Skemmdarverk Slökkviliðsbíll á leikskólanum fékk ekki að vera í friði.
Skemmdarverk Slökkviliðsbíll á leikskólanum fékk ekki að vera í friði. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is „Maður hefði haldið að svona gerði fólk ekki á leikskólum en þarna er einhver sem vildi vera leiðinlegur,“ segir Halldóra Guðmundsdóttir, leikskólastjóri á Dvergasteini við Seljaveg í Vesturbæ Reykjavíkur.

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Maður hefði haldið að svona gerði fólk ekki á leikskólum en þarna er einhver sem vildi vera leiðinlegur,“ segir Halldóra Guðmundsdóttir, leikskólastjóri á Dvergasteini við Seljaveg í Vesturbæ Reykjavíkur.

Óskemmtileg sjón blasti við starfsfólki og börnum á leikskólanum í gærmorgun. Fjólubláu spreyi hafði verið sprautað á húsnæði leikskólans, leiktæki og leikföng. Rótað hafði verið í dótaskúrum. „Það var búið að skrifa „dick“ á slökkviliðsbílinn okkar. Þarna var ekki verið að fá útrás fyrir listræna hæfileika, þetta var bara gert til að subba út,“ segir Halldóra.

Spreybrúsarnir voru skildir eftir á vettvangi og Halldóra hafði samband við lögreglu vegna málsins. Hún beið þess síðdegis í gær að heyra frá nágrönnum um það hvort einhver hefði séð til skemmdarvarganna. Þá kvaðst hún vonast til þess að starfsmenn borgarinnar myndu þrífa krotið af hið fyrsta. „Börnin tóku auðvitað eftir þessu um leið. Þau voru ofboðslega hneyksluð og leið yfir þessu. Því er mikilvægt að þetta verði hreinsað af sem fyrst.“