Kona leitar skjóls með hundi sínum í neðanjarðarlestarstöð í Kænugarði. Bæði í samskiptum á milli ríkja og samskiptum á milli einstaklinga er eins og eitthvað hafi farið verulega úrskeiðis, og erfitt að skilja vandann.
Kona leitar skjóls með hundi sínum í neðanjarðarlestarstöð í Kænugarði. Bæði í samskiptum á milli ríkja og samskiptum á milli einstaklinga er eins og eitthvað hafi farið verulega úrskeiðis, og erfitt að skilja vandann. — AFP
Ásgeir Ingvarsson skrifar frá Playa del Carmen ai@mbl.is Búið er að veikja stöðu þeirra sem áður höfðu nánast einkarétt á að miðla fréttum og móta almenningsálitið. Netið hefur hrist upp í öllu og útkoman nokkurs konar geðklofi þjóðarsálarinnar.

Ég er bjartsýnismaður að eðlisfari en atburðir undanfarinna vikna og missera hafa fengið mig til að finnast mannkynið hafa færst óþægilega nálægt bjargbrúninni. Er eins og hamfarir séu handan við hornið, einmitt þegar við ættum að fagna því að lifa á mestu friðar- og hagsældartímum sögunnar.

Hvers lags lukka er það að geta notið alls þess sem árið 2022 hefur upp á að bjóða? Með nokkrum strokum á snjallsíma má nálgast allan tónlistar- og kvikmyndaarf mannkyns, finna svörin við öllum spurningum í ókeypis alfræðiorðabókum og lesa öll heimsins dagblöð og bækur. Meira að segja í smáum strandbæ í Mexíkó getur íslenskur nautnaseggur fengið bestu rétti allra þjóða senda heim að dyrum á rétt rúmum hálftíma. Ef íslenska blaðamanninum fer að leiðast dvölin á einum staðnum getur hann – eins og ekkert sé – flogið yfir hálfan hnöttinn með argentínskan hund, tyrkneskan kött og marokkóskan eiginmann í eftirdragi. Morgunverður undir mexíkósku pálmatré í dag og súkkulaðibrauð á kaffihúsi í París á morgun.

Það glittir samt í ónotatilfinningu í gegnum allar vellystingarnar: eitthvað er ekki eins og það á að vera. Lím samfélagsins er tekið að gliðna og greinilegt að eitthvað ólgar undir niðri. Þá eru kjarnorkuflaugarnar enn í viðbragðsstöðu og spennan á milli þjóða heims fer vaxandi. Ef Pútín eða einhver annar aðþrengdur vitleysingur slysast til að ýta á skottakkann er ballið búið fyrir alla.

Væri það ekki synd ef heimurinn myndi farast einmitt núna?

Við lifum í upplýsingasamfélagi en getum ekki treyst þeim upplýsingum sem bornar eru á borð fyrir okkur. Við lifum á vísindaöld en þurfum að taka með fyrirvara öllu sem sett er fram í nafni vísindanna. Þökk sé spjallforritunum getum við setið við eldhúsborðið og rætt við hvern sem er, hvar sem er í heiminum, án þess að það kosti krónu – en samt virðist okkur fyrirmunað að eiga yfirvegað og málefnalegt samtal um heimsins gagn og nauðsynjar.

Bari Weiss mætti nýlega í viðtal hjá Peter Robinson og hjálpaði mér að skilja vandann, a.m.k. að hluta til. Hún bendir á að tæknin sem hefur gert lífið svona gott, og ýmsar rótgrónar stofnanir samfélagsins, eru að grafa undan svo mörgu sem við megum helst ekki missa.

