran eigi sér stað í september. Af hverju er það? Það er vegna næturkulsins sem þá er komið. Það tryggir gæðin, tannínin, bragðeiginleikana og sýrustigið sem við viljum ná fram í víninu,“ útskýrir Torres og snertir þar á þeim töfrum sem eiga sér stað á vínekrunum.

Þessar tilraunir hafa skilað árangri að sögn Torres og þeim hefur tekist að hægja á þroskaferli berjanna um 10 til 12 daga. Hann útskýrir einnig með tilþrifum hvaða aðferðir hafi dugað best. Þannig hafa þeir hætt að fjarlægja laufblöð efst af vínviðnum í lok júlí eins og hefðbundið var á árum áður. En það var gert til þess að tryggja næga sól á berin áður en kom að uppskeru. Nú veita þessi laufblöð vörn gegn sólinni og lækka hitastigið á berjunum. Fleiri leiðir hafa verið farnar og hefur t.d. gefist vel að hækka undir lægstu berjaklösunum, þ.e. að tryggja að þau ber sem liggja neðst á vínviðnum séu fjær jörðu en áður var. Það er gert því þar er heitara en þegar ofar dregur á stofninum.

„Þetta hefur virkað vel en við vitum ekki hversu lengi þetta dugar. Við höfum að sjálfsögðu áhyggjur af því. Við viðurkennum t.d. að við gætum þurft að skipta út þeirri þrúgutegund sem við notumst við í dag og taka þá upp tegundir sem þola betur hitann. Við erum í dag að nota Tempranillo en við gætum þurft að skipta því út fyrir Monastrell sem er þrúga sem á rætur að rekja til Alicante og er notuð í heitara loftslagi. Þetta er þróun sem er að eiga sér stað um alla Evrópu. Við sjáum þetta gerast í Frakklandi t.d.“

Aðgerðir Torres miða ekki aðeins að því að varðveita getu fyrirtækisins til þess að framleiða góð vín, þrátt fyrir hækkandi hitastig. Þar stendur einnig ríkur vilji til þess að stöða loftslagsbreytingar af mannavöldum og að draga úr þeim neikvæðu áhrifum sem umsvif fyrirtækisins hafa á umhverfið.

„Við höfum lengi fjárfest í lausnum sem draga úr neikvæðum áhrifum. Það á við um orkunýtingu. Við höfum t.d. nýtt lífmassa til gasframleiðslu og einnig höfum við byggt upp mikið magn sólarsella til þess að sækja orku í sólina. Þá höfum við einnig þróað tækni sem fangar gróðurhúsalofttegundir sem koma úr framleiðslunni.“

Sýnir hann mér m.a. hugmynd sem hann hefur unnið með sem miðar að því að byggja upp sólarsellur á grindum inni á vínekrunum. Með því skapast ekki aðeins aðstæður til þess að framleiða raforku heldur virkar búnaðurinn sem sólhlíf fyrir vínviðinn.

„Þetta lítur auðvitað dálítið skringilega út en við erum að skoða alla möguleika og okkar eina markmið er að tryggja gæðin í framleiðslunni.“

Í vínrækt fellur óhjákvæmilega til talsvert magn af koltvísýringi. Er það afleiðing af gerjun vínsins. Í tilfelli Torres eru það u.þ.b. 2.000 tonn á ári hverju.

„Þetta er náttúrulegur úrgangur en við viljum ekki að þetta losni út í andrúmsloftið. Við höfum því þróað búnað sem fangar koltvísýringinn. Og það er annað sem þetta gerir. Það þurfa í raun allar víngerðir á þessu efni að halda til þess að koma í veg fyrir að súrefni komist í of miklum mæli í vínið þegar það er komið á tanka. Þess vegna kaupa víngerðir það í talsverðum mæli á ári hverju. Við getum hins vegar notað okkar eigin koltvísýring í þessu skyni. Við sjáum fyrir okkur að þessi tækni okkar geti nýst þúsundum vínframleiðenda um heim allan og með því orðið hreyfiafl til þess að draga úr áhrifum okkar á loftslagið.“

Safna vatni yfir vetrartímann

Fleira nefnir hann í þessu sambandi sem kann að hljóma framandi. Þar á meðal gríðarleg haglél sem ganga yfir akrana, ekki síst þá sem liggja efst í landi. Á þetta sér stað á hásumri og getur í raun dritað niður uppskeruna. Þess vegna hefur verið brugðið á það ráð að leggja net yfir vínviðinn, honum til varnar og hefur það gefist vel.

Og baráttan á sér stað á fleiri vígstöðvum. Vínrækt er háð aðgengi að vatni, bæði í formi rigningar en einnig áveitu þar sem þess gerist þörf. Torres segir að eftir því sem hitinn eykst sé vandasamara að tryggja nægt vatn á ekrunum. Þannig hefur fyrirtækið gripið til viðamikilla aðgerða til þess að safna vatni yfir vetrartímann sem aftur má nota yfir heitasta tíma sumarsins til þess að næra vínviðinn. Um helmingur af ræktarlandi Torres nýtur nú áveituvatns.

