Guðmundur Arnfinnsson yrkir á Boðnarmiði og kallar „Lífsins vor“: Fagra vor, þú fyllir hugann gleði, á fjallatinda morgunsólin skín og seint á kveldi sígur rótt að beði, en særinn blikar eins og gullið vín.

Guðmundur Arnfinnsson yrkir á Boðnarmiði og kallar „Lífsins vor“:

Fagra vor, þú fyllir hugann gleði,

á fjallatinda morgunsólin skín

og seint á kveldi sígur rótt að beði,

en særinn blikar eins og gullið vín.

Í vorsins fögru veröld söngvar óma

og varir mætast, hjörtun örar slá,

er berst að vitum ilmur ungra blóma,

hve yndislegt að mega vaka þá.

Að njóta lífsins, skynja eld í æðum

og öðlast kraft, er streymir Guði frá

er æðst og best af öllum heimsins

gæðum

og aðeins finna til á vori má.

Davíð Hjálmar Haraldsson skrifar: „Stelkurinn kominn 21.3. á Akureyri“:

Fjaðrirnar snyrti eftir fegurðarblund,

flugþreyttur var hann en glaður í bragði.

Stelkurinn þagði fyrst þó nokkra stund,

svo þekkt'ann mig aftur og tjú-tjú hann

sagði.

Það er „Vorhugur“ í Magnúsi Halldórssyni:

Vorið mun koma og grundirnar gróa,

góan í rauninni var ekkert spaug.

Sagt var í fréttum að sést hafi lóa,

svo eru mættir hér þrestir í haug.

Kristján H. Theodórsson kveður:

Lóan er komin og lætur sig dreyma

að lokið sé skammdegisþrautum.

Árlega virðist hún alveg því gleyma,

að enn kúra fannir í lautum.

Friðrik Steingrímsson hefur orð á því að vísindamenn rannsaki áhrif covid á heilann:

Þó að pestir grimmar geisi

og geri usla' í þessu' og hinu,

halda menn að heilaleysi

henti best í covidinu.

Kristjana Sigríður Vagnsdóttir yrkir:

Enginn norðannæðingur

nú er blámi voga.

Glöggt má sjá hvar gæðingur

gneistar í bjarma loga.

Helgi Ingólfsson yrkir:

Pútín á sér prúðan mann

sem pukrast einn á fleti.

Sjálfsagt er að hafa hann

að háði' og spotti' á neti.

Viktor Albert Guðlaugsson kveðst ekki hrifinn af fjöldasamkomum:

Mannfagnaðir mín ei lengur mikið

freista.

Á óvart mér ei kannski kæmi

að kominn sé með hjarðofnæmi.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is