Leit Eldra fólk að taka saman eigur sínar í íbúðabyggingu sem varð fyrir sprengingu fyrir þremur dögum. Ein hlið byggingarinnar er horfin.
Leit Eldra fólk að taka saman eigur sínar í íbúðabyggingu sem varð fyrir sprengingu fyrir þremur dögum. Ein hlið byggingarinnar er horfin. — Morgunblaðið/Óskar Hallgrímsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Lilja Hrund Ava Lúðvíksdóttir liljahrund@mbl.is „Það eru engar góðar fréttir í stríði,“ segir Óskar Hallgrímsson, ljósmyndari og íbúi í Kænugarði í Úkraínu.

Lilja Hrund Ava Lúðvíksdóttir

liljahrund@mbl.is

„Það eru engar góðar fréttir í stríði,“ segir Óskar Hallgrímsson, ljósmyndari og íbúi í Kænugarði í Úkraínu. Landher Rússa hefur undanfarna daga og vikur átt á brattann að sækja í Úkraínu, en flugskeytum hefur haldið áfram að rigna yfir borgina, þó að þau séu í flestum tilvikum skotin niður af her Úkraínu.

Hrottaleg vinnubrögð

„Rússar eru að tapa þessu stríði en á móti kemur að þeir eru nánast eingöngu farnir að skjóta á borgaraleg skotmörk og farnir að beita hrottalegum vinnubrögðum,“ segir Óskar. „Þeir henda handsprengjum inn í hús, safna saman bílum og ráðast síðan á þá. Þeir fóru og skutu á elliheimili og drápu 56 eldri borgara. Þessir hlutir eru að gerast út um allt land. Sorgin og reiðin er farin að taka á. Það eru komnar fjöldagrafir fyrir börn í Maríupol því þeir hafa verið að ráðast á barnaspítala. Ég get haldið áfram endalaust að lista upp þessa stríðsglæpi,“ segir Óskar.

Úkraínski herinn er vel vopnum búinn að sögn Óskars og sömuleiðis töluvert betur búinn en sá rússneski þegar kemur að fatnaði og fæði. Rússneskir hermenn hafi jafnvel brugðið á það ráð að stela skófatnaði af úkraínskum hermönnum þar sem búnaður þeirra síðarnefndu sé mun betri en þeirra. Þá séu úkraínskir hermenn töluvert betur hvíldir en þeir rússnesku.

„Þeir eru búnir að vera í þessu stríði í átta ár og þeir eru mjög góðir í að vera í þessu stríði,“ segir Óskar og bætir við:

„Hinum megin er allt hrunið, það er engin yfirstjórn yfir rússneska hernum, hún er öll fallin. Allar samskiptalínur hafa hrunið og þeir þurfa að treysta á farsíma. Þeir hafa þurft að ræna öllum mat og eru ekki með eldsneyti. Það er svo margt sem er að svo að landherinn er eitthvað sem fólk hefur engar áhyggjur af.“