Fyrir nokkru heyrði blaðamaður frásögn af því að Torres hefði farið víða í leit að ræktarlandi fyrir fjölskyldufyrirtækið. Sú leit hefði teygt sig alla leið til Svíþjóðar, þ.e. Gotlands. Ber ég það undir Torres sem bregst skjótt við:

„Já, það er rétt. Við skoðuðum m.a. möguleika á því að kaupa land á Gotlandi og við skoðuðum líka möguleika í Englandi. Þetta voru hins vegar staðir sem hentuðu ekki nægilega vel og spilaði þar margt inn í. Við höfum því heldur unnið með aðstæðurnar heima á Spáni og í Síle og m.a. fært okkur ofar í fjöllin eins og ég nefndi áður. “

Það er þó fleira sem Torres hefur einsett sér. Hann segist meðvitaður um mikilvægi þess að taka til í eigin garði en hann veit einnig að hann er í góðri aðstöðu til þess að þrýsta á aðra í vínheiminum. Þar dregur hann ekki af sér.

„Það hljóta allir að sjá þetta. Ég nefni bara skógareldana á Spáni, í Síle og í Kaliforníu. Þetta eru hræðilegar hamfarir og þegar þær nálgast ræktarlöndin okkar þá stikna berin og aska og sót leggst yfir uppskeruna sem eyðileggst. Sífellt hærra hitastigi fylgir alveg gríðarlegur eyðingarmáttur. Og öfgarnar eru í báðar áttir. Þrátt fyrir hinn mikla hita yfir sumartímann og fram á haustið þá finnum við sífellt meira fyrir næturfrosti á vorin. Það hefur gríðarleg áhrif á framleiðsluna og t.d. voru heilu svæðin í Frakklandi á nýliðnu ári sem glötuðu um 40% af væntanlegri uppskeru vegna þeirra.“

Hann segir að fleira þurfi að koma til. Þannig þurfi að auka endurnýtingu vínflaskna á markaðnum, ekki síst í flokki ódýrari vína. Þar þarf hins vegar að fá alla að borðinu og hefur hann m.a. átt í viðræðum við yfirvöld á vettvangi Evrópusambandsins um þetta efni.

„Við þurfum að fá alla með okkur í þetta og við verðum að sammælast um samræmdar flöskugerðir, sennilega tvær til þrjár tegundir sem allir geta fellt sig við að nota. Þetta gæti haft mikil jákvæð áhrif að mínu mati, “ segir Torres.

Sérstök afmælisútgáfa fyrir Ísland

Árið 2019 mynduðu Torres og vínframleiðandinn Jackson Family í Kaliforníu nýjan aðgerðahóp sem nefnist International Wineries for Climate Action. Í hann geta vínframleiðendur gengið en þeir þurfa að leggja talsvert á sig til þess.

„Við lítum ekki á það sem framlag til baráttunnar við loftslagsbreytingar að kaupa sig frá vandanum með einum eða öðrum hætti. Menn geta reynt að núllstilla sig með því að fjármagna skógrækt í Indlandi, sem svo verður kannski aldrei að veruleika. Við viljum sjá fyrirtækin taka til í eigin ranni og við höfum skuldbundið okkur til þess að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 80% fyrir árið 2045. Og það er ekki nóg að stefna að þessu. Þau verða nú þegar að hafa lokið við að draga saman um 25-30%. Það eru þrjú ár síðan við ýttum þessu úr vör og núna eru um 30 víngerðir með okkur í þessu.“

Það er ljóst af samtalinu við Miguel að hann er ekki af baki dottinn og hefur skýra sýn á það hvert fyrirtækið sem hann hefur helgað líf sitt og krafta á að stefna. Hann trúir því að góð vín verði áfram framleidd með ábyrgum hætti.

Hann segist einnig gleðjast mjög yfir því langa og farsæla samstarfi sem Torres-fjölskyldan hefur átt við birgja á Íslandi. KalliK er umboðsaðili hennar hér á landi og hafa fyrirtækin tekið höndum saman og sent frá sér sérstaka afmælisútgáfu af einu vinsælasta víni hússins. Það er Gran Coronas Reserva frá hinu athyglisverða sumri 2017. Það er 70% Cabernet Sauvignon og 30% Tempranillo. Afar aðgengilegt vín, bæði þegar litið er til verðs og bragðeiginleika.

„Þetta þótti okkur við hæfi og flaskan er skreytt sérstökum miða sem undirstrikar 55 ára formlegt samstarf. Á baki flöskunnar vekjum við líka athygli á ekru í landi okkar sem nefnist Vina Islandia. Hún fékk þetta nafn árið 1974 en þá heimsóttu okkur yfirmenn ríkisstofnunarinnar sem annast áfengissöluna á Íslandi. Þarna ræktum við Cabernet Sauvignon sem m.a. fer í þetta tiltekna vín.“

(Nánar verður fjallað um Gran Coronas Reserva í ViðskiptaMogganum innan tíðar.)