Gunnlaug Sverrisdóttir fæddist í Reykjavík 23. maí 1940. Hún lést á hjúkrunarheimili Hrafnistu við Sléttuveg 10. mars 2022.

Foreldrar hennar voru Sverrir Sverrisson húsasmíðameistari, f. 7.11. 1884, d. 7.3. 1958, og Guðrún Magnúsdóttir húsfreyja, f. 17.5. 1897, d. 12.3. 1958. Systkini Gunnlaugar eru: Sverrir, f. 11.11. 1918, d. 14.4. 1989, Gunnar, f. 10.10. 1929, d. 4.8. 1936, og Guðlaug, f. 21.11. 1931, maki Magnús Einarsson, f. 3.1. 1937.

Gunnlaug giftist hinn 18. september 1965 Sigurði Þóri Gústafssyni aðalféhirði, f. 4.1. 1939, d. 31.8. 2008. Foreldrar Sigurðar voru Gústaf Adolf Ágústsson endurskoðandi, f. 31.5. 1908, d. 29.9. 1986, og Karítas Jochumsdóttir húsfreyja, f. 21.9. 1911, d. 18.1. 1962, s.k. 3.9. 1966, Nanna Káradóttir klæðskerameistari, f. 1.3. 1912, d. 14.6. 1978. Synir Gunnlaugar og Sigurðar eru 1) Gústaf, f. 29.5. 1967, maki Candra Farida Simanjuntak, f. 25.3. 1981, barn þeirra Bryndís Anna. 2) Sverrir, f. 9.5. 1968, maki Auður Daníelsdóttir, f. 18.6. 1969, börn þeirra Guðný Sif og Hanna Guðrún. 3) Gