Edition Tekið var á móti fyrstu gestunum í október og brátt verður hótelið opnað að fullu. Fjöldi stjórnunarstarfa á hótelinu er nú laus til umsóknar.
Edition Tekið var á móti fyrstu gestunum í október og brátt verður hótelið opnað að fullu. Fjöldi stjórnunarstarfa á hótelinu er nú laus til umsóknar. — Morgunblaðið/Eggert
Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is „Það er mjög bjart fram undan,“ segir Ninna Hafliðadóttir, markaðs- og upplýsingastjóri lúxushótelsins The Reykjavík Edition við Hörpu.

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Það er mjög bjart fram undan,“ segir Ninna Hafliðadóttir, markaðs- og upplýsingastjóri lúxushótelsins The Reykjavík Edition við Hörpu.

Hótelið auglýsti nýverið eftir starfsfólki og er ráðgert að það verði komið í fullan rekstur síðar á þessu ári. Í byrjun árs var 27 starfsmönnum Edition sagt upp störfum og því borið við að Ómíkron-bylgja kórónuveirufaraldursins hefði dregið úr eftirspurn. Ninna segir að margar af þeim uppsögnum hafi síðar verið dregnar til baka eða fólk hafi verið endurráðið.

„Á þeim tíma var ekki farið að sjá fram á afléttingu sóttvarnaaðgerða og bókanir voru ekki eins og gert var ráð fyrir. Þetta snerist fljótt við og við erum nú að sjá fram á mjög góðar bókanir í vor og sumar. Planið var alltaf að við myndum geta náð þessu fólki sem sagt var upp aftur inn. Nú erum við að bæta við fólki fyrir utan þessar uppsagnir. Hótelið er ekki fullopnað en við stefnum að því að gera það í sumar og þetta eru alls 34 stöður sem auglýstar eru nú,“ segir Ninna.

Hún segir að enn eigi eftir að opna bari og veitingastaði á hótelinu auk þess sem nú séu aðeins 150 herbergi af 250 komin í notkun. „Það á eftir að opna bæði næturklúbb og Rooftop-veitingastað og opna allar hæðirnar. Til að geta gert það þarf að þjálfa og koma fólki inn í störfin,“ segir Ninna. Hún segir aðspurð að veitingastaðurinn á þakverönd hótelsins verði opnaður í maí en ekki sé alveg komið á hreint hvenær næturklúbburinn verði opnaður. Hann verði til að byrja með aðeins opinn fyrir einkasamkvæmi.

Markaðsstjórinn vill ekki gefa upp hver bókunarstaða hótelsins sé en segir að hún sé góð, bæði fyrir hópa, ráðstefnur og ráðstefnugesti sem og almenna ferðamenn. „Ferðaþjónustan er að fara á flug og það er mikill áhugi á landinu. Við þurfum að undirbúa okkur vel til að geta tekið á móti ferðamönnum.“