BakaBaka er í Bankastræti 2 í Reykjavík, þar sem Lækjarbrekka var áður.
BakaBaka er í Bankastræti 2 í Reykjavík, þar sem Lækjarbrekka var áður. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Þóroddur Bjarnason tobj@mbl.is Á BakaBaka er boðið upp á kleinuhringi, sænskar kardimommubollur og eldbakaðar pítsur meðal annars.

„Ég myndi segja að þetta væri eitthvað sem ekki hefur verið í boði í Reykjavík áður. Við erum með bakarí og kaffihús á daginn en svo breytist staðurinn í ítalskan veitingastað og bar seinni part dags. Við bjóðum þá upp á heimagert pasta og eldbakaðar pítsur. Hér er heilmikið fjör á kvöldin. Þetta er skemmtilegt tvist á ítalska eldhúsið,“ segir Ágúst Fannar Einþórsson, bakari og einn eigenda BakaBaka að Bankastræti 2 í Reykjavík, í húsnæðinu sem áður hýsti veitingastaðinn Lækjarbrekku.

Meðeigendur hans eru Guðfinnur Sölvi Karlsson, sem er gjarnan kenndur við Prikið, og Björn Steinar Jónsson, stofnandi Saltverks.

Staðurinn hefur nú verið opinn í sex vikur og segir Ágúst að hann hafi hlotið mjög góðar viðtökur.

Spurður um hugmyndina að baki staðnum segist Ágúst vera góður í að gera einfalda hluti mjög vel. „Ég gerði það í Brauð & Co. og við gerum það líka hér. Ítalska eldhúsið er í grunninn gríðarlega einfalt. Ég lofa að þú færð hvergi betri pítsu en hjá mér,“ segir Ágúst og hlær.

Meðal þess sem boðið er upp á á kaffihúsinu eru kleinuhringir. „Við erum með kleinuhringi á heilanum. Við sökktum okkur ofan í kleinuhringjagerð og ég varð hreinlega orðlaus er ég beit í vöruna,“ segir Ágúst.

Einnig er á staðnum boðið upp á sænskar kardimommubollur. „Kardimomman er krydd sem ekki hefur verið notað mikið á Íslandi. Við lögðumst í vinnu við að mastera þessar bollur. Þetta er svipað og snúður og nýtur mikilla vinsælda í Skandinavíu.“

Fólk kemur aftur og aftur

Sem fyrr sagði hefur staðurinn hlotið góðar viðtökur. „Við erum að fá mikið af fólki sem kemur aftur og aftur sem er mjög gaman og hvetur okkur til dáða.“

Ágúst seldi Brauð & Co. fyrir sex árum. Í millitíðinni vann hann m.a. á Kaffi Rauðku á Siglufirði.

Ágúst er ánægður með staðsetningu BakaBaka. „Þetta er frábær staður og við viljum fá bæði Íslendinga og túrista til okkar.“

Á milli tuttugu og þrjátíu manns vinna hjá fyrirtækinu. Um nafnið, BakaBaka segir Ágúst að það sé orðaleikur, en sé upprunalega tekið úr tyrknesku rapplagi. „Svo þýðir það „fuck you“ á japönsku, eða álíka,“ segir Ágúst að lokum og hlær.