[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is Útlit er fyrir algjöra endurnýjun í sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps, en enginn af þeim fimm sem nú eiga þar sæti gefur kost á sér til endurkjörs við kosningar í vor.

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Útlit er fyrir algjöra endurnýjun í sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps, en enginn af þeim fimm sem nú eiga þar sæti gefur kost á sér til endurkjörs við kosningar í vor. „Auðvitað er bagalegt að enginn ætli að halda áfram. Alltaf er hætta á að mikilvæg þekking glatist með slíku, en þeim mun mikilvægara er þá að halda í starfsfólkið sem heldur daglegri starfsemi gangandi,“ segir Björgvin Skafti Bjarnason oddviti. Hann var fyrst kjörinn í sveitarstjórn Skeiðahrepps árið 1990. Skeiðin voru svo sameinuð Gnúpverjahreppi í eitt sveitarfélag fyrir tólf árum.

Störfin fjölbreytt og íbúar þakklátir

„Ég fór fyrst í sveitarstjórnarmál fyrir 32 árum. Tók mér pásu í tvö kjörtímabil, átta ár, en kom svo inn í þetta síðar. Störfin eru fjölbreytt og íbúarnir þakklátir. Hefði því gjarnan viljað halda áfram, nema hvað veikindi og persónulegar aðstæður ráða því að nú verð ég að segja stopp,“ segir oddvitinn. Hin fjögur í hreppsnefndinni hætta hvert á sínum forsendum.

Íbúar í Skeiða- og Gnúpverjahreppi í dag eru um 590 og fer heldur fjölgandi. Sveitarfélagið nær yfir Skeiðin í Árnessýslu og svæðið upp með vestanverðri Þjórsá og þar inn á öræfi. Margvísleg uppbygging er í sveitarfélaginu um þessar mundir. Má þar meðal annars nefna að fram undan er bygging tuga starfsmannaíbúða við Árnes, þar sem starfsfólk ferðaþjónustu fær samastað. Þá er líklegt að framkvæmdir við byggingu Hvammsvirkjunar í Þjórsá hefjist á næstu misserum.

Á líðandi kjörtímabili hafa Afl til uppbyggingar og Gróska átt hvort sinn fulltrúann í sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps. Framboðið Okkar sveit hefur átt þrjá fulltrúa. Þeir eru Björgvin Skafti oddviti, Einar Bjarnason verkfræðingur og Matthías Bjarnason, sem var kjörinn aðeins nokkrum dögum eftir að hann varð átján ára og kjörgengur þar með.

Yngstur á útleið

Matthías, yngsti sveitarstjórnarmaður landsins, flytur úr sveitinni í vor og segir að fyrir sig sé sjálfhætt. „Ef ég væri ekki á förum finnst mér þó ekki ósennilegt að ég hefði haldið áfram, því sveitarstjórnarmál eru áhugaverð. Mér finnst ég líka þar hafa fengið tækifæri til að koma ýmsu góðu leiðar, svo sem fyrir íþróttastarfið hér í uppsveitunum,“ segir Matthías, sem verður 22ja ára nú í vor.

„Já, ég ætla ekkert að draga úr ungu fólki að gefa kost á sér til samfélagslegra starfa. Þegar og ef fólk hefur skoðanir á því hvernig hlutum skuli háttað í nærsamfélaginu er um að gera að setja þær fram. Ef mál eru skynsamlega sett fram og vel rökstudd næst yfirleitt árangur; sérstaklega í litlu málunum sem þó hafa mikil áhrif á daglegt líf.“