Kóramót Kór Íslendinga í Árósum er meðal þeirra kóra sem taka þátt í Voiceland í borginni 22.-23. apríl nk. Hér er hann við altari Dómkirkjunnar í Árósum á tónleikum í tilefni 100 ára fullveldisafmælis Íslands árið 2018.
Kóramót Kór Íslendinga í Árósum er meðal þeirra kóra sem taka þátt í Voiceland í borginni 22.-23. apríl nk. Hér er hann við altari Dómkirkjunnar í Árósum á tónleikum í tilefni 100 ára fullveldisafmælis Íslands árið 2018.
Björn Jóhann Björnsson bjb@mbl.is „Mótið átti að fara fram í fyrra en við urðum að fresta því vegna kórónuveirufaraldursins.

Björn Jóhann Björnsson

bjb@mbl.is

„Mótið átti að fara fram í fyrra en við urðum að fresta því vegna kórónuveirufaraldursins. Um tíma stóð tæpt að við gætum haldið mót í ár en við ákváðum að láta slag standa,“ segir Sylvía Lind Benediktsdóttir en hún er meðal skipuleggjenda kóramóts í Árósum í Danmörku dagana 22. og 23. apríl næstkomandi. Þar koma saman kórar sem Íslendingasamfélög í nokkrum borgum og bæjum í norðanverðri Evrópu starfrækja.

Kóramótið nefnist Voiceland og hefur verið haldið allt frá árinu 1990. Þá tóku aðeins tveir kórar þátt í því en síðan hefur þeim fjölgað jafnt og þétt. Mótið er haldið annað hvert ár og skiptast kórarnir á um að skipuleggja mótshaldið. Í ár verða 11 kórar með, alls um 160 manns. Koma kórarnir frá Árósum, Kaupmannahöfn, Gautaborg, Stokkhólmi, Lundi, Osló, Bergen, Þrándheimi og London. Helsti styrktaraðili mótsins er AP Møller Mærsk-sjóðurinn.

„Við gáfum kórunum aðeins lengri frest til að skrá sig og sem betur fer eru allir kórarnir komnir á skrið. Við buðum 14 kórum og 11 þeirra svöruðu. Það er bara frábært,“ segir Sylvía Lind.

Hún segir styrkinn frá sjóði AP Møller Mærsk skipta miklu máli og hann geri mótshaldið mun ódýrara en ella. Sylvía Lind syngur með Íslendingakórnum í Árósum, þar sem um 25 syngja undir stjórn Gunnars Sigfússonar. Gunnar er atvinnumaður í tónlist og syngur einnig með Vocal Line, sem er þekktur sönghópur í Danmörku.

„Kóramótið er skemmtilegur liður í að sameina söngglaða Íslendinga sem eiga það sameiginlegt að búa í öðru landi en heimalandinu. Það er virkilega gaman að sjá hve margir íslenskir kórar finnast utan landsteinanna sem njóta þess að syngja,“ segir Sylvía Lind enn fremur.

Mótið í ár verður sett föstudaginn 22. apríl í Ráðhúsinu í Árósum, þar sem söngvarar, kórstjórar og meðleikarar verða boðin velkomin. Landsþekktur Íslendingur mun setja mótið en nafni hans verður haldið leyndu að svo stöddu.

Á laugardeginum verða stífar æfingar sem enda í stórtónleikum í Dómkirkjunni í Árósum. Þar mun hver kór fyrir sig koma fram og einnig munu þeir allir koma saman í lokin. Tónleikunum lýkur síðan með þjóðsöng Íslands, Ó Guð vors lands.

Tónleikunum verður streymt á youtube og hægt að nálgast slóðina á facebookviðburði mótsins:

https://fb.me/e/2mcxuaBEX.

Að tónleikunum loknum munu kórarnir eyða kvöldinu saman í góðum félagsskap og án nokkurs vafa verður brostið í söng.