Hinrik Pálsson fæddist 13. september 1938. Hann lést 21. febrúar 2022.

Útförin var gerð 5. mars 2022.

Góður samferðamaður, frændi og vinur, Hinrik Pálsson, andaðist á Dvalarheimilinu Jaðri í Ólafsvík mánudaginn 21. febrúar sl. Það kom okkur sem þekktum hann ekki á óvart því undanfarin ár hafa ekki verið honum auðveld, heilsunnar vegna. En Hinni lét heilsuleysið ekki hefta sig, fór daglega í gönguferðir og sund meðan orkan leyfði. Það var gaman að fylgjast með honum þegar hann dressaði sig upp, fór í yfirferð um nágrennið og hirti upp dósir og flöskur sem hann seldi og gaf síðan andviðið til góðra málefna. Lífið hans Hinna var ekki alltaf auðvelt, barnungur var hann látinn í fóstur og skilinn frá tvíburabróður sínum Guðmundi og eldri systkinum sem öll eru nú látin. Aðskilnaðurinn mun hafa haft meiri áhrif á Hinna en hann gerði sér grein fyrir fyrr er á síðari árum.

Hinni giftist og eignaðist dóttur og bjó nokkur ár í Miklaholtshreppi, kom síðan aftur til Ólafsvíkur. Hann var duglegur að bjarga sér; vann á nokkrum stöðum, var á sjó og við fiskvinnu, lengst hjá Bakka sf., þar sem hann undi hag sínum vel, hann var vel liðinn af ungum og gömlum. Hinni keypti sér íbúðarhús í Ólafsvík og bjó þar, fyrst ásamt uppeldismóður sinni Ágústu, síðar einn þar til hann flutti á Dvalar- og hjúkrunarheimilið Jaðar. Á Jaðri leið vini okkar vel, hann undi við velvild, sagði alla boðna og búna til að gera allt fyrir sig. Útgerðarmenn komu með verkefni fyrir hann; fiskitauma og öngla sem hann setti upp af miklu kappi. Það var augljóst að á Jaðri átti Hinni gott heimili, allir hugsuðu vel um hann. Og hann vissi hvað hann vildi, var ákveðinn í að vilja ekki lyfjagjöf við covid, ætlaði bara að taka við því sem að höndum bæri. Hinni var svo heppinn að eiga einstaka frænku, Helgu, sem hugsaði um hann eins og bróður, hún fór með hann til sólarlanda, tók hann með sér til Reykjavíkur og lét hann finna að henni þótti vænt um hann.

Og nú er komið að leiðarlokum, ferðin í Sumarlandið hafin. Við þökkum Hinna mínum samfylgdina og vitum að það verður vel tekið á móti honum.

Samúðarkveðjur til Helgu og annarra ættingja.

Jenný, Bára og Kristín.