Arnar Már Búason fæddist 24. janúar 1987 í Reykjavík. Hann lést á líknardeild Landspítala í Kópavogi 16. mars 2022.

Foreldrar hans eru Ágústa Helga Sigurðardóttir, f. 1960, d. 1990, og Búi Kristjánsson, f. 1961, stjúpmóðir hans er Sif Sigfúsdóttir, f. 1967.

Systkini Arnars eru: Haukur Þór, f. 1981, Birgir Hrafn, f. 1984, Kristín Mjöll Bjarnadóttir Johnsen, f. 1990 (stjúpsystir), Telma Sif, f. 2000, og Hildur Björk f. 2004.

Arnar eignaðist son sinn, Viktor Örn, f. 2014, með fyrrverandi eiginkonu sinni, Aðalheiði Ósk Guðlaugsdóttur, f. 1986.

Hinn 19. júní 2021 giftist Arnar Camilu Píu Canales Oyarzo, f. 25. mars 1991 í Santiago de Chile. Þau voru búsett á Seltjarnarnesi.

Árið 2011 útskrifaðist Arnar með BS-gráðu í hagfræði frá Háskóla Íslands og árið 2013 lauk hann MS-gráðu í hagfræði frá Norwegian University of Life Science. Arnar fékk viðurkenningu fyrir bestu meistararitgerð við hagfræðideild skólans það árið. Á árunum 2015-2016 stundaði hann rannsóknir við University of California Davis og árið 2017 útskrifast hann sem doktor í hagfræði frá Norwegian University of Life Science.

Arnar starfaði sem nýdoktor við hagfræðideild Háskóla Íslands og stundakennari við sama skóla. Hann vann að velferðarrannsóknum þar sem hann rannsakaði meðal annars samband þunglyndis, kvíða og lífsánægju og einnig rannsakaði hann hagræn áhrif vinnustreitu og lífsánægju. Arnar hlaut þriggja ára nýdoktorsstyrk frá RANNÍS til að halda áfram rannsóknum á sviði geðheilbrigðis og hagfræði. Arnar tók einnig þátt í rannsóknum á sviði fiskihagfræði, m.a. í tengslum við fiskveiðistjórnun í Afríku og brottkast í íslenskum sjárvarútvegi. Arnar skildi eftir sig fjölda birtra fræðigreina í erlendum tímaritum, auk fjölmargra fyrirlestra. Hann hélt síðasta erindið sitt hjá London School of Economics um heilbrigðismál í febrúar 2022 frá líknardeild Landspítala í Kópavogi.

Útför Arnars fer fram frá Laugarneskirkju í dag, 29. mars 2022, klukkan 13.

Elsku hjartans Arnar okkar.

Nú er komið að kveðjustund þar sem engin orð, texti eða ljóð geta lýst þeim sársauka sem fylgir því að þurfa að kveðja þig núna í blóma lífsins. Við erum þakklát fyrir þann tíma sem við áttum saman þótt hann hafi verið allt of stuttur. Við erum þakklát fyrir glaðlynda ljósið sem þú varst í lífi okkar og systkina þinna. Þú bjóst yfir sérstöku næmi til að skilja fólk og tilfinningar, varst fallegur, jákvæður og hlýr við alla þína fjölskyldu, eiginkonu og son.

Við elskum þig og geymum minningar um þig í hjörtum okkar að eilífu.

Nú legg ég augun aftur,

ó, Guð, þinn náðarkraftur

mín veri vörn í nótt.

Æ, virst mig að þér taka,

mér yfir láttu vaka

þinn engil, svo ég sofi rótt.

(Sveinbjörn Egilsson)

Ég fel í forsjá þína,

Guð faðir, sálu mína,

því nú er komin nótt.

Um ljósið lát mig dreyma

og ljúfa engla geyma

öll börnin þín, svo blundi rótt.

(Matthías Jochumsson)

Þinn

pabbi og mamma Sif.

