Orðið hraðþjónusta á vel við eftir að 20% hlutur ríkisins var seldur á þremur tímum í gær.
Orðið hraðþjónusta á vel við eftir að 20% hlutur ríkisins var seldur á þremur tímum í gær. — Morgunblaðið/Eggert
Gísli Freyr Valdórsson gislifreyr@mbl.is Ríkið verður minnihlutaeigandi í Íslandsbanka. Um 108 milljarðar hafa runnið í ríkissjóð vegna sölu á hlutum ríkisins í bankanum.

Það tók aðeins þrjár klukkustundir fyrir Bankasýslu ríkisins að fá tilboð í rúmlega 20% hlut ríkisins í Íslandsbanka, sem settur var á markað nokkuð óvænt eftir lokun markaða í gær. Bankasýslan tilkynnti þá að söluferli hefði verið sett af stað á að minnsta kosti 20% hlut í Íslandsbanka með tilboðsfyrirkomulagi til innlendra og erlendra hæfra fjárfesta, þ.e. fagfjárfesta og viðurkenndra gagnaðila. Um klukkan 19.30 í gærkvöldi sendi Íslandsbanki frá sér tilkynningu þar sem fram kom að umsjónaraðilar útboðsins hefðu móttekið áskriftir fyrir 400 milljónum, sem er skilgreind lágmarksstærð söluferlisins, og stuttu síðar var tilkynnt að ákveðið hefði verið að selja 450 milljónir hluta, eða 22,5% af heildarhlutafé bankans.

Leiðbeinandi verð fyrir útboðið var 117 kr. á hvern hlut en gengi hlutabréfa í Íslandsbanka var 122 við lokun markaða í gær. Því má áætla að söluandvirði hlutanna í gær sé um 52,7 milljarðar króna en frá þeirri upphæð á eftir að reikna þóknun til umsjónaraðila. Þegar ViðskiptaMogginn fór í prentun lá ekki fyrir hvort útboðið yrði stækkað enn frekar. Greint verður frá útboðsgengi og endanlegum fjölda seldra hluta fyrir opnun markaða í dag, miðvikudag, en uppgjör viðskiptanna fer fram 28. mars nk.

Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýslunnar, vildi ekki tjá sig um málið þegar leitað var eftir því í gærkvöldi og bar fyrir sig að allar nánari upplýsingar væru tilkynningarskyldar.

Ríkissjóður fékk í júní í fyrra um 55 milljarða króna fyrir sölu á 35% hlut í bankanum. Með þeim fyrirvara að ríkissjóður hafi í útboðinu í gær fengið tæpa 53 milljarða í sinn hlut fyrir 22,5% hlut í bankanum hefur ríkissjóður þannig aflað sér tæplega 108 milljarða fyrir sölu á rúmlega 55% hlut í bankanum.

Þá kemur einnig fram í tilkynningu að Bankasýslan skuldbindur sig til að selja ekki frekari hlut í bankanum í 90 daga eftir að viðskiptin ganga í gegn.