Elísabet myndi gjarnan vilja breyta lögum um lögheimili barna með sameiginlega forsjá.
Elísabet myndi gjarnan vilja breyta lögum um lögheimili barna með sameiginlega forsjá. — Morgunblaðið/Arnþór Birkisson
Elísabet Tanía hlakkar til að sjá ferðaþjónustuna komast aftur á skrið eftir tveggja ára stopp. Segir hún allt vera að fara í gang á ofurhraða og að krefjandi, annasamir og skemmtilegir tímar séu fram undan hjá bílaleigunni Hertz.

Elísabet Tanía hlakkar til að sjá ferðaþjónustuna komast aftur á skrið eftir tveggja ára stopp. Segir hún allt vera að fara í gang á ofurhraða og að krefjandi, annasamir og skemmtilegir tímar séu fram undan hjá bílaleigunni Hertz. Þá tók Elísabet nýverið sæti í stjórn FKA og er nóg að gera á þeim vettvangi.

Hverjar eru helstu áskoranirnar

í rekstrinum þessi misserin?

Það hafa verið rosalega flóknir tímar undanfarið og fólk mikið í heimavinnu. Þeir sem ekki fóru heim að vinna eru jafnvel enn þreyttari fyrir vikið, hafandi þurft að þola meira áreiti við störf sín en ef allir væru á vinnustaðnum. Aðaláskorunin sem er fram undan er að taka rétt á móti fólkinu okkar: það er ekki sjálfgefið að heimavera og heimavinna fari vel með starfsfólkið og okkar fólk er að koma með ólíkum hætti úr faraldrinum. Er mikilvægt að hlúa vel að starfsfólki við þessar aðstæður og vera vakandi fyrir því ef einhverjir erfiðleikar láta á sér kræla.

Einnig er mun minna um umsóknir en venjulega. Við erum að fá færri umsóknir um hvert starf og erfiðara er að finna fólk. Þetta virðist vera raunin hjá flestum fyrirtækjum í ferðaþjónustu. Erfitt er að segja hvort það þýði að við séum að horfa á stærri hóp fólks sem ekki treystir sér strax aftur út á vinnumarkaðinn eða hvort auglýst störf séu einfaldlega mikið fleiri en venjulega. Ég myndi klárlega segja að nú þurfi allir sem starfa í mannauðsgeiranum að halda vel á spöðunum og hlúa að starfsfólkinu.

Hvaða hugsuður hefur haft mest áhrif á hvernig þú starfar?

Ég fór á Dale Carnegie-námskeið fyrir nokkrum árum og hef síðan þá verið aðstoðarleiðbeinandi á nokkrum námskeiðum þar. Bækurnar hans og hugmyndafræði þykja mér einstaklega góð og uppbyggjandi fyrir alla hvort heldur sem er fólk sem vill styrkja sig inn á við, fólk sem vill ná lengra í starfi, eða fólk sem vill læra að koma betur fram fyrir framan aðra.

Hvernig heldurðu

þekkingu þinni við?

Ég er svona manneskja sem er alltaf að læra eitthvað nýtt og skora á mig með allskonar verkefnum og ævintýrum. Ég er dugleg að skrá mig á námskeið, ráðstefnur, námsbrautir eða hvað sem mér dettur í hug. Það sem er núna í gangi er t.d. stjórnarseta mín í FKA sem er ævintýri með alls konar verkefnum, áskorunum og skemmtilegheitum. Einnig er ég að læra næringarfræði hjá enskum vefskóla, er að byrja í Power BI-námskeiði seinna í vikunni og er svo að fara að demba mér í mini-MBA hjá Akademias. Trúi því heitt og innilega að mennt sé máttur og að hver reynsla sem við sækjum stækki okkur í hvert skipti.

Hvað myndirðu læra ef þú fengir að bæta við þig nýrri gráðu?

Ég myndi læra jákvæða sálfræði. Ætli það komi ekki næst, á eftir hinum verkefnum ársins. Vinkona mín er einmitt að læra jákvæða sálfræði núna og hefur ekki hætt að tala um hversu mikið það styrkir hana sem einstakling og einnig sem stjórnanda.

Hvaða kosti og galla sérðu

við rekstrarumhverfið?

Hvað starfsmannahaldið snertir þá er það áskorun að unga fólkið sækir í auknum mæli um starf með stutt stopp í huga. Kallar þetta á að vera á tánum varðandi þjálfun, utanumhald og það umhverfi og menningu sem við bjóðum upp á. Það er dýrt að hafa mikla starfsmannaveltu og því mikilvægt að halda fólki sem lengst. Það er oft erfiðara í störfum eins og afgreiðslu eða þvotti, enda vaktirnar langar og oft æði mikið álag þar. Við státum þó af því hér hjá Hertz að við erum með háan meðalstarfsaldur og vorum nú til dæmis um helgina að veita níu manns starfsaldursviðurkenningu.

Hvað gerirðu til að fá orku

og innblástur í starfi?

Ég hlusta á bækur, fyrirlestra og fer á ráðstefnur og námskeið. Ég elska að hlusta á aðra segja frá hvernig þeir eru að sinna sínu starfi, og fá þannig innblástur. Við erum aldrei það góð í einhverju að við getum ekki lært hvert af öðru. Það þurfa jú ekki allir að finna upp hjólið.

Hvaða lögum myndirðu breyta ef þú værir einráð í einn dag?

Ég myndi breyta lögum um lögheimili barna. Þessi lög eru reyndar að komast í rétta átt en að mínu mati þykir mér galið að börn geti ekki átt lögheimili hjá báðum foreldrum ef forsjá er sameiginleg og samskipti góð.

Hin hliðin

Nám: B.Sc. í viðskiptafræði frá Háskólanum á Bifröst með skiptinámi við Copenhagen Business School. M.S. í stjórnun og stefnumótun frá Háskóla Íslands 2016.

Störf: Hef verið virk á vinnumarkaði frá unga aldri og var komin í vinnu í frystihúsi tólf ára gömul. Stofnaði og rak líkamsræktarstöðina Studio Fitt frá 2008 til 2010; almennur starfsmaður, þjálfari og vörumerkjastjóri hjá Sigurborg ehf. til 2014; hef störf hjá Hertz 2016 sem mannauðsstjóri og tók að auki við gæðamálum 2021.

Áhugamál: Ég elska að hreyfa mig, hlaupa um fjöll og óbyggðir. Líkamsrækt af öllu tagi er alltaf ofarlega á lista hjá mér ásamt sundferðum. Ferðalög innanlands í náttúrunni eru algjört uppáhald með fjölskyldu og vinum. Einnig að ferðast erlendis og upplifa ólíka menningu víðs vegar um heiminn.

Fjölskylduhagir: Á tvær stúlkur sem eru tíu og fjórtán ára og eru þær líf mitt og yndi.