Jóna Magnea Snævarr fæddist á Sökku í Svarfaðardal 9. febrúar 1925. Hún lést á Dvalar- og hjúkrunarheimilinu Grund 8. mars 2022.

Foreldrar hennar voru hjónin Rósa Þorgilsdóttir, f. 23. ágúst 1895, d. 10. september 1988, og Gunnlaugur Gíslason, f. 27. mars 1898, d. 4. janúar 1992. Systkini Jónu eru fjögur: Dagbjört Stephensen, Halldóra Gunnlaugsdóttir, látin, Þorgils Gunnlaugsson, og fósturbróðirinn Halldór Arason, látinn.

Eiginmaður Jónu var sr. Stefán V. Snævarr prófastur, hann lést 26. desember 1992. Þau gengu í hjónaband 1. júní 1947. Börn Jónu og sr. Stefáns: 1) Stefanía R. Snævarr kennari, maki dr. Ingimar Einarsson, félags- og stjórnmálafræðingur. Börn þeirra eru: a) Stefán Þór lögmaður, maki Anna Guðrún Birgisdóttir viðskiptafræðingur, synir þeirra eru Stefán Gunnar, Birgir Hrafn og Valdemar Björn. b) Inga Jóna hjartalæknir, maki Gunnar Jakob Briem verkfræðingur, stjúpsynir hennar, synir Gunnars, eru Baldur Fróði, Jakob Orri og Ari Sigurður. 2) Gunnlaugur V. Snævarr, kennari og yfirlögregluþjónn, lést 18.9. 2021, maki Auður Adamsdóttir kennari, dóttir hennar og stjúpdóttir Gunnlaugs er Þórhildur Erla Pálsdóttir kennari. 3) Ingibjörg A. Snævarr leikskólakennari.

Jóna ólst upp á Sökku við hefðbundin sveitastörf og stundaði nám í barna- og unglingaskóla sveitarinnar. Hún lauk gagnfræðaprófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1944 og stundaði nám við Húsmæðraskólann á Akureyri veturinn 1945-1946.

Jóna og sr. Stefán bjuggu fyrstu árin á Völlum í Svarfaðardal og stunduðu þar búskap meðfram prestsstarfinu til ársins 1960. Árið 1968 fluttu þau hjón til Dalvíkur.

Lífsstarf Jónu, auk þess að sinna búi og börnum, var að miklu leyti tengt starfi sr. Stefáns. Heimilið var mannmargt og oft var mikill gestagangur. Á prestssetrið áttu sóknarbörn fjögurra kirkjusókna oft erindi, bæði í gleði og sorg, og reyndi þá á hlutverk og einstaka hæfileika hennar.

Þegar kom að starfslokum sr. Stefáns árið 1984 fluttu þau hjón suður á Seltjarnarnes til að njóta návistar við börn og barnabörn sem búsett voru á höfuðborgarsvæðinu. Eftir lát sr. Stefáns bjó Jóna í skjóli barna sinna þar til hún flutti á Dvalar- og hjúkrunarheimilið Grund, haustið 2017.

Jóna var afar listhneigð og naut þess mjög að sinna ýmiss konar tómstundastarfi og handavinnu eftir að hún flutti suður þar til sjónin tók að daprast. Hún var fjölhæf, saumaði út, mótaði úr leir, málaði á postulín og flísar og skar út í tré auk þess að prjóna og hekla.

