[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Alls bjuggu 376.248 á Íslandi hinn 1. janúar síðastliðinn. Íbúum landsins hafði fjölgað um 7.456 frá því í ársbyrjun 2021, eða um 2%. Alls voru 193.095 karlar og 183.

Alls bjuggu 376.248 á Íslandi hinn 1. janúar síðastliðinn. Íbúum landsins hafði fjölgað um 7.456 frá því í ársbyrjun 2021, eða um 2%. Alls voru 193.095 karlar og 183.153 konur búsettar á landinu í upphafi ársins og fjölgaði körlum um 2,1% árið 2021 en konum um 1,9%, að því er fram kemur í yfirliti Hagstofu Íslands.

Þar kemur einnig fram að hlutfallsleg fólksfjölgun var mest á Suðurlandi. Á höfuðborgarsvæðinu bjuggu 4.354 fleiri 1. janúar 2022 en fyrir ári. Það jafngildir 1,8% fjölgun íbúa á einu ári en fjölgunin nam 3,3% á Suðurlandi. Á Suðurnesjum var fólksfjölgun 3,2%. Minnst fjölgun varð á Norðurlandi vestra en þar fjölgaði einungis um fimm einstaklinga eða 0,07%.

Reykjavík var sem fyrr fjölmennasta sveitarfélagið með 135.688 íbúa í fyrra en Árneshreppur á Ströndum það fámennasta með 42 íbúa.

Í samantekt Hagstofunnar kemur fram að árið 2021 fækkaði íbúum í 18 af 69 sveitarfélögum landsins og var fækkunin hlutfallslega mest í Eyja- og Miklaholtshreppi (14,2%). Þegar horft er til ellefu stærstu sveitarfélaganna með 5.000 íbúa eða fleiri fjölgaði hlutfallslega mest í Garðabæ (4,3%), Reykjanesbæ (3,8%) og Sveitarfélaginu Árborg (3,7%).

Minnst fjölgun í Hafnarfirði

Fjölgun var einnig yfir landsmeðaltali í Mosfellsbæ (3,5%), Fjarðabyggð (2,5%) og á Akureyri (2,2%) en fjölgun var undir landsmeðaltal á Akranesi (1,9%), Reykjavík (1,8%), Kópavogi (1,7%) og Múlaþingi (0,7%). Af 11 stærstu sveitarfélögunum fjölgaði minnst í Hafnarfirði (0,3%).