[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
* Albert Guðmundsson gæti spilað með íslenska landsliðinu í knattspyrnu þegar það mætir Spánverjum í La Coruna í kvöld en hann missti af leik liðsins gegn Finnum í Murcia á laugardaginn vegna veikinda.

* Albert Guðmundsson gæti spilað með íslenska landsliðinu í knattspyrnu þegar það mætir Spánverjum í La Coruna í kvöld en hann missti af leik liðsins gegn Finnum í Murcia á laugardaginn vegna veikinda. Andri Lucas Guðjohnsen gat ekki spilað þann leik vegna meiðsla og ekki er reiknað með að hann verði heldur leikfær í kvöld. Viðureign liðanna hefst klukkan 18.45.

* Rakel Dögg Bragadóttir , fyrrverandi landsliðskona í handknattleik, hefur verið ráðin aðstoðarþjálfari kvennaliðs Fram frá og með næsta keppnistímabili. Hún aðstoðar Stefán Arnarson sem framlengdi á dögunum sinn samning út næsta tímabil. Rakel, sem er 35 ára og lék 102 landsleiki, hætti sem þjálfari kvennaliðs Stjörnunnar í janúar á þessu ári.

* Christian Pulisic , leikmaður Chelsea, skoraði þrennu fyrir Bandaríkin í 5:1-sigri gegn Panama í Orlando í fyrrinótt, í undankeppni HM í Katar. Fyrir lokaumferðina stendur bandaríska liðið vel að vígi en það þolir að tapa fyrir Kostaríka aðfaranótt fimmtudags með fimm marka mun.

*Danska stórskyttan Mikkel Hansen er handboltamaður ársins 2021 samkvæmt kosningu handboltanetmiðilsins Handball-Planet. Það er ellefu manna sveit handboltasérfræðinga frá jafnmörgum löndum, ásamt um 37 þúsund handboltaáhugamönnum í netkosningu, sem velur besta leikmanninn. Handball-Planet hefur staðið fyrir þessari kosningu í ellefu ár og Hansen, sem leikur með París SG í Frakklandi, er sá fyrsti sem hlýtur titilinn í þriðja skipti.