Kiehl's ákveður að vera töff í baráttunni við ellina.
Kiehl's ákveður að vera töff í baráttunni við ellina.
Ég hoppaði næstum hæð mína þegar fréttist af því að bandaríski snyrtivöruframleiðandinn Kiehl's væri á leið til landsins. Loksins sérstök áhersla á þarfir karla á þessum markaði.

Ég hoppaði næstum hæð mína þegar fréttist af því að bandaríski snyrtivöruframleiðandinn Kiehl's væri á leið til landsins. Loksins sérstök áhersla á þarfir karla á þessum markaði. Ég hef um langt árabil nálgast vörur frá fyrirtækinu, ekki síst á ferðum um Bandaríkin, en svo veit ég um nokkrar góðar verslanir sem fyrirtækið heldur úti í París.

Svo kom að því og nú er komið myndarlegt horn fyrir þessar vörur í Hagkaup í Smáralind. Ekki kemur síst á óvart að úrvalið úr vörulínum fyrirtækisins er nokkuð gott. Oft byrja birgjarnir smátt, þreifa á markaðnum og reyna að átta sig á hvar áhugi neytenda liggur en þarna er stigið þorið skref sem ábyggilega mun borga sig. Fólk kann að meta að geta valið úr fjölbreyttri flóru af góðri vöru, hvort sem það eru snyrtivörur, áfengi, fatnaður eða rafsuðuvélar.

Alla jafna hef ég látið duga að grípa hjá þeim frískandi rakakrem sem nefnist Facial Fuel. Í því er eucalyptus og annað sem frískað getur annars morgunfúlan og -súran mann með furðulega góðum árangri. Öðru hvoru hef ég líka leyft mér að kaupa andlitsmaska sem síðan hefur ósjaldan þornað upp í baðherbergisskúffunni og lent á afskriftarreikningi.

En nú þegar þessi tíðindi urðu og Kiehl's er komið til landsins, með beinagrindinni frægu [næst hljóta þau að stilla upp mótorhjólinu eins og víða erlendis], ákvað ég að kasta mér dýpra út í laugina hjá þessu ágæta fyrirtæki. Ekki hef ég orðið fyrir vonbrigðum til þessa.

En þar sem ég stóð frammi fyrir nýju vörunum í Smáralind laust því niður í kollinn á mér að nú væri komið að tímamótum. Gráu hárin sannarlega farin að gera vart við sig – og ég náði ekki að hoppa hæð mína þegar tíðindin af komu merkisins til landsins bárust mér til eyrna. Það var augljóst val að grípa til nýrra vopna sem nefnast Age Defender. Þau eru ekki árennileg, svört og skilaboðin rauð og hvít. Afgerandi í meira lagi.

Og hvað á þessi lína að gera? Einmitt það sem hún segist gera. Verja aldurinn. En er það ekki alltaf nauðvörn? Sennilega. En það má samt reyna. Og Kiehl's veit hvað það er að gera. Og það olli því að ég uppfærði vopnabúrið.

Rakakrem. Tékk. Serúm [Hvað er nú það?]. Tékk. Og rúsínan í pylsuendanum, augnkrem. Tékk. Skilar það einhverju sem máli skiptir? Það varð að koma í ljós.

Ég ákvað að gefa þessu nokkrar vikur enda hef ég alltof oft keypt einhver rakakrem sem lofa öllu fögru en þau gera lítið gagn umfram það sem öll önnur rakakrem myndu gera.

En það undarlega gerðist. Serúmið er töfraefni sem ýtir undir endurnýjun húðarinnar. Það er staðreynd sem ég velktist ekki í vafa um. Rakakremið er gott og augnkremið vekur manni trú á að hægt sé að ná áfangasigri í glímunni við Elli kerlingu. Gerir maður kröfu um meira en von í þeim efnum, nú þegar fimmtugsaldurinn nálgast eins og óð fluga?

ses@mbl.is