Það er svo gífurlega sárt að kveðja elsku Arnar bróður sem lést 16. mars sl. Það er ekkert ósanngjarnara en að þurfa að kveðja lífið ný orðinn 35 ára, nýgiftur ástinni sinni og í blóma lífsins. Að fá ekki að eldast og horfa yfir farinn veg, fá ekki að horfa á son sinn vaxa úr grasi og verða gamall. Ég græt sárt við að hugsa um það.

Ég eignaðist Arnar bróður þegar ég var fjögurra ára og hann þá sjö ára. Ég man ekki eftir öðru en að eiga hann að og er þakklát fyrir að hafa fengið að vera systir hans í 28 ár. Mínu fyrsta herbergi deildi ég með Adda sem barn og rúmin okkar snéru hvort að öðru. Það var eflaust pirrandi að hafa litla systur sífellt ofan í sér en það veitti mér engu að síður mikið öryggi að hafa stóra bróður hjá mér.

Ég minnist þess með hlýju þegar ég hringdi í hann með litlum fyrirvara og bað hann að keyra mig upp á flugvöll, þessi bílferð er dýrmæt minning þar sem við töluðum um heima og geima og liðna tíð og leið hjá eins og nokkrar mínútur. Þú varst alltaf til í að aðstoða og hjálpa þeim sem þurftu og kom það því ekki á óvart þegar þú ákvaðst að fara að kenna við háskólann.

Ég rakst á lítið ljóð um daginn eftir Marjorie Pizer sem mér fannst lýsa vel þessu ferli að missa ástvin, þegar ljósið og kær minning verður sterkari en sorgin, sem í fyrstu virðist óyfirstíganleg:

„Ég taldi að dauði þinn væri eyðing og eyðilegging, sársaukafull sorg sem ég fékk vart afborið. Smátt og smátt lærist mér að líf þitt var gjöf og vöxtur og kærleikur sem lifir með mér. Örvænting dauðans réðist að kærleikanum. En þótt dauðinn sé staðreynd fær hann ekki eytt því sem þegar hefur verið gefið. Með tímanum læri ég að líta aftur til lífs þíns í stað dauða þíns og brottfarar.“

Elsku bróðir minn ljónshjarta, hjartahlýi og hugrakki bróðir, ég kveð þig með sorg í hjarta en jafnframt þakklæti fyrir þann tíma sem við fengum saman. Ég loka augunum og sé þig brosandi og vil trúa því að þér sé tekið opnum örmum í Sumarlandinu af látnum ástvinum.

Þangað til næst, þín systir,

Kristín Mjöll.

Ég minnist þín elsku Addi sem allra besta stóra bróður sem ein 13 árum yngri litla systir hefði getað átt. Þú varst skilningsríkur, ljúfur, ofurklár og vildir alltaf hjálpa manni í hverju sem maður tók sér fyrir hendur. Þessir eiginleikar skinu í gegn í þeim metnaðarfulla og góða kennara sem þú varðst. Ég fékk sjálf að upplifa þá hlið á þér þegar þú hjálpaðir mér margoft með verkefni og ritgerðir. Þú hafðir nefnilega þessa einstöku leið við að útskýra hluti fyrir manni á mannlegan hátt sem gerði allt svo miklu einfaldara.

Ég gleymi því aldrei þegar ég hringdi í þig eftir fyrsta daginn minn í Versló að stressa mig á einhverri „háskóla“hagfræðibók sem mig vantaði. Þú vissir náttúrlega nákvæmlega um hvaða bók ég var að tala og sagðir svo: „Já, við reddum þessu, ég kann þessa bók utanbókar.“ Eins og stóri bróðirinn sem þú varst var bókin mætt heim á Þorfinnsgötuna sama dag. Litla systirin með sama áhugasvið átti sko ekki að þurfa að lyfta litla fingri. Ég flaug í gegnum alla þessa hagfræði með þig mér við hlið. Lokaritgerðin mín, sem fékk góðar undirtektir, var skrifuð út frá nokkrum mjög löngum en mjög góðum samtölum sem við áttum. Í dag eru þessi samtöl og hittingar ógleymanlegar minningar um kláran og góðhjartaðan bróður.

Þú varst einn af mínum helstu peppurum í náminu og sýndir mér alltaf skilning og stuðning gagnvart öllu því sem fylgdi því að vera í námi erlendis, enda þekktir þú það af eigin reynslu.

