Erna Sigurþóra Kristinsdóttir fæddist í Hafnarfirði 18. mars 1942. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Sólvangi 13. mars 2022.

Foreldrar hennar voru Hans Kristinn Hákonarson, f. 9. júlí 1897 á Stað, Reykhólahr., A-Barð., d. 28. apríl 1986, bóndi á Kletti, Gufudalshr., síðar yfirlögregluþjónn í Hafnarfirði, og Sólveig Baldvinsdóttir, f. 23. júlí 1913 í Hrauntúni, Biskupstungnahr., d. 9. ágúst 1996. Erna var einkabarn þeirra hjóna.

Systkini Ernu samfeðra eru: Ingimundur, f. 11. sept. 1920, d. 1. sept. 1971; Hákon, f. 7. ágúst 1922, d. 19. maí 2012; Halldór, f. 18. sept. 1928, d 26. júní 1967; Erna, f. 17. apríl 1931, d. 18. mars 2013; Magnús Hansson, f. 28. ágúst 1932, d. 28. des. 2010.

Erna giftist 25. mars 1967 Guðmundi Lúðvíki Jóhannessyni héraðsdómara, f. 28. apríl 1938. Foreldrar hans voru Jóhannes Steinn Sveinsson matsveinn, f. 13. mars 1903, d. 29. sept. 1960, og Petrína Henríetta Guðmundsdóttir klæðskeri, f. 12. júlí 1901, d. 30. júlí 1977.

Börn Ernu og Guðmundar eru: 1) Sólveig Jóhanna, lögfr. og viðskiptafr., f. 1. okt. 1967, maki hennar Sigurbjörn Hjörtur Guðjónsson véltæknifr. og viðskiptafr., f. 11. jan. 1967, börn þeirra eru i) Lúðvík Guðni, f. 23. mars 2004, og ii) Dagný Saga, f. 31. jan. 2007. 2) Kristín Þórunn viðskipta- og tölvunarfr., f. 5. okt. 1973, börn hennar eru i) Baldvin Ernir, f. 22. ágúst 2017, og ii) óskírður drengur, f. 7. mars 2022. 3) Valdís Björk hjúkrunarfr., f. 23. maí 1975, maki hennar Guðlaugur Jóhann Jóhannsson tannlæknir, f. 22. maí 1975, börn þeirra eru i) Tryggvi Kristinn, f. 25. nóv. 2004, og ii) Guðmundur Jóhann, f. 24. feb. 2007.

Að loknu gagnfræðaprófi starfaði Erna í Englandi í eitt ár. Árið 1960-1961 var hún í Kvennaskólanum á Blönduósi. Hún starfaði hjá Vélsmiðju Hafnarfjarðar þangað til hún hóf störf hjá Sýslumanninum í Hafnarfirði í 1. mars 1966 þar sem hún starfaði til starfsloka.

Erna var virk í starfi Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði og var formaður Sjálfstæðiskvennafélagsins Vorboðans árin 1982 til 1985.

Erna hafði mjög gaman af ferðalögum erlendis og ferðuðust þau hjónin víða um Evrópu, til Bandaríkjanna, Rússlands og Asíu.

Hestar og hestamennska áttu hug Ernu allan. Á níunda áratugnum fengu þau hjónin skógræktarland undir sumarbústað og jafnframt beitiland fyrir hestana, í landi Kotvalla í Eystri-Rangárvallahreppi.

Erna fékk mikinn áhuga á málaralist á tíunda áratugnum, sótti mörg námskeið bæði í vatnslita- og olíumálun.

Erna verður jarðsungin frá Hafnarfjarðarkirkju í dag, 29. mars 2022, klukkan 15.

Maður velur sér ekki í hvaða fjölskyldu maður fæðist en það var mikil blessun fyrir mig að fæðast inn í mína fjölskyldu. Ástríki var mikið og gleðin var alllsráðandi á heimilinu. Mikið var hlegið og samverustundirnar margar og dýrmætar. Það fór ekki mikið fyrir boðum og bönnum í uppeldinu og gott frelsi var til að vera maður sjálfur. Ég var þess ávallt áskynja hve mikið þið pabbi elskuðuð hvort annað og hve mikla virðingu þið báruð hvort fyrir öðru. Gestkvæmt var á heimilinu og oft hentir þú í pönnsur. Þínar pönnukökur voru svo góðar, bragðbættar með vanilludropum og 3-4 dropum af sítrónudropum. Vikuna eftir að þú kvaddir okkur hef ég staðið mig að því að baka fimm sinnum pönnukökurnar þínar bara, af því bara. Þú fórst aldrei eftir uppskrift þegar þú bakaðir og oft fylgdir þú ekki öllum reglum en kökurnar þínar voru betri fyrir vikið og þú dásamlegri.

Þú fórst þínar eigin leiðir og sagðir meiningu þína. Þegar þér fannst hlutirnir ekki réttir eða þér fannst brotið á öðrum léstu iðulega í þér heyra. Þú hafðir einstakt lag á að tjá þig og það vafðist ekki fyrir þér að halda ræður í margmenni. Þú varst skjót í tilsvörum og hnyttin. Það var gott að hafa þig með sér í liði.

