Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Annir hafa verið hjá útfararstofum, prestum og öðrum sem koma að jarðarförum. Hefur það skapað erfiðleika við að komast að í kirkjum og birgðir af einstaka gerðum líkkista hafa gengið til þurrðar hjá sumum útfararstofum.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Annir hafa verið hjá útfararstofum, prestum og öðrum sem koma að jarðarförum. Hefur það skapað erfiðleika við að komast að í kirkjum og birgðir af einstaka gerðum líkkista hafa gengið til þurrðar hjá sumum útfararstofum. Fyrirtækin hafa hjálpað hvert öðru þannig að ekki hafa skapast stór vandræði og þessa dagana eru stórar sendingar af líkkistum að koma til landsins, samkvæmt upplýsingum útfararstofa.

Guðný Hildur Kristinsdóttir, framkvæmdastjóri Útfararstofu kirkjugarðanna, staðfestir að mikið hafi verið að gera í útfararþjónustunni í febrúar og mars. Frímann Andrésson, útfararstjóri hjá Frímanni og Hálfdáni útfararþjónustu í Hafnarfirði, tekur í sama streng en nefnir sérstaklega undanfarnar tvær til þrjár vikur. Hvorugt getur sagt til um ástæðuna fyrir mörgum dauðsföllum um þessar mundir. Frímann bendir á að dánartíðni gangi í sveiflum yfir árið. Hvorugt treystir sér til að tengja annirnar nú við dauðsföll vegna Covid-19.

Sending bjargar málunum

Yfirleitt eru allmiklar birgðir af líkkistum í landinu. Hratt hefur gengið á birgðir útfararþjónusta að undanförnu og hefur Útfararþjónusta kirkjugarðanna orðið uppiskroppa með ákveðnar gerðir af kistum. Guðný segir að seinkun á flutningi pantana frá Danmörku þar sem kisturnar eru mikið keyptar bætist við óvenjumörg dauðsföll. Frímann og Hálfdán útfararþjónusta gat hlaupið undir bagga með Útfararþjónustu kirkjugarðanna í þessu tilviki. „Útfararþjónusturnar vinna vel saman og allir eru tilbúnir að hjálpast að,“ segir Guðný Hildur og getur þess að málið leysist með stórri líkkistusendingu sem væntanleg sé til landsins í dag. Frímann Andrésson segir að hans fyrirtæki eigi von á gámi með kistum strax eftir helgi.

Báðar þessar útfararstofur útvega samstarfsaðilum sínum úti á landi líkkistur og hafa getað gert það þrátt fyrir að birgðirnar hafi verið í lágmarki að undanförnu.