[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Guðni Einarsson gudni@mbl.is Óbyggð víðerni eru einkennandi fyrir umtalsverðan hluta íslensks landslags.

Sviðsljós

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Óbyggð víðerni eru einkennandi fyrir umtalsverðan hluta íslensks landslags. Á það meðal annars við um stór landsvæði á miðhálendinu,“ segir í ágripi af skýrslu sem Wildland Research Institute (WRi) gerði fyrir Náttúruverndarsamtök Íslands, Samtök um náttúruvernd á Norðurlandi, Skrauta náttúruverndarsamtök og Unga umhverfissinna.

Sérfræðingar Leeds-háskóla önnuðust kortlagninguna undir forystu dr. Stephens Carvers, forstöðumanns WRi. Hann kynnti skýrsluna í sal Þjóðminjasafnsins í gær. Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, ávarpaði fundinn auk fleiri ræðumanna.

Í skýrslunni segir að það að standa vörð um og viðhalda óbyggðum víðernum sé efst á lista útfærðra markmiða Rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um líffræðilegan fjölbreytileika fyrir árið 2030. Þá er minnt á að víðernaskrá Evrópusambandsins frá 2013 sýndi að tæplega 43% af „villtustu“ víðernum Evrópu var að finna á Íslandi.

Víðernagæði voru greind fyrir miðhálendi Íslands. Greiningin var notuð til að skilgreina alls 17 víðernasvæði sem standast skilgreiningu Alþjóðanáttúruverndarsambandsins (IUCN) á óbyggðum víðernum (flokkur lb). Einnig skilgreiningu Wild Europe fyrir víðerni, en hún útfærir og lagar fyrrnefndu skilgreininguna að Evrópu. „Þetta er sagt með þeim fyrirvara að tekið sé á beit og utanvegaakstri á snjó og ís á svæðunum sem skýrslan tilgreinir,“ segir í ágripi.

Víðernasvæðin ná samtals til um 47% af miðhálendinu, eins og það er skilgreint í skýrslunni, eða 55.400 ferkílómetra. Einnig þriggja víðernasvæða utan miðhálendisins. Þar af eru 19.500 ferkílómetrar þjóðlendur og 8.970 ferkílómetrar í einkaeign. Skýrsluhöfundar segja að til grundvallar rannsóknunum sé beitt alþjóðlega viðurkenndri aðferðafræði með hárri upplausn og byggt á bestu fáanlegum gögnum frá innlendum og alþjóðlegum stofnunum.

Við víðernagreininguna voru gerð líkön byggð á þremur meginþáttum sem áhrif hafa á víðernagæði á Íslandi. Fyrst fjarlægð frá vélknúnum aðgangi, mæld sem göngutími frá vegum sem opnir eru almenningi. Í öðru lagi sjónræn áhrif frá mannlegum vegsummerkjum, mæld sem fjöldi og umfang mannvirkja sem sjást, eins og vegir, byggingar, loftlínumöstur og fleira. Í þriðja lagi náttúrulegt yfirbragð lands. Það var mælt sem hlutfall mismunandi gróðurþekju og tegunda landnotkunar.

„Með því að leggja þessa þrjá eiginleika víðernasvæða saman í eitt og sama kortið sést breytileiki víðernagæða allt frá minnstu til mestu víðernanna. Tölfræðilegum aðferðum er síðan beitt til að greina dreifingu víðernagildanna á öllu miðhálendinu og skipta því upp í víðernasvæði með víðernaleiðbeiningar verndarflokks lb hjá IUCN og skilgreiningu Wild Europe að leiðarljósi,“ segir í ágripinu.

Svæðunum var skipt í þrennt. Það er ósnortnustu kjarnasvæðin, svo jaðarsvæði víðernanna og loks hjúpinn þar á milli. „Kjarnasvæðin eru mest jöklar og aðliggjandi svæði auk nokkurra stórra svæða utan jökla sem samanstanda af afskekktu eldfjallalandslagi og víðfeðmum sléttum með ferkvatnslindum sem eru einkennandi fyrir landslag miðhálendisins.“

Úr þessari greiningu komu 17 víðernasvæði. Af þeim eru 14 innan miðhálendisins, eins og það er skilgreint, og þrjú utan þess. Alls eru þetta 28.470 ferkílómetrar af víðernasvæðum. Þar af eru 26.404 ferkílómetrar innan miðhálendisins og 2.066 ferkílómetrar utan þess.

Í skýrslunni segir að nákvæmni greininganna sé mun meiri en tíðkast hefur hér og aðferðin við víðernakortlagningu þróaðri en áður.