Útför Jónu fer fram frá Neskirkju í dag, 23. mars 2022, kl. 13. Hlekkur á streymi:

https://youtu.be/ZZWgVICdz6M

https://www.mbl.is/andlat

Það hefði verið gaman að þekkja og geta fylgst með Jónu þegar hún var og hét og stjórnaði stórum heimi á Völlum í fegursta dal landsins, að margra mati, Svarfaðardal. Þangað sem hún gat horft sem barn af hlaðinu á Sökku, þar sem hún gekk í hjónaband, eignaðist börnin og ól upp, tók á móti gestum og gangandi, sinnti þeim sem komu og áttu margvísleg erindi við Stefán manninn hennar, prest og prófast, hélt öllu hreinu og fínu ásamt því að sinna daglegum þörfum heimilisfólksins. Hún gleymdi ekki að hafa gleðina meðferðis, að ég tali nú ekki um góðlátlega stríðnina. Verkin sem biðu voru ekki alltaf auðveld en þeim þurfti að sinna. Vellir voru hennar heimur og vinnustöð stóran hluta ævinnar.

En hvað gerði Jóna þegar tími gafst til annars en að vinna vinnuna? Hún talaði við fólkið sitt, vann fínni handavinnu, las sögur og ljóð sem hún lærði og kunni allt fram til síðasta dags. Nokkrum dögum fyrir andlátið fór hún með Fjallið Skjaldbreiður og gott ef ekki Gunnarshólma líka ef hún var minnt á fyrstu hendinguna. Það var alveg sama hvort vísan var eftir sveitunga hennar eða ljóðið eftir stórskáldin okkar, hún kunni það. Kynslóð Jónu lét aldrei verk úr hendi falla, gat ekki leyft sér það og kunni eiginlega að gera allt sem gera þurfti. Í mínum huga kunni Jóna allt. Hún kunni meira að segja á gsm-síma, en það vefst fyrir mörgum sem yngri eru.

Þegar Jóna varð áttræð var töluverðu af handavinnu hennar safnað saman þar sem afmælisgestir gátu séð hvað hún hafði unnið á langri ævi en einnig það sem hún hafði lært í vinnustofunni á Aflagranda. Mikil og margvísleg vinna unnin af natni og vandvirkni úr misjöfnum efniviði. Öll vinna lék í hennar fallegu höndum. Ég spurði hana aldrei hvaða vinna henni hefði þótt skemmtilegust en ég veit að henni fannst mjög gaman að móta úr leir og eigum við fjölskyldan marga fallega muni eftir hana sem minna okkur á hagleik, dugnað, útsjónarsemi, áræði og iðni.

Þegar komið er að því að kveðja get ég ekki annað en þakkað fyrir afar góð og skemmtileg kynni við Jónu tengdamóður mína og sagt eins og hún gerði gjarnan: vertu blessuð ævinlega Jóna mín!

Auður Adamsdóttir.

Það er dýrmætt að fá að verða samferða ömmu sinni jafnlengi og ég fékk að gera. Amma náði 97 ára aldri og það var í raun ekki fyrr en Covid skall á að minnið fór aðeins að gefa sig enda var henni erfitt að mega ekki umgangast sína nánustu svo vikum og mánuðum skipti. Ávallt hélt hún í léttleikann og jákvæðnina og sagði að maður yrði bara að vera duglegur og hugsa jákvætt því annað skilaði engum árangri. Aldrei heyrði ég ömmu hallmæla nokkrum manni og hún blótaði aldrei en sagði í staðinn „hver röndóttur!“ þegar aðrir hefðu bölsótast. Hún var alin upp á Sökku í Svarfaðardal og var elst fjögurra systkina en Halldór náfrændi hennar var tekinn í fóstur eftir að móðir hans lést og voru þau jafngömul. Á æskuheimilinu var mikið lesið, bæði fornbókmenntir en einnig fylgst vel með tíðarandanum. Hún var dugleg, aðstoðaði föður sinn oft úti á túni við erfiðisvinnu og hún lærði handtökin í eldhúsinu hjá móður sinni. Árið 1934, þegar hún var níu ára, reið stóri jarðskjálftinn yfir Norðurland og hún lýsti því oft hvernig þau duttu öll um koll úti á engi og hlíðin gekk öll í bylgjum.

