Óvissa og óstöðugleiki á húsnæðismarkaði er engum til góðs og mikið hagsmunamál að bæta starfsumhverfi greinarinnar með réttum aðgerðum.

Byggingariðnaðurinn hefur í sögulegu samhengi sveiflast tvöfalt meira en aðrar atvinnugreinar. Það hefur haft alvarlegar afleiðingar fyrir greinina og viðskiptavini hennar líkt og húsnæðisskortur undanfarinna missera ber vitni um. En hvaða áhrif hefur þetta óstöðuga starfsumhverfi í raun? Spurningin á sérstaklega vel við núna þar sem enn og aftur virðist sem uppsveifla sé að hefjast í greininni og á sama tíma vakna spurningar um getu greinarinnar til að takast á við þarfir í húsnæðisuppbyggingu og fyrirhugaðar innviðaframkvæmdir.

Til að setja stöðuna í samhengi velti byggingariðnaður og mannvirkjagerð í fyrra ríflega 385 mö.kr. og tók veltan nokkuð kröftuglega við sér á síðasta ári eftir samdrátt ársins 2019. Vöxturinn á síðasta ári nam 26% frá árinu á undan. Á síðasta ári störfuðu tæplega 15 þúsund manns í greininni og fjölgaði starfsmönnum um nær 700 milli áranna 2020 og 2021. Þessar tölur gefa vísbendingu um þá aðlögunarhæfni sem greinin hefur tamið sér í gegnum þetta óstöðuga starfsumhverfi og sýnir jafnframt getu fyrirtækjanna til að sækja fram eða draga saman eftir þörfum.

Neikvæðar hliðar þessa óstöðuga starfsumhverfis eru þó talsvert fleiri og ekki allar jafn augljósar. Þannig hefur umræða um gjaldþrot, réttindi launþega, svarta atvinnustarfsemi og kennitöluflakk oft verið tengd við greinina og ekki að ástæðulausu. Þessar sveiflur greinarinnar hafa lokkað að aðila sem ætla sér í raun aðeins að tjalda til einnar nætur í von um skjótan gróða og aðrir hafa einfaldlega ekki lifað sveiflurnar af þrátt fyrir áform um annað. Þessi hlið greinarinnar setur strik í reikning þeirra fyrirtækja sem eru að starfa eftir lögum og reglum og leggja metnað í að huga vel að aðbúnaði starfsfólks og setja gæði í forgang í starfsemi sinni.

Regluverkið hefur aðeins reynt að taka á þessum málum þegar kemur að fyrirtækjum sem starfa á opinberum markaði en árið 2019 var innleitt ákvæði um keðjuábyrgð í lögum um opinber innkaup. Kom það ákvæði inn í kjölfarið á stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þar sem lýst var yfir vilja til að vinna með aðilum vinnumarkaðarins að ábyrgum vinnumarkaði. Með innleiðingu keðjuábyrgðar var aðalverktaka gert skylt að tryggja og bera ábyrgð á að allir starfsmenn, hvort sem um er að ræða starfsmenn hans, undirverktaka eða starfsmannaleiga, sem koma að framkvæmd, fengju laun, starfskjör, sjúkra- og slysatryggingar og önnur réttindi. Óánægja var með innleiðingu ákvæðisins og erfitt hefur verið að fylgja ákvæðinu eftir í raun. Hægt hefði verið að fara aðrar betri og áhrifaríkari leiðir að mati félagsmanna SI. Frá samtökunum hefur því ákall verið eftir áhrifaríkum aðgerðum stjórnvalda til að bæta starfsumhverfi byggingariðnaðarins og ekki síst eftir því að stöðva kennitöluflakk. Þá hefur einnig verið kallað eftir innleiðingu á svokölluðum heilbrigðisvottorðum fyrirtækja sem viðmið um getu fyrirtækja til að taka að sér ákveðin verkefni eftir stærðargráðum og bættu eftirliti með notkun á rafrænum vinnustaðaskírteinum.

Á sama tíma þarf líka að huga að húsnæðismarkaðinum og þeim fyrirtækjum sem þar starfa. Það hefur sýnt sig undanfarið að framboð á íbúðum mætir engan veginn eftirspurn á húsnæðismarkaði. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hefur gefið út að þörf verður fyrir um 3.500 nýjar íbúðir á ári að jafnaði næstu árin. Þetta stóra verkefni kallar á fjölgun fyrirtækja í greininni og aukið samstarf byggingariðnaðarins og stjórnvalda svo hægt verði að tryggja samkeppnishæfni og koma í veg fyrir undirboð og kennitöluflakk. Óvissa og óstöðugleiki á húsnæðismarkaði er engum til góðs og mikið hagsmunamál að bæta starfsumhverfi greinarinnar með réttum aðgerðum. Það er því áskorun næstu missera að mæta íbúðaþörf með aukinni uppbyggingu og tryggja um leið stöðugt starfsumhverfi í byggingariðnaði.