Gísli Freyr Valdórsson gislifreyr@mbl.

Gísli Freyr Valdórsson

gislifreyr@mbl.is

Það þurfti ekki nema eina skoðanakönnun fyrir Pírata, Samfylkinguna og Viðreisn – og fylgirit þeirra – til að láta öllum illum látum yfir því að Íslendingar væru ekki fyrir löngu gengnir í Evrópusambandið (ESB). Það sem vekur þó furðu er að flokkarnir vildu lítið ræða um aðild að ESB í aðdraganda alþingiskosninga sem fram fóru á síðasta ári – rétt eins og það fór engin umræða fram um það sem sumir vilja kalla nýja stjórnarskrá, þó sú umræða hafi verið fyrirferðarmikil nokkru fyrr. Nú, þegar stríð geisar í Úkraínu, finnst einhverjum þó rétt að taka upp þráðinn til að setja málið á dagskrá á ný.

Það er gripið til margvíslegrar hugtakanotkunar þegar kemur að því að ræða þessi mál – í kjölfar skoðanakönnunar. Eitt af því er að tala um svonefndan „þjóðarvilja“, hvort sem er á samfélagsmiðlum, í löngum og leiðinlegum skoðunarpistlum og jafnvel á hinu háa Alþingi. Lýðræðislegar kosningar eru þó það eina sem við getum litið til ef við ætlum okkur að reyna að túlka þjóðarvilja með einhverjum hætti. Nær komumst við ekki að honum.

Það má líka hafa í huga í þessari umræðu að það er ekkert til sem heitir „umsóknarferli“ þegar fjallað er um aðild að Evrópusambandinu. Eina rétta orðið sem hægt er að nota er aðlögunarferli, því ferlið snýr að mestu að því hvernig Ísland ætlar að laga sig að regluverki ESB (þ.e. því sem höfum ekki þegar lagað okkur að í gegnum EES-samninginn).

Þá má líka hafa í huga að tilefnislaus og fólskuleg árás Rússa inn í Úkraínu gefur ekki tilefni til aðildar að ESB út frá öryggis- og varnarsjónarmiðum. Það að halda slíku fram ber eingöngu merki um popúlisma.

Að lokum, ef ætlunin er að ná fram þjóðarvilja þá er vinstri flokkunum og fylgiritum þeirra velkomið að taka málið upp í aðdraganda kosninga.