Eyðilegging Verslunarmiðstöð í Kænugarði í rúst eftir árás Rússa.
Eyðilegging Verslunarmiðstöð í Kænugarði í rúst eftir árás Rússa. — AFP
Evrópusambandið er með í undirbúningi stofnun öflugs sjóðs til að styðja við uppbyggingu Úkraínu þegar stríðinu í landinu lýkur. Þetta kom fram í gær í tengslum við tveggja daga fund leiðtogaráðs sambandsins sem hefst í Brussel í dag.

Evrópusambandið er með í undirbúningi stofnun öflugs sjóðs til að styðja við uppbyggingu Úkraínu þegar stríðinu í landinu lýkur. Þetta kom fram í gær í tengslum við tveggja daga fund leiðtogaráðs sambandsins sem hefst í Brussel í dag. Innrás Rússa í Úkraínu og afleiðingar hennar er meginefni fundarins.

Ljóst er að mikils fjármagns verður þörf þegar árásum Rússa linnir. Gífurleg eyðilegging hefur orðið á mannvirkjum í landinu, íbúðarhúsum, verslunarhúsum, sjúkrahúsum, opinberum stofnunum, flugvöllum og margs konar öðrum samgöngumannvirkjum og vegum.

Ekkert liggur á þessu stigi fyrir um hve mikið fjármagn verður látið renna í sjóðinn eða hvernig hann mun starfa. Undirbúa embættismenn ESB nú slíkar reglur sem síðan verða að fá samþykki leiðtoganna. Í drögum að samþykkt um sjóðinn er talað um að kalla saman alþjóðlega ráðstefnu honum til undirbúnings og kann því að vera að lönd utan sambandsins muni eiga aðild að honum.

Charles Michel, forseti leiðtogaráðs ESB, greindi Selenskí, forseta Úkraínu, frá áformunum í símtali á föstudaginn. Sagði hann þá að fyrsta verkefni sjóðsins væri að koma almenningi til aðstoðar og styðja nauðsynlegustu uppbyggingu mikilvægustu innviða samfélagsins.

Úkraínumenn vilja aðild að ESB sem fyrst en skoðanamunur er innan sambandsins um hve hratt sé hægt að bregðast við þeirri ósk.

Joe Biden Bandaríkjaforseti mun koma á leiðtogafundinn á fimmtudaginn, en hann er m.a. á leið til Póllands þar sem hann ræðir við stjórnvöld og hittir flóttafólk frá Úkraínu.