Agnes segir að lítil breyting sé á fjölda kvenna í veiðum og vinnslu á sjó, enda ýti félagið ekki á það.
Agnes segir að lítil breyting sé á fjölda kvenna í veiðum og vinnslu á sjó, enda ýti félagið ekki á það. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þóroddur Bjarnason tobj@mbl.is Konum fer fjölgandi í íslenskum sjávarútvegi samkvæmt nýrri könnun.

Agnes Guðmundsdóttir, formaður Kvenna í sjávarútvegi, segir, spurð um markverðustu niðurstöður viðamikillar rannsóknar á stöðu kvenna í sjávarútvegi, sem Háskólinn á Akureyri vann fyrir tilstuðlan Kvenna í sjávarúvegi (KIS), að áhugavert og skemmtilegt sé að konum hafi fjölgað hlutfallslega í öllum tegundum starfa í sjávarútvegi. „Það er rosalega jákvætt. Það er líka áhugavert að sjá að körlum fjölgar einnig sem þýðir að störfum í sjávarútvegi er að fjölga og fyrirtækjum sömuleiðis. Það er mikil nýsköpun og þróun í greininni,“ segir Agnes í samtali við ViðskiptaMoggann.

Hún segir rannsóknina sýna að hlutdeild kvenna í framkvæmdastjórastöðum sé að aukast. „Hlutfall kvenna þar er komið upp í 24% en í rannsókn okkar frá árinu 2016 er hlutfallið 16%. Aukningin er því mest þarna á sama tíma og körlum er ekki að fjölga í framkvæmdastjórn.“

Færri með enga konu

Agnes segir það einnig mjög jákvætt að vinnustöðum sem hafa enga konu í vinnu fækki mikið. 27% vinnustaða í sjávarútvegi voru með enga konu í vinnu árið 2016 en í dag er hlutfallið 12%.

Spurð hvort hægt sé að þakka jafnréttisáætlunum fyrirtækjanna árangurinn játar Agnes því. „Jú, að einhverju leyti, en samt finnst manni skrýtið, og kemur í ljós í rannsókninni, að það vantaði töluvert upp á að þessar áætlanir væru til í fyrirtækjunum. Það kemur á óvart sérstaklega þegar horft er til þess að jafnréttisáætlanir eru lögbundnar hjá fyrirtækjum með tuttugu og fimm starfsmenn eða fleiri. 45% fyrirtækja sem eru með 25-100 manns í vinnu voru ekki með jafnréttisáætlun, en stærri fyrirtækin eru öll með slíka áætlun.“

Agnes segir þetta vera vonbrigði og hvetur fyrirtækin til að bæta úr þessu. Engin viðurlög eru við því að hafa enga jafnréttisáætlun, eins og Agnes bendir á. „Í raun finnst mér að það ættu ekki að þurfa að vera viðurlög. Ég held að margir þurfi að opna augun og sjá að það er fleira í boði hvað mannauð snertir en var kannski áður.“

Gera konur sýnilegri

Markmið KIS er að sögn Agnesar að gera konur sýnilegri, efla þær í þeirra störfum og bæta tengslanetið. „Við teljum að félagið sé að styðja mikið við þá þróun sem við sjáum í rannsókninni. Það er líka alltaf að fjölga í félaginu og konur eru mjög áhugasamar um málefnið.“

Um rannsóknina og tíðni hennar segir Agnes að aðeins hafi verið gerðar þessar tvær rannsóknir, þ.e. árið 2016 og 2022. „En við finnum fyrir gríðarlegum áhuga hjá ráðuneytum og háskólasamfélaginu á niðurstöðunum. Við sjáum fram á að gera rannsóknina fljótt aftur og ekki láta líða jafn langt á milli rannsókna og síðast. Það er mikilvægt svo gögnin úreldist ekki og séu nothæf í rannsóknargreinar og bækur. Það er mjög tímafrekt og kostnaðarsamt að vinna svona rannsókn. Sem betur fer hafa fyrirtæki í sjávarútvegi stutt félagið í þessari vinnu, sjávarútvegsráðuneytið og Íslandsbanki, sem hefur verið okkar aðalbakhjarl frá því félagið var stofnað árið 2013, hafa einnig verið ómetanlegur stuðningur.“

