[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
* Andrea Rán Hauksdóttir varð í fyrrinótt fyrst Íslendinga til að spila deildaleik í mexíkósku knattspyrnunni þegar lið hennar Club América sótti heim lið Toluca. Andrea kom inn á sem varamaður á 80.

* Andrea Rán Hauksdóttir varð í fyrrinótt fyrst Íslendinga til að spila deildaleik í mexíkósku knattspyrnunni þegar lið hennar Club América sótti heim lið Toluca. Andrea kom inn á sem varamaður á 80. mínútu í 4:0-sigri América, sem er frá Mexíkóborg, en Sara Luebbert , lánsmaður frá Chicago Red Stars í Bandaríkjunum, skoraði tvö marka Ameríca í leiknum. América er í fjórða sæti deildarinnar með 25 stig úr ellefu leikjum, fimm stigum á eftir toppliðinu Monterrey, en núna stendur yfir seinni hluti tímabilsins, Clausura.

*Enski knattspyrnumaðurinn Sammie McLeod er kominn til liðs við Þór á Akureyri frá norðurírska félaginu Portadown. McLeod er 21 árs gamall miðjumaður sem lék m.a. með U18-ára liði Leicester City en hefur síðan spilað með enskum utandeildaliðum, leikið með Colchester í ensku D-deildinni og nú síðasta árið með Portadown.

*Bandaríkjamaðurinn Phil Mickelson verður ekki á meðal keppenda á Masters-mótinu, fyrsta risamóti ársins í golfi, en hann hefur unnið mótið í þrígang og keppt á því á ári hverju síðustu 29 ár. Mickelson, sem er 51 árs, lét umdeild ummæli falla um Sádi-Arabíu á dögunum, þar skaut hann föstum skotum á mannréttindi Arabíuríkisins. Mickelson hefur ekkert keppt síðan hann lét ummælin falla en hann gaf í skyn í yfirlýsingu á dögunum að hann myndi taka sér hlé frá atvinnugolfi.

* LeBron James var sterkur fyrir Lakers á gamla heimavellinum í Cleveland þegar liðin mættust þar í NBA-deildinni í körfubolta í fyrrinótt. James skoraði 38 stig, tók 11 fráköst og gaf 12 stoðsendingar og Lakers vann mikilvægan útisigur, 131:120. Lakers er í níunda sæti Vesturdeildar og er í harðri baráttu um að komast í umspilið þegar tíu leikjum er ólokið. Liðin í sjöunda til tíunda sæti fara í umspil um tvö sæti í sjálfri úrslitakeppninni. Lakers er nú þremur sigurleikjum á undan San Antonio Spurs sem er í ellefta sæti.