Ég er endalaust þakklát fyrir að hafa fengið að vera litla systir þín, elsku Addi minn. Þín verður sárt saknað alla daga.

Að þekkja þig var að elska þig.

Hvíldu í friði elsku stóri bróðir.

Þinn demantur,

Telma Sif.

Elsku besti bróðir minn, takk fyrir allar skemmtilegu stundirnar og minningarnar. Ég mun sakna þess að geta hlegið með þér og sjá þig brosa út að eyrum. Ég er svo óendanlega þakklát fyrir að hafa átt þig sem bróður, svo hjálpsamur og klár. Þú varst fyrirmynd í alla staði og mér þykir endalaust vænt um þig. Ég vildi óska þess að tíminn okkar hefði verið lengri. Hvíldu í friði elsku Addi minn.

Þín systir,

Hildur.

Við kynntumst Arnari þegar Sif systir og Búi pabbi Arnars felldu hugi saman en móðir Arnars, Ágústa, hafði látist langt fyrir aldur fram. Þá sáum við þessa einstöku fjórmenninga, Búa, Hauk Þór, Birgi Hrafn og Arnar Má. Enginn gat sett sig í spor þeirra eftir móður- og eiginkonumissi, en sterk bönd voru á milli þeirra feðganna og einstök hlýja. Og sá minnsti, Arnar, ljóshærður með stóru augun, var alltaf svo stoltur að fá að fylgja með í öllu sem stóru bræðurnir tóku sér fyrir hendur. Svo var pabbinn alltaf stuðningsmaður númer eitt.

Fjölskyldan stækkaði og dafnaði og myndaði sterka heild með Búa, Sif, strákunum þremur og systrunum Kristínu Mjöll, Telmu Sif og Hildi Björk. Mannvænleg og falleg fjölskylda sem nú syrgir einstakan bróður.

Við fylgdumst með Arnari vaxa úr grasi í þessum stóra hópi og sækja fram af mikilli atorku í námi og lífi. Hann eignaðist fallegan dreng, Viktor Örn, sem nú syrgir föður sinn. Við vorum rífandi stolt þegar hann lauk doktorsprófi í hagfræði í Noregi og hlaut þar mikið lof fyrir rannsóknir sínar. Svo hófst farsæll ferill í Háskóla Íslands þar sem Arnar hlaut sérstakar viðurkenningar fyrir kennslu. Svo kynntist Arnar Camy og greinilegt var að þar hittust manneskjur sem áttu einstaklega vel saman, falleg og með framtíðarplön. En nokkrum mánuðum eftir giftinguna í fyrra fékk Arnar fréttirnar um sjúkdóminn og erfiða baráttu sem var fram undan.

Fyrir réttum mánuði var brosmildi frændi kominn á líknardeild en af elju settist hann við skjáinn til að halda fyrirlestur fyrir nemendur; síðasta fyrirlesturinn.

Þótt síðasta kennslustundin sé að baki sitjum við öll eftir og höldum áfram að læra af þessum unga og fallega manni sem með athöfnum sínum, skrifum og hlýju brosi verður áfram í hugsunum okkar. Guð geymi ykkur öll, Camy, Viktor Örn, Búi og Sif og systkinin Haukur Þór, Birgir Hrafn, Kristín Mjöll, Telma Sif og Hildur Björk. Guð og við öll munum geyma minningu Arnars í hjarta okkar.

Þór og Halldóra.

Við Arnar Már vorum þremenningar. Diddi, móðurafi hans, og Denna, föðuramma mín, voru systkini. Af Búasonum var Addi næstur mér í aldri, ári yngri en ég, og með okkur tókst mikil vinátta mjög snemma í æsku. Þessi brosmildi glókollur hafði eitthvert aðdráttarafl sem ég sótti svo sterkt í, og suðaði því mjög oft um það bæði við pabba og við ömmu hvort ég gæti nú ekki hitt Arnar og leikið við hann.