Þú varst uppátækjasöm og gast haldið mörgum boltum á lofti. Þú varst hamhleypa til verka og afkastamikil. Veisluborð þín voru hlaðin kræsingum og þú hafðir yfirburðafærni.

Ég minnist samverustunda fjölskyldunnar í sveitinni. Þið pabbi byggðuð glæsilegan bústað í landi Kotvalla. Við eyddum miklum tíma í sveitaparadís ykkar og eigum við og barnabörn ykkar margar yndislegar minningar af samverustundum okkar þar. Hestarnir ykkar voru þá oft á beit í kringum bústaðinn og þá varst, þú elsku mamma, í himnaríki.

Ég minnist þess hversu heitar hendur þínar voru þegar þú yljaðir fingur mínar og tær. Ég minnist þess hve hlýr og mjúkur faðmur þinn var. Það var alltaf svo gott að leita til þín og þú hafðir ráð undir rifi hverju handa mér.

Þú varst miðdepill fjölskyldunnar og mikið tóm hefur myndast í hjörtum okkar. Ég er ekki að kveðja þig elsku mamma mín því við sjáumst síðar.

Og ennþá rómar röddin þín,

svo rík í hjarta mér.

Er nóttin kemur, dagur dvín,

í draumi ég er hjá þér.

(Jenni Jóns)

Valdís.

Mér er ljúft að minnast elsku Siddýjar vinkonu minnar og nágranna til margra ára. Kynni okkar hófust þegar ég flutti á Þrúðvanginn í næsta hús við Siddý, Guðmund og dætur. Okkur varð strax vel til vina og áttum hestamennskuna fyrir áhugamál sem leiddi okkur saman í fyrstu. Ég var svo heppin að fá hesthúspláss hjá Sólveigu mömmu hennar og var hjá henni í Dalnum í tvo góða vetur.

Siddý var einstaklega hress og skemmtileg og gaman að spjalla við hana um allt milli himins og jarðar. Hún hafði sterkar skoðanir og sagði þær alveg umbúðalaust, var slétt sama hvað öðrum fannst. Hún var stríðin og hafði gaman af að ögra og hleypa fjöri í leikinn, en hún var líka góður hlustandi og kom með ráð og ráðleggingar þegar þess þurfti. Alltaf fín og flott með skart og auðvitað varalit. Henni fannst að ég ætti líka að vera með varalit! Var mikil félagsvera og vildi láta gott af sér leiða. Hún tók upp hanskann fyrir þá sem henni fannst hallað á eða minna máttu sín. Hún talaði gott mál og átti auðvelt með að tjá sig í ræðu og riti. Siddý var höfðingi heim að sækja. Veislurnar hjá henni voru engu líkar, þvílíkur matur og kökur, allt svo gott sem hún gerði og skreytt eins og eftir flottasta bakara. Það eru ófáar uppskriftirnar í minni bók sem á stendur „frá Siddý“. Siddý var algjör dugnaðarforkur og mér fannst hún bara kunna og geta allt.

Siddý og Guðmundur voru einstaklega samhent hjón og góðir vinir. Þau báru mikla virðingu hvort fyrir öðru og áttu fallegt samband.

Börnin mín, Elín og Hrafn, elskaði hún sem sín eigin. Frá fyrstu tíð var heimili hennar eins og þeirra annað heimili og voru þau oftast þar í hálfu fæði. Við borðuðum um sexleytið en hjá Siddý var matur kannski 2-3 tímum seinna og þá borðuðu þau þar líka. Elín spurði eitt sinn hvort þau væri ekki orðin svöng. Hrafni, pabba þeirra, fannst einhvern tímann nóg um þegar við vorum í heimsókn og Elín fór í ísskápinn að fá sér eitthvað. Pabbi hennar bannaði henni það en Siddý sagði honum að skipta sér ekki af því, hún réði hér. Og umburðarlyndið hjá Guðmundi, örugglega var hann oft þreyttur eftir langan vinnudag, en aldrei sagði hann styggðaryrði við þau. Þau fengu að fara með þeim í sumarbústaðinn og ótalmargt annað.

Það var átakanlegt að horfa á Siddý mína hverfa inn í annan heim hægt og bítandi, ótrúlega sárt.

Ég kveð hana með miklu þakklæti fyrir allt sem hún kenndi mér og allt sem hún gerði fyrir mig og mína.

Guðmundi, Sólveigu, Kristínu, Valdísi og fjölskyldum þeirra sendum við Hrafn okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Iða Brá.