Höfum ekki lengur sameiginlega sýn á heiminn

Lesendur ættu að fylgjast vel með Bari Weiss. Hún er ung, hrífandi og afburðagáfuð. Weiss menntaði sig við Columbia-háskóla og landaði í framhaldinu fínu starfi hjá Wall Street Journal en færði sig á endanum yfir til New York Times. Eftir þriggja ára viðdvöl var henni ekki lengur vært hjá virtasta dagblaði Bandaríkjanna því róttæk vinstrislagsíðan á ritstjórninni og heiftin í viðmóti kollega hennar á blaðinu var orðin með öllu óbærileg. Frekar en að leggja árar í bát lagði Weiss grunninn að eigin fjölmiðlaveldi og heldur í dag úti vinsælli fréttaveitu, Common Sense , á síðunni Substack, og starfrækir að auki hlaðvarpið Honestly .

Weiss bendir á að sjálfsmynd Bandaríkjamanna, og sýn þeirra á stöðu Bandaríkjanna í alþjóðasamfélaginu, sé tekin að trosna. Ein ástæðan er sú að þær stofnanir sem hafa haft það hlutverk að móta og upplýsa landsmenn: dagblöðin, háskólarnir, útgáfufyrirtækin og kvikmyndaverin, hafa nartað í undirstöður samfélagsins. Hin meginástæðan fyrir vandræðaástandi okkar tíma er internetið sem hefur gjörbreytt lífi fólks og aðgangi að upplýsingum. Weiss segir að það sé ótrúlega þægilegt að njóta tækninnar: „En við höfum leyft okkur að verða háð þeim lúxus sem netið hefur gefið okkur og á sama tíma fórnað – kannski án þess að hafa gert okkur grein fyrir því – hluta af frelsi okkar, einkalífi, og jafnvel því sem gerir okkur mennsk.“

Tæknin hefur átt þátt í að valda eins konar geðklofa í þjóðarsálinni. Bendir Weiss á að fyrir ekki svo löngu voru örfáar stofnanir í einokunarstöðu þegar kom að því að miðla fréttum og móta almenningsálitið: „Netið hefur opnað leiðir til segja fréttir með öðrum hætti, og finna fréttir sem ekki fengu að komast að. Ég les kannski í New York Times að vörubílstjórarnir sem mótmæltu í Kanada séu fasistar, en í sömu andrá get ég fundið myndskeið frá mótmælunum á Twitter og sé þar með eigin augum fólk af öllum kynþáttum, úr öllum þjóðfélagshópum, veifandi kanadíska fánanum og syngjandi „We Are the World“. Þetta misræmi hefur orðið æ greinilegra á undanförnum áratugum og aldrei sést jafn skýrt og á síðastliðnum tveimur árum.“

Þróunin sem Weiss lýsir er ekki bundin við Bandaríkin og má sjá svipaða ringulreið í hér um bil öllum löndum. Ástandið er ógnvekjandi en gefur um leið tilefni til hóflegrar bjartsýni. Það hefur sína kosti ef allir lesa sömu blöðin og hafa meira eða minna sömu sýn á hlutina, og það er fullkomlega eðlilegt að það myndist heljarinnar togstreita í samfélaginu þegar ólíkir hópar hafa gjörólíka heimssýn, en líkt og Weiss bendir á þá kann mjög spennandi framtíð að vera innan seilingar. Það hlýtur jú að gerast á endanum, þegar allt opnast upp á gátt, að sannleikurinn og skynsemin verði ofan á – eða hvað?

Falsfréttamiðlarnir New York Times og Babylon Bee

Tvær fréttir liðinnar viku sýna ágætlega hvar við erum stödd:

Lesendur muna eflaust að rétt fyrir síðustu forsetakosningar í Bandaríkjunum rötuðu eldfim gögn af fartölvu Hunters Biden, sonar Joe Biden, í hendur blaðamanna New York Post. Sýndu gögnin að Hunter hafði nýtt sér pólitísk sambönd föður síns í hagnaðarskyni þegar Joe var varaforseti, og jafnvel að Joe hefði fengið skerf af ágóðanum. Stórundarleg atburðarás hófst þegar fyrstu fréttir um málið tóku að birtast: tæknirisarnir og allir fremstu fjölmiðlar Bandaríkjanna létu fréttina einfaldlega hverfa, af ótta við að hún gæti orðið Trump að vopni í slagnum um forsetaembættið.

Í síðustu viku gekkst New York Times loksins við því, með lítilli klausu langt inni í grein um erfiðleika Hunters Biden, að fréttirnar um gögnin á fartölvunni hefðu ekki verið uppspuni úr smiðju rússneskra stjórnvalda, líkt og áður hafði verið haldið fram.

Hin frétt vikunnar var sú að Babylon Bee er komið í straff á Twitter. Babylon Bee er háðsádeiluvefur sem hefur slegið í gegn með gríni sem beinist ekki síst að vinstri væng bandarískra stjórnmála. Er það lýsandi fyrir fjölmiðla- og samfélagsmiðlaumhverfið að staðreyndatékkarar netsins hafa margoft merkt grínið frá Babylon Bee sem falsfréttir, og samfélagsmiðlar jafnharðan fylgt því eftir með því að gefa háðsádeilumiðlinum gula eða rauða spjaldið.

Það sem fyllti mælinn hjá Twitter var tíst þess efnis að Babylon Bee hefði tilnefnt transkonuna Rachel Levine, aðstoðarheilbrigðisráðherra Banaríkjanna, sem mann ársins. Vísaði grínið til þess að dagblaðið USA Today valdi Levine nýverið sem konu ársins og vakti það að vonum mikið umtal. Læsti Twitter notendareikningi Babylon Bee fyrir „hatursfulla framkomu“, hvorki meira né minna.

Má deila um hvort brandarinn var fyndinn, en hitt ætti ekki að dyljast neinum að um háðsádeilu er að ræða. Var húmor Babylon Bee þó töluvert betri fyrr á þessu ári þegar transkonan Amy Schneider sló met í spurningaþættinum vinsæla Jepoardy!: „Transkona slær met í Jepoardy og sannar þannig í eitt skipti fyrir öll að karlmenn eru gáfaðri en konur“.

Facebook kvað upp þann úrskurð að þessi brandari fæli í sér hatursorðræðu og fjarlægði færsluna.

Háskólabylting að hefjast í Texas

Kannski er það niðurstaða þessarar greinar að það hefur aldrei skipt meira máli að vera vel upplýstur og vanda valið á fjölmiðlum. Sannleikurinn kemur ekki lengur úr einni átt og berum við persónulega ábyrgð á að velja bestu uppsprettur frétta og greiningar af mjög stórum matseðli.

Fyrir þá sem vita ekki hvar á að byrja myndi ég benda á prentmiðla á borð við Reason.com, Financial Times, og fréttarit Bari Weiss – og að gefa auðvitað öllum vinum og ættingjum áskrift að Morgunblaðinu. Á YouTube, og á hinum ýmsu hlaðvarpsveitum, er síðan upplagt að finna Tom Woods, Ben Shapiro, DarkHorse (Bret og Heather Weinstein), Triggernometry og GoodFellows þar sem kanónur við Hoover-stofnunina ræða málin í þaula.

Loks er gaman frá því að segja að spennandi nýr háskóli, University of Austin, er að taka á sig mynd vestanhafs. Er háskólinn hugsaður sem andsvar við firringunni sem núorðið virðist lita flestar háskólastofnanir, og sem griðastaður fyrir fræðimenn og hugsuði sem vilja halda pólitískri rétthugsun fyrir utan kennslustofuna. Bari Weiss átti einmitt þátt í að koma skólanum á laggirnar en nú þegar hefur stofnunin fengið að gjöf meira en 80 milljónir dala til að gera verkefnið að veruleika.

Verða fyrstu námskeiðin kennd í sumar og geta háskólanemar á aldrinum 18 til 24 ára sótt um að taka þátt. Þökk sé rausnarskap bakhjarla University of Austin hafa námskeiðsgjöldin verið felld niður, og skaffar skólinn húsnæði, fæði og meira að segja 300 dala ferðastyrk.

Kennararnir eru í heimsklassa, og vert að nefna t.d. sérstaklega Deirdre McCloskey, Niall Ferguson, Ayaan Hirshi Ali, Arthur Brooks og David Mamet.

Íslenskum nemendum er frjálst að sækja um.