Við hittumst því eins oft og hægt var að koma í kring þegar við vorum ungir strákar, og svo þegar komið var fram yfir 10 ára aldurinn gistum við hvor hjá öðrum á víxl þegar það hentaði. Ég man meira að segja að eitt sumarið held ég að Addi hafi verið hjá mér í allavega tvær nætur í röð, af engri sérstakri ástæðu annarri en þeirri að við vorum bara eitthvað að dunda okkur saman og leika. Hann var líka alltaf fyrstur á blað þegar kom að því að útbúa gestalista fyrir afmælin mín. Þrisvar fórum við svo saman í Vatnaskóg með Kristjáni frænda hans og Benjamín bekkjarbróður Adda úr Vesturbænum. Það eru góðar minningar að hugsa til.

Þegar kom á unglingsárin misstum við þó sambandið. Það var samt ekki vegna neins sérstaks. Slíkt bara gerist hjá fólki. Við rákumst þó auðvitað hvor á annan fyrir tilviljun við og við og spjölluðum þá alltaf saman. Skemmtilegasta tilviljunin var þegar ég var að koma úr vinnuferð einhvers staðar úr Evrópu vorið 2019 og millilenti í Osló á leiðinni heim. Þá hitti ég Arnar á flugvellinum ásamt Hauki bróður hans, Kristjáni föðurafa þeirra og Børge. Arnar hafði þá nýlokið við doktorsvörnina sína í Noregi og var á leið heim til Íslands. Það var óvænt ánægja að geta óskað þeim til hamingju með áfanga Arnars fyrir algjöra tilviljun á flugvellinum í Osló.

En þó svo að samskipti okkar hafi verið lítil síðustu 20 árin er samt ótrúlega erfitt að kveðja. Mér þótti alltaf jafn vænt um hann frænda minn. Það mun mér áfram þykja, og hugsa til hans með mikilli hlýju. Elsku Arnar Már minn, takk fyrir allt.

Þorkell Gunnar

Sigurbjörnsson.

Ég kynntist Arnari Má Búasyni þegar hann var í grunnnámi í hagfræði. Hann tók að sér dæmakennslu fyrir mig í tölfræði. Við náðum strax vel saman og með okkur tókst vinskapur sem óx og dafnaði. Ég leiðbeindi honum í lokaverkefni hans við Háskóla Íslands, afar áhugaverðri greiningu á hagfræði jarðvarmavirkjana. Arnar hélt utan til Noregs í framhaldsnám sem hann lauk með sóma. Við tók doktorsnám hjá Arnari undir leiðbeiningu minni og míns gamla leiðbeinanda, Kyrre Rickertsen. Í því, eins og öðru, stóð Arnar sig með mikilli prýði. Hann var skapandi í nálgun sinni að vandamálum, vandvirkur og vinnusamur. Kaflarnir úr ritgerð hans hafa allir birst í virtum fagtímaritum í hagfræði.

Arnar var sérstaklega áhugasamur og glöggur hagfræðingur. Fáum hef ég kynnst sem brunnu eins mikið fyrir fræðunum. Greinarnar sem eftir hann liggja á hans alltof stutta ferli sýna líka hve mikill missir er að honum sem fræðimanni. Framlag hans til hagfræðinnar mun bera uppi hróður hans um ókomna tíð.

Fyrst og fremst var Arnar þó yndisleg manneskja. Hann var góður vinur. Hann var afar natinn við nemendur og vinsæll sem kennari. Ég hef ekki tölu á öllum þeim skemmtilegu og krefjandi samtölum og rökræðum sem við áttum í gegnum tíðina. Það eru forréttindi að hafa kynnst Arnari. Ég mun sakna hans sárt.

Hugur minn er hjá öllum hans ættingjum og vinum, eiginkonu hans og syni. Þeim sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Daði Már Kristófersson,

prófessor í hagfræðideild Háskóla Íslands.

Ég minnist ungs, myndarlegs, hámenntaðs manns; föður, eiginmanns og vísindamanns. Ég minnist glæsilegs samstarfsaðila sem kepptist af metnaði við að afla þekkingar í gegnum vísindastarf og birta niðurstöður rannsókna sinna í tímaritum sem gerðu miklar fræðilegar kröfur, eina á fætur annarri. Ég minnist háskólakennara sem gaf allt í miðlun viðfangsefnisins til nemenda. Meðbyrinn var hans og lífið blasti við honum með öllu því besta sem það hefur upp á að bjóða. Á einhvern óskiljanlegan hátt breyttist allt á svipstundu.

Ég minnist allra skemmtilegu samverustundanna og samræðnanna bæði í vinnunni og utan hennar, í tveggja manna tali og með félögum okkar í ConCIV-rannsóknarteyminu. Umræðurnar voru alltaf skemmtilegar, ekki síst vegna kraftsins og ákafans sem þær fólu jafnan í sér og blönduðust við forvitni og áhuga á því að heyra hvað viðmælandinn hafði um málið að segja. Og ástríðan fyrir málefnum og skoðanaskiptum skilaði sér inn í stór og smá mál og gerði allar samræður einstaklega líflegar. Þær gátu snúist um samfélagsmál á borð við trúmál, mannréttindi, feminisma, stjórnmál og fíkniefnalöggjöf svo eitthvað sé nefnt. En samræður voru ekkert síður líflegar, glaðlegar, heitar og uppfullar af merkingu þegar þær snerust um vísindaleg smáatriði. Er réttara að nota föst eða slembin áhrif, hvert er eðli misdreifini og marglínuleika í gögnunum, viðbrögð við fylgni á milli skýristærða og truflunar. Allt atriði sem Arnar fékk sig seint fullsaddan á að ræða. Þessi áhugi hefur örugglega átt sinn þátt í því hversu farsæll kennari Arnar var.

Síðustu samræður okkar Arnars fóru fram í síma mánudaginn 14. mars. Það var tæplega hálftíma símtal um tölfræðilegar útfærslur. Geri aðrir betur tveimur dögum fyrir andlát. Það var líka svo dæmigert fyrir Arnar að um fjórum mínútum eftir að símtalinu lauk hringdi hann aftur; hann hafði nefnilega ekki alveg komið öllu til skila sem hann ætlaði sér að segja. Dæmigert – engin lognmolla. Helst átti ég að koma niður á líknardeild til hans og taka smá skorpu í viðfangsefnum okkar. Ég sagðist ekki geta komið nákvæmlega þá, en ég gæti komið til hans daginn eftir. Arnar samþykkti það. Ég veit ekki enn hvort hann vissi sjálfur þegar samtal okkar fór fram að sú heimsókn myndi aldrei eiga sér stað.

Við höfðum nokkrum sinnum talað um baráttuna við dauðann, en stundum þarf fólk í þessum aðstæðum líklega bara að láta eins og ekkert sé. Hvernig sem þessu var háttað, þá voru þessi síðustu samskipti okkar dæmigerð fyrir kraftinn í Arnari. Ég er þakklát fyrir alla samvinnuna, samræðurnar, vinskapinn og ekki síst lífið og fjörið sem fylgdi Arnari.

Missir okkar vina og samstarfsfólks er mikill. Missir háskólasamfélagsins í víðu samhengi ekki síður. Mestur er þó missir fjölskyldunnar.

Elsku Cami, Viktor, Búi og Sif, ásamt systkinahópnum öllum – ég votta ykkur mína dýpstu samúð. Blessuð sé minning góðs manns.

Tinna Laufey Ásgeirsdóttir.

Arnar var glaðlegur og hlýr. Það var alltaf gaman að hitta hann enda tók hann ávallt á móti okkur með fallegt og einlægt bros á vör. Það var hægt að spjalla við hann um allt milli himins og jarðar. Arnar var vel lesinn og voru rökræður við hann oftar en ekki ánægjulegar og lærdómsríkar, en þær gátu þó gengið lengra en upphaflega var lagt upp með enda voru oft sterkar skoðanir um hagfræðileg málefni með í spilinu.

Vinnan lék stórt hlutverk í lífi Arnars. Hann var sérstaklega fær á sínu sviði og metnaðarfullur. Við hin nutum góðs af, því alltaf var hægt að leita til hans og fá gagnlegar og góðar ráðleggingar.

