Málefnasnauðir systurflokkar ætla að endursýna málið eina.

Málefnasnauðir systurflokkar ætla að endursýna málið eina. Páll Vilhjálmsson bendir á: „Til að eiga minnstu von að ná árangri að sannfæra þjóðina um ágæti ESB-aðildar þarf að keyra sama prógrammið þrennar eða fernar kosningar og halda málefninu á lofti í almennri umræðu á milli kosninga. Með umboð kjósenda í almennum þingkosningum væri hægt að hnika málinu áfram.

Skæruliðahernaður í þágu ESB-aðildar gerir það eitt að auglýsa tækifærismennskuna að baki. ESB-sinnar eru einfaldlega ekki nógu sannfærðir sjálfir um skynsemi ESB-aðildar til að þeir nenni að ræða málefnið nema sem upphrópun.

Núna halda þeir að ESB-aðild trekki, þegar Evrópa stendur í ljósum logum stríðsátaka. Þetta er svo vitlaust að maður hálf vorkennir vinstri vesalingunum. Aðeins pólitískum fáráðlingum dettur í hug að Íslendingar samþykki það samningsmarkið í viðræðum við Brussel að fá aðild að Evrópuhernum sem er í bígerð. Í síðustu vegferð vinstri hjarðarinnar gekk allt út á að Íslendingar skyldu fá stórkostlegar undanþágur frá meginsáttmálum Evrópusambandsins. Stjórn Jóhönnu Sig. sótti í raun ekki um aðild að ESB heldur um undanþágur frá aðildarskilmálum. Vinstristjórnin stóð fyrir bjölluati í Brussel en ekki heilsteyptri umsókn um aðild að Evrópusambandinu.

ESB-sinnar hafa ekkert lært frá niðurlægingunni 2012/2013 er þriggja ára bjölluati lauk og umsóknin frá 2009 fór ofan í skúffu.“