[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Óli Stefáns Runólfsson fæddist 23. mars 1932 í Húsavík við Steingrímsfjörð í Strandasýslu. Hann ólst þar upp og vann sín bernsku- og unglingsár við landbúnaðarstörf.

Óli Stefáns Runólfsson fæddist 23. mars 1932 í Húsavík við Steingrímsfjörð í Strandasýslu. Hann ólst þar upp og vann sín bernsku- og unglingsár við landbúnaðarstörf.

Hann gekk í barnaskóla þar í sveitinni, lauk síðar iðnskólaprófi í rennismíði og síðar meistararéttindum í þeirri iðn árið 1965.

Óli vann að ýmsum iðnaðarstörfum áður en hann fór í iðnnám s.s. við trésmíðar og múrverk en hóf svo verknám í rennismíði hjá Agli Vilhjálmssyni hf. Vann hann þar að námi loknu uns hann keypti renniverkstæðið af Agli árið 1984, ásamt sex vinnufélögum sínum. Verkstæðið var í þeirra rekstri til ársins 2004 en þá var það selt. Óli var formaður fyrirtækisins öll árin sem það starfaði.

Félagsmál brenna á honum og var hann m.a. í stjórn félags járniðnaðarmanna í nokkur ár. Hann sótti ýmsar ráðstefnur, samkomur og atburði fyrir félagið og hlaut gullmerki félagsins fyrir störf sín.

Óli hefur skrifað nokkrar greinar í blöð og tímarit, aðallega um kjör eldri borgara. Hann fór til Austur-Þýskalands í boði verkalýðsfélaga, það var áður en múrinn féll. „Það var mjög uppbyggileg ferð og áhugaverð. Hún sýndi margt um afkomu fólks og hvernig var búið að verkalýðnum.“ Óli skrifaði tveggja blaðsíðna grein um ferðina sem birtist í dagblaðinu Tímanum 17. og 18. febrúar 1983.

Hjónin eignuðust sumarbústað í landi Hallkelshóla í Grímsnesi árið 1996. „Þá tók við mikið starf í endurbótum og viðhaldi og eru margar góðar minningar þar með börnum og barnabörnunum. Mér finnst gaman að vera í mannlegum samskiptum og fylgjast með því sem er að gerast, bæði heima og erlendis. Göngutúrar eru hressandi og sund mikil heilsubót, þá er dansinn mikið stundaður. Einnig hef ég gaman af vísum og hef aðeins lagt það fyrir mig að kveða vísur.“ Óli er að auki mjög handlaginn og þúsundþjalasmiður.

Óli verður að heiman á afmælisdaginn.

Fjölskylda

Eiginkona Óla er Guðbjörg Vilhjálmsdóttir, f. 31.5. 1942, húsmóðir, fyrrverandi skólaliði og sinnti einnig þjónustustörfum. Þau bjuggu á Háaleitisbraut mestalla sína búskapartíð, fyrst á nr. 49 og síðan nr. 15, en búa núna í Breiðholti. Foreldrar Guðbjargar voru hjónin Vilhjálmur Kristinn Ingibergsson, f. 30.11. 1909, d. 20.4. 1988, húsasmíðameistari, og Ragnheiður Þórunn Jónsdóttir, f. 18.5. 1917, d. 18.1. 1997, húsmóðir. Þau bjuggu síðast á Grund í Reykjavík.

Dætur Óla og Guðbjargar eru: 1) Guðrún Heiður, f. 16.4. 1965, deildarstjóri, búsett í Kópavogi. Maki: Guðmundur Gunnar Hallgrímsson verkfræðingur. Börn þeirra eru Arnór Már, f. 1989 og Rebekka Björg, f. 1993; 2) Stefanía Lilja, f. 7.9. 1967, bókasafnsvörður, búsett í Kópavogi. Maki: Ingvi Ingólfsson, meistari í húsgagnasmíði. Börn þeirra eru Stefán Ingi, f. 1990 og Aron Ingi, f. 1992; 3) Ragnheiður Kristín, f. 7.9. 1967, stuðningsfulltrúi, búsett í Reykjavík. Börn hennar eru Halldór Kristinn Halldórsson, f. 1988, og Óli Hafsteinn Gíslason Hauth, f. 1997.

Bróðir Óla sammæðra var Grímur Stefáns Runólfsson, f. 19.10. 1925, d: 16.8. 1993, búfræðingur, skrifstofumaður og leigubílstjóri, bjó í Kópavogi. Alsystkin Óla eru Sigfríður Runólfsdóttir, f. 28.4. 1928, húsmóðir og sinnti afgreiðslustörfum, búsett í Hafnarfirði; Agnar Heiðar Runólfsson, f. 14.7. 1930, rennismiður, búsettur í Reykjavík, og Ragnheiður Kristín Runólfsdóttir, f. 8.5. 1935, húsmóðir og fv. bóndi í Húsavík, búsett á Hólmavík.

Foreldrar Óla voru hjónin Runólfur Jón Sigurðsson, f. 1.9. 1901, d. 28.9. 1992, og Stefanía Guðrún Grímsdóttir, f. 7.9. 1899, d. 17.1. 1993, bændur í Húsavík. Þau voru síðast búsett í Kópavogi.