Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda, FÍB, var viðmælandi Eggerts Skúlasonar í Dagmálum í gær.

Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félags íslenskra bifreiðaeigenda, FÍB, var viðmælandi Eggerts Skúlasonar í Dagmálum í gær. Þar voru umferðarmál á höfuðborgarsvæðinu meðal umræðuefna og benti Runólfur á að oft væri viðhorfið öfugsnúið. Hann hefði til að mynda heyrt það frá borgarfulltrúa að tafir vegna umferðarljósa á Miklubraut við Tónabæ gamla væru jákvæðar, enda væri með því hægt á umferðinni. Þar með væru send skilaboð sem borgarfulltrúinn taldi bersýnilega jákvæð, nefnilega að fólk kæmist ekki greiðlega leiðar sinnar ef það æki um á eigin bíl.

Þessi fjandskapur í garð þeirra sem aka um á eigin bílum hefur verið viðvarandi í höfuðborginni árum saman, eða allan þann tíma sem vinstri flokkarnir hafa ráðið þar ríkjum. Svipuð viðhorf má raunar merkja hjá stöku manni utan þessara flokka, en það er sem betur fer fátítt.

Hluti af þessu viðhorfi til einkabílsins er að leggja beri á hann sérstakan skatt til að standa undir kostnaði við borgarlínu. Nú er það svo að bifreiðaeigendur á höfuðborgarsvæðinu hafa lengi greitt háa skatta, líkt og fram kom í viðtalinu við formann FÍB, svo ekki er á bætandi. Sérstakur skattur vegna framkvæmdar á borð við borgarlínu, sem hefur ekki síst þann tilgang að þrengja götur og tefja þar með umferð, er vitaskuld fráleit hugmynd. Og þá breytir engu þó að skatturinn sé settur í huggulegri búning og kallaður flýtigjald eða þrengslagjald, eins og Runólfur segir að reynt hafi verið í Svíþjóð en verið hafnað af dómstólum. Skattar eru skattar og eðli þeirra breytist ekki við að bera nafnið gjöld.

Í kosningabaráttunni vegna prófkjörs Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík lagði Kjartan Magnússon áherslu á andstöðu sína við borgarlínuna og borgarlínuskattinn undir slagorðinu Borgarlínuskatt? – Nei takk. Kjartan minnti á að vinstri meirihlutinn hefði nýlega samþykkt að kaupa skemmu til niðurrifs fyrir tæpan hálfan milljarð króna til að rýma fyrir borgarlínunni svokölluðu. Hann benti líka á borgarlínan væri dýr, kostnaðurinn næmi í það minnsta 100 milljörðum króna, og að auk þess vissi enginn hver rekstrarkostnaðurinn yrði. Hann sagði ótækt að skattgreiðendur yrðu látnir fjármagna slíkt verkefni og nefndi að nær „væri að styðja betur við núverandi strætisvagnakerfi, sem er stórlega vannýtt en má svo sannarlega bæta“.

Afar mikilvægt er fyrir þróun höfuðborgarsvæðisins – og pyngju skattgreiðenda – að horfið verði frá þeim óraunsæju hugmyndum sem meirihlutinn í borginni hefur fylgt í samgöngumálum. Framboð á höfuðborgarsvæðinu þurfa að hafna öllum hugmyndum sem þrengja að umferð, hafa í för með sér óhóflegan kostnað og fela í sér stórkostlega nýja skatta á bifreiðaeigendur. Um þetta ættu allir flokkar sem ekki eru mjög langt til vinstri að geta sameinast.