Bryndís Haraldsdóttir
Bryndís Haraldsdóttir
Eftir Bryndísi Haraldsdóttur: "Ef við ætlum að halda áfram með dönskukennslu tel ég nauðsynlegt að leggja meira upp úr því að þjálfa nemendur í því að tala og skilja daglegt mál."

Norðurlandaráð er vettvangur opinbers samstarfs þingmanna á Norðurlöndum. Ráðið skipa í dag 87 þjóðkjörnir fulltrúar frá Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Noregi, Svíþjóð, Álandseyjum, Færeyjum og Grænlandi. Á þessu ári fögnum við jafnframt 70 ára afmæli. Í upphafi voru það aðeins Danmörk, Ísland, Noregur og Svíþjóð sem tóku þátt. Finnland var ekki með. Ástæðan var tillitssemi við Rússa sem töldu að Finnar myndu hallast til samstarfs við aðildarríki Atlantshafsbandalagsins.

Árið 1955 kom svo að því að Finnland gekk í Norðurlandaráð. Í dag eru einnig Færeyjar, Grænland og Álandseyjar fullgildir aðilar.

Norrænt samstarf skiptir Íslendinga máli

Norrænt samstarf hefur ávallt skipt okkur Íslendinga miklu máli. Við erum lítil þjóð sem í gegnum norrænt samstarf hefur vaxið. Þannig höfum við lært af nágrönnum okkur en við leggjum jafnframt fram okkar þekkingu og reynslu og ekki er óalgengt að litið sé til okkar, t.d. á sviði orkumála og jafnréttismála. Á Norðurlöndum er meiri jöfnuður en víðast hvar í heiminum, jafnrétti er hér mikið og íbúar Norðurlanda virðast meira að segja vera hamingjusamari en íbúar annarra svæða. Á heimsvísu eru öll norrænu löndin lítil en saman erum við sterkari og sem heild erum við 11. stærsta hagkerfi heims.

Sex af hverjum tíu íslenskum ríkisborgurum sem skráðir eru með heimilisfesti erlendis búa á Norðurlöndum, flestir þeirra í Danmörku. Fjöldi Íslendinga hefur um lengri eða skemmri tíma búið í hinum norrænu löndunum og stundað þar nám og vinnu.

Íslensk fyrirtæki stíga gjarnan sín fyrstu skref í útflutningi á norrænum markaði. Íslenskir listamenn eiga mikið undir öflugu samstarfi Norðurlanda á sviði lista og menningar. Norðurlönd eru framalega í baráttunni fyrir mannréttindum, jafnréttismálum og umhverfismálum. Hagvöxtur og lífskjör íbúa Norðurlandanna eru með því sem best gerist í heiminum. Framtíðarsýn okkar er sú að Norðurlöndin verði sjálfbærasta og samþættasta svæði í heimi. Því miður hefur Covid-19-faraldurinn kennt okkur að við erum svo sannarlega ekki komin á leiðarenda og það er mikið verk óunnið við að ná þessu fallega en jafnframt mikilvæga markmiði.

Þurfum við að læra dönsku?

Tungumálaerfiðleikar gera okkur Íslendingum erfitt fyrir í samstarfi við vini okkar í hinum norrænu ríkjunum því nánast engir íbúanna þar skilja íslensku. Norðmenn tala norsku, Svíar sænsku og Danir dönsku en ótrúlegt nokk þá skilja þeir flestir tungumál nágranna sinna í Skandinavíu. Finnarnir eru svo margir mjög sleipir í sænsku en eftir stöndum við Íslendingar. Undirstöðuþekking í dönsku eða öðru skandinavísku máli er því mikilvæg fyrir okkur Íslendinga í norrænu samstarfi. Dönskukunnátta Íslendinga hefur dalað mikið á síðustu áratugum. Mörgum unglingum finnst óspennandi og erfitt að læra dönsku sem enn er skyldugrein í skólakerfinu. Það er því eðlilegt að við spyrjum okkur hvort enn sé nauðsynlegt að skylda unglinga til að læra dönsku eða annað Norðurlandamál? Staðan er samt sú að þó að enskan sé yfirleitt ráðandi í alþjóðasamstarfi er það mjög ríkt hjá þessum þjóðum að nota sitt móðurmál. Tungumálið er einn af þeim þáttum sem einkennir og rammar inn norrænt samstarf.

Því miður er það svo að þó að unglingarnir okkar sitji fjölda dönskutíma bæði í grunnskóla og framhaldsskóla þá skilar sú kunnátta sér illa þegar kemur að því að tala og skilja talað mál.

Ef við ætlum að halda áfram með dönskukennslu tel ég nauðsynlegt að leggja meira upp úr því að þjálfa nemendur í því að tala og skilja daglegt mál.

Höfundur er formaður Íslandsdeildar Norðurlandaráðs. bryndish@althingi.is

Höf.: Bryndísi Haraldsdóttur