Svavar Marteinn Carlsen fæddist í Reykjavík 10. apríl 1938. Hann lést á Landakotsspítala 19. febrúar 2022.

Foreldrar Svavars voru Svava Lárusdóttir og Carl Anton Carlsen. Saman áttu þau fimm börn en þau misstu yngsta son sinn af slysförum á barnsaldri. Samtals eiga þau 44 barnabörn og barnabarnabörn.

Útförin fór fram í kyrrþey að ósk hins látna.

Kveðja frá Júdófélagi Reykjavíkur og Júdósambandi Íslands

Fallinn er í valinn Svavar Marteinn Carlsen, mikil öðlingur og júdógarpur, en hann lést laugardaginn 19. febrúar 2022. Svavar var tvímælalaust einn af frumherjum júdóíþróttarinnar á Íslandi sem og lyftingaíþróttarinnar en þar hafði hann verið mjög virkur í keppni. Hann átti sinn feril í júdóíþróttinni á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar. Þá var blómaskeið júdósins á Íslandi og menn gerðu garðinn frægan á erlendri grund. Svavar byrjaði tiltölulega seint að æfa, en hann hætti líka seint og tók sín síðustu verðlaun á Íslandsmeistaramóti rúmlega fertugur. Geri aðrir betur. Hann var fyrsti Íslandsmeistarinn í júdó en það var árið 1970 í opnum flokki og hann varð jafnframt fyrstur Íslendinga til að vinna til verðlauna á Norðurlandamóti er hann vann til silfurverðlauna á stofnári Júdósambands Íslands 1973. Hann var um langt árabil ósigrandi í sínum flokki og ókrýndur konungur júdósins á Íslandi. Íslandsmeistari varð hann margsinnis, bæði í þungavigt og opnum flokki, og vann auk þess til fjölda annarra verðlauna á öðrum innlendum sem erlendum mótum. Verðlaunagripir hans verða örugglega ekki taldir á fingrum beggja handa.

Svavar var skemmtilegur í viðkynningu og góður félagi og það sem meira var; hann var júdómaður af guðsnáð.

Mikill kappi hefur nú kvatt þennan heim og fundið sér annan keppnisvöll í nýjum heimkynnum.

Við félagar hans minnumst hans með söknuði og virðingu og þökk fyrir allt sem hann gerði fyrir júdóíþróttina á Íslandi og sendum ástvinum hans hugheilar samúðarkveðjur.

Blessuð sé minning hans.

F.h. Júdófélags Reykjavíkur, Bjarni Friðriksson,

Runólfur Gunnlaugsson.

F.h. Júdósambands Íslands, Jóhann Másson.