Það fór ekki á milli mála þegar Arnar hitti Cami að hann hafði fundið lífsförunaut sinn. Það lifnaði yfir honum í hvert sinn sem hann nefndi hana, sem var ósjaldan. Hann naut þess að segja frá henni og hennar afrekum.

Arnar átti ekki auðvelt líf en hann var mjög opinskár varðandi það. Það gefur til kynna mikinn styrk því það sýnir að hann horfðist í augu við og tókst á við þá erfiðleika sem knúðu að dyrum. Þetta viðhorf Arnars sýndi sig vel á síðustu mánuðum. Þrátt fyrir afar erfið veikindi tók hann þeim af æðruleysi og lét þau ekki stoppa sig en hann hélt áfram rannsóknum og kennslu eins lengi og hann mögulega gat. Við sem fylgdumst með gátum ekki annað en dáðst að þessum krafti.

Í dag kveðjum við góðan vin sem verður sárt saknað.

Þínir vinir og vinnufélagar,

Anna Guðrún og Sigurður.

Nýr strákur birtist í byrjun fimmta bekkjar Digranesskóla í Kópavogi, Arnar Már Búason. Vinátta okkar tíu ára drengjanna hófst fljótlega. Vináttan styrktist er tímar liðu. Ég sá fljótlega að þarna fór sannur vinur sem stóð með mér sama hvað á bjátaði. Samræður okkar Arnars voru einhvern veginn mun dýpri og innilegri en við aðra fannst mér. Hann hafði að mínu mati til að bera sérstakan kærleika og gleði sem ég hef fundið hjá fáum öðrum.

Það var ekkert jafn ljúft eftir langan og leiðinlegan skóladag en að fara heim til Adda í tölvuleikina Mario Kart, Goldeney eða Fallout. Ég játa að stundum var skrópað á íþróttaæfingu eða öðrum viðburðum til að spilla ekki fyrir samveru okkar félaga.

Ég kynntist fljótlega fjölskyldu Adda. Neðri hæðina í Heiðarhjallanum höfðu eldri bræður hans, Haukur og Birgir, að mestu út af fyrir sig. Þeir voru sérstaklega góðir við litla bróður sinn og við drengirnir oft velkomnir að vera með í fjölþættum áhugamálum eldri bræðranna. Við lærðum ýmis spil sem Haukur var svo iðinn við að bera með sér heim. Ég verð að viðurkenna ákveðna öfund út í vin minn að eiga svona frábæra eldri bræður en ég er sjálfur elstur í minni systkinaröð.

Mér er minnisstætt, þegar ég eitt sinn átti að vera kominn í háttinn, að ég heyri kunnuglegar raddir og kíki út um gluggann á herberginu mínu og sé þá bræðurna labba fram hjá húsinu mínu á leið á miðnæturfrumsýningu á nýju Star Wars-bíómyndinni. Mikið langaði mann með!

Þau voru ófá síðdegin sem við félagarnir eyddum í Heiðarhjallanum að hlusta á X-ið og Metallica-diska á meðan við máluðum Warhammer-karla, spiluðum tölvuleiki eđa bara ræddum saman.

Oft var labbað góða gönguleið í bíó í Álfabakkann í Breiðholti eða á helstu vídeóleigur Kópavogs. Stundum þurfti að ganga á nokkrar leigur til að hafa uppi á réttu spólunni. Því lengri sem göngutúrinn var því betra þar sem alltaf var nóg að ræða og pæla.

Við Arnar fórum hvor í sína áttina á fullorðinsárum eins og gerist. Hann hvarf til náms og starfa erlendis um skeið en ég hlaut mína menntun hér heima. En þegar við hittumst rifjaðist upp fyrir okkur þessi nána stemning æskuáranna. Fljótt duttum við inn í okkar djúpu pælingar. Ég mun sárt sakna þess að geta ekki leitað lengur til Arnars um okkar fjölþættu áhugamál.

Samt finnst mér eins og þessi náni vinskapur og djúpi kærleikur sem myndaðist milli okkar félaganna muni lifa að eilífu. Vertu sæll í bili kæri vinur.

Innilegar samúðarkveðjur, kæra fjölskylda Arnars Más Búasonar.

Valgeir Sigmarsson.