Amma tilheyrði þeirri kynslóð sem upplifað hefur hvað mestan uppgang á sínum ævitíma. Hún ljómaði t.d. öll þegar hún var að segja manni frá þeirri ótrúlegu upplifun að fá stígvél í fyrsta sinn og svo síðar þegar sjálfvirka þvottavélin kom til sögunnar. Hún gekk tvo vetur í Menntaskólann á Akureyri og fór í húsmæðraskóla. Stuttu síðar giftist hún afa mínum, séra Stefáni V. Snævarr, sem hlotið hafði brauð sitt á Völlum, steinsnar frá Sökku. Sem ung prestsfrú á Völlum rak hún stórt heimili en auk þeirra hjóna og þriggja lítilla barna bjuggu þar tengdaforeldrar hennar, móðursystir afa og vinnufólk. Amma sinnti starfi sínu sem prestsfrú af stakri prýði og hafði umsjón með bústörfum sem voru afa mínum ekki töm. Á heimilinu voru um tíma danskir vinnumenn og héldu afi og amma góðu sambandi við þá eftir að þeir sneru aftur til heimalandsins.

Hún var einstaklega góð og hafði breiðan faðm. Í minningunni var alltaf til jólakaka og ísköld mjólk til að sitja yfir í eldhúsinu og spjalla. Afi og amma voru afar náin. Afi hafði mikinn áhuga á knattspyrnu og eftir að sjón hans fór að daprast settist amma við hlið hans og lýsti öllum leikjum fyrir honum. Eftir fráfall afa árið 1992 hafði íþróttabakterían tekið sér bólfestu í henni. Maður heyrði hana stappa stálinu í liðið ef það var undir og aldrei varð hún leið þótt illa gengi. Þessi íþróttaáhugi fréttist. Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu sendi henni áritaða landsliðstreyju árið 2015 sem hún klæddist við áhorf landsleikja eftir það. Það gladdi hana sérstaklega að ég skyldi ljúka læknanámi og henni varð tíðrætt um áhuga sinn á þessu sviði og við vorum sammála um að hún hefði orðið góður læknir hefði hún fengið þau tækifæri sem ég hef fengið. Við í nánustu fjölskyldunni erum óendanlega þakklát fyrir að hafa átt svona yndislega, hlýja og góða ættmóður og þökkum henni samfylgdina og samgleðjumst henni að vera komin í faðm afa á ný.

Inga Jóna Ingimarsdóttir.

Nú eru mæðginin Jóna og Gunnlaugur Snævarr bæði farin yfir móðuna miklu. Gulli Valdi og séra Stefán taka á móti Jónu fagnandi og leiða hana inn í ljósið. Jóna Snævarr er látin 96 ára að aldri. Hún var stóra hjartað á prestsheimilinu á Völlum í Svarfaðardal. Alltaf stafaði birtu og hlýju frá henni og oft komum við á heimili hennar. Séra Stefán og pabbi voru aldavinir og samherjar í kirkjustarfi og ég og Gulli jafnaldrar og skólabræður. Systurnar Stebba Rósa og Inga bera foreldrum sínum vitni í glaðværð, einlægni og elskusemi. Missir þeirra er mikill og hugur okkar er hjá þeim. Mamma og Jóna voru að sjálfsögðu bestu vinkonur og augljóst að mömmu leið alltaf vel nálægt henni. Ekki síst þegar fjölskyldurnar komu saman til laufabrauðsgerðar á heimili Jónu og séra Stefáns og síðar á heimili Jónu og Ingu dóttur hennar á Seilugranda - en þá var alltaf stórhátíð, næstum eins og jólin sjálf. „Ekki þótti mér verra að þú skyldir setja nöfnin okkar saman,“ sagði hún við mig og brosti sínu sérstaka brosi þegar ég sýndi henni yngri dóttur mína Sólveigu Jónu í fyrsta skiptið. Guð blessi minninguna um þessa elskulegu konu og huggi og styrki Stebbu og Ingu og barnabörnin.

Pétur, Kristín og Sólveig Pétursbörn og Sólveigar.