Að sögn Agnesar hefur fjöldi kvenna í sjávarútvegi rokkað milli tímabila. Sem dæmi nefnir Agnes að í bók Margaret Wilson; Seawomen of Iceland, komi fram að konur hafi verið fjölmennar í stéttinni á átjándu öld.

Eins og nýja rannsóknin sýnir eru konur áberandi í skrifstofustörfum í dag en einnig fer konum fjölgandi í nýsköpun og tæknistörfum. „Það er veruleg breyting og gaman að sjá. Til dæmis hefur konum fjölgað mikið í störfum gæðastjóra.“

Spurð um fjölda kvenna í veiðum og vinnslu á sjó segir Agnes að þar sé lítil breyting milli rannsókna, enda sé félagið ekkert endilega að ýta á þann þátt. „Þeim störfum fer líka fækkandi með aukinni sjálfvirknivæðingu, betri tækni og búnaði.“

Um starfsemi félagsins segir Agnes að haldnir séu viðburðir einu sinni í mánuði. „Við förum í fyrirtækjaheimsóknir og kynnum okkur félögin í greininni, nýjustu vinnslurnar og skipin. Við vinnum stöðugt að því að efla þekkingu okkar meðlima. Svo er hápunktur ársins tveggja daga vorferð þar sem við tökum ákveðinn landshluta fyrir.“

Lærimeistaraverkefni við HA

Um það hvað sé á döfinni hjá félaginu og helstu markmið á næstu misserum segir Agnes að áfram verði unnið að því að kynna félagið og auka sýnileika kvenna í greininni þannig að konur eignist fleiri öflugar fyrirmyndir. „Í byrjun árs fórum við af stað með lærimeistaraverkefni í samstarfi við Háskólann á Akureyri. Nemendur í líftækni og sjávarútvegsfræðum geta sótt um að taka þátt og þeir verða síðan tengdir við félagskonu sem tengist sviði viðkomandi.“

Agnes segir að hlutfall kvenna og karla í sjávarútvegsfræðinni í Háskólanum á Akureyri sé ansi jafnt. „Vandamálið er hins vegar að konur eru ekki að skila sér jafn vel út í greinina. Það er meðal annars ástæðan fyrir því að við fórum af stað með lærimeistaraverkefnið.“

Agnes, sem sjálf vinnur við sölu á sjávarafurðum hjá Icelandic Asia, segir mjög gaman að vinna í sjávarútvegi. Starfið sé ákaflega fjölbreytt og vinnuumhverfið lifandi.

Berjast áfram

Athygli vekur að rannsóknin sýnir að hlutfall þeirra sem telja að þörf sé á fleiri konum í greininni minnkar mikið. Árið 2016 var það 75% en er nú 40%. „Það sýnir manni að við verðum að halda áfram að berjast fyrir okkar tilverurétti og halda vel á spöðunum. Mér finnst líka áhugavert að af þessum 40% eru það frekar karlar sem telja að þörf sé á fleiri konum en konurnar sjálfar, sem er eitthvað sem við þurfum að velta fyrir okkur. Oft getur konum fundist sem það sé eingöngu pláss fyrir eina konu á hverjum stað, eina í stjórn, eina í framkvæmdastjórn o.s.frv. Því viðhorfi þarf að breyta.“

Nýta fjölbreytileikann

Að lokum segir Agnes að það sé allra hagur að nýta fjölbreytileika vinnuaflsins til fulls. Það muni skila áframhaldandi hagsæld fyrir alla. „Við erum að fara á mis við mikið ef greinar eru mjög karllægar eða mjög kvenlægar. Það þarf að nýta alla krafta alls staðar.“