[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
* Franck Kessié hefur lokið læknisskoðun hjá knattspyrnuliði Barcelona á Spáni og mun hann ganga til liðs við spænska félagið þegar samningur hans við AC Milan rennur út í sumar.

* Franck Kessié hefur lokið læknisskoðun hjá knattspyrnuliði Barcelona á Spáni og mun hann ganga til liðs við spænska félagið þegar samningur hans við AC Milan rennur út í sumar. Kessié, sem er 25 ára gamall, gekk til liðs við AC Milan frá Atalanta árið 2017. Hann á að baki 214 leiki fyrir félagið í öllum keppnum þar sem hann hefur skorað 36 mörk og þá á hann að baki 52 A-landsleiki fyrir landslið Fílabeinsstrandarinnar.

*Hin 15 ára gamla Kamila Valieva snýr aftur á ísinn um helgina þegar hún keppir í listhlaupi á skautum í Saransk í Rússlandi. Mótið sem Valieva mun keppa á ber heitið Channel One-bikarinn og er eingöngu fyrir Rússa en mótið fer fram á sama tíma og heimsmeistaramótið í listhlaupi á skautum sem hefst á morgun í Montpellier í Frakklandi. Rússar fá ekki að keppa á mótum á vegum Alþjóðaskautasambandsins vegna innrásar Rússlands í Úkraínu.

*Bretar og Írar eru öruggir um að verða gestgjafar í úrslitakeppni Evrópumóts karla í knattspyrnu sem fram fer sumarið 2028 en bæði The Times og The Telegraph greindu frá þessu í gær. UEFA hefur ekki gefið þetta formlega út en umsóknarfresturinn um að halda mótið rennur út í dag og mun UEFA tilkynna niðurstöðuna hinn 7. apríl.