Við vorum heppin systkinin að hafa hana Siddý í næsta húsi allan okkar uppvöxt. Alltaf vorum við velkomin til hennar, hvort sem það var í mat eða leik. Þegar við systkinin rifumst sem mest þá skiptumst við á að flýja yfir til Siddýjar. Þar var alltaf gott að vera. Hún tók okkur eins og sínum eigin barnabörnum. Knúsaði okkur og dældi í okkur sælgæti. Aldrei skammaði hún okkur, bara hrósaði. Við máttum alltaf koma með í hesthúsið þegar við vildum og fórum stundum með þeim Guðmundi í sumarbústaðinn þeirra. Siddý hafði mikið gaman af því að gefa fólki að borða og þar vorum við systkinin engin undantekning. Það voru ófá kvöldin þar sem við vorum í mat hjá henni. Siddý var sjálfmenntaður talmeinafræðingur. Við minnumst þess þegar hún setti skeið á tunguna í Elínu og reyndi að kenna henni að segja G og K. Það skipti engu máli þótt hún hafi kúgast á meðan. Áfram hélt æfingin. Þetta skyldi takast.

Siddý er ein albesta manneskja sem við höfum kynnst. Falleg að innan sem utan. Hennar gleði var að gleðja aðra. Það voru rausnarlegar gjafirnar sem við fengum frá henni alla tíð. Hún lagði sig mikið fram við að gleðja okkur og skilaði yfirleitt líka til okkar pökkum frá jólasveininum, sem oftast hitti svo á að kom þegar við vorum ekki heima. Alúðin sem lögð var í að pakka inn, þetta var gert með svo mikilli gleði og væntumþykju.

Nú er Siddý okkar komin til Sólveigar ömmu. Við vitum að það hafa orðið miklir fagnaðarfundir. Minning um yndislega konu lifir í hjörtum okkar um ókomna tíð.

Hver minning dýrmæt perla að liðnum lífsins degi,

hin ljúfu og góðu kynni af alhug þakka hér.

Þinn kærleikur í verki var gjöf, sem gleymist eigi,

og gæfa var það öllum, er fengu að kynnast þér.

(Ingibj. Sig.)

Elín og Hrafn.

Við andlát Ernu vil ég þakka og minnast þeirra góðu ára sem við áttum saman, meðal annars þegar hún var formaður sjálfstæðiskvennafélagsins Vorboða í Hafnarfirði. Á þeim árum átti hún foreldra á lífi, gift Guðmundi sínum og stelpurnar hennar þrjár allar heima. Hún var líka í hestamennsku og taldi ekki eftir sér að vera formaður fyrir svo mektugu og öflugu félagi sem Vorboðinn er. Kraftur fylgdi fasi Ernu sem var dugleg í öllu því sem hún tók sér fyrir hendur. Í formennsku sinni stóð Erna sterk í stafni, fylgdi eigin sannfæringu og lá ekki á skoðun sinni. Hún bauð okkur stjórnarkonum heim og hélt þá miklar veislur en hún var rómuð fyrir myndarskap, matargerð og bakstur. Á þessum tíma var margt að gerast í flóru lífsins, nýir tímar blöstu við. Ungur formaður tók við Sjálfstæðisflokknum þegar hún var í forystu Vorboða, en hann breytti ásýnd flokksins. Kvennalistinn varð til og mikil vakning varð meðal kvenna í stjórnmálum og fór Vorboðinn ekki varhluta af því. Skemmtilegir tímar koma ljóslifandi upp í hugann og verða varðveittir í safni minninganna. Kæri Guðmundur, dætur og fjölskyldur, ég votta ykkur hugheila samúð vegna andláts Ernu. Minning hennar lifir.

Valgerður Sigurðardóttir.

„Ástin mín!“ Alltaf fékk ég sömu fallegu móttökurnar hjá henni Siddý minni, opinn faðm og háróma glaðlegt „ástin mín“ og svo gott knús. Ég kynntist Siddý og hennar dásamlegu fjölskyldu sem barn þegar foreldrar mínir urðu nánir vinir þeirra hjóna og einnig foreldrum hennar Siddýjar, þar sem við leigðum hjá Sólveigu og Kristni á Arnarhrauninu. Ég var bara þriggja ára þegar þetta var en síðan þá hefur Siddý, hlýja hennar og ást fylgt mér. Hún var stóra Siddý og ég var litla Siddý og við vorum nöfnur og áttum því eitthvað sameiginlegt bara hún og ég. Hún og hennar fjölskylda hafa verið svo stór og mikilvægur hluti af mínu lífi; þó að við flyttum snemma til Svíþjóðar hafði það aldrei nein áhrif á hvað faðmurinn var ávallt galopinn og hvað það var kallað hátt ástin mín þegar við komum í heimsókn.

Matarboð hjá Siddý eru ógleymanleg, hún sem manneskja kenndi mér að í lífinu á maður ekki að spara smjörið og rjómann heldur leyfa sér að njóta og lifa til fulls. Hún var epískur lífskúnstner með stóran persónuleika og heimurinn er aðeins litlausari án hennar. Mér þótti óendanlega vænt um hana og ég þakka innilega fyrir kynnin. Ég votta Guðmundi, Sólveigu, Kristínu og Valdísi, ásamt mökum og börnum, samúð mína.

Sigurlaug Lydía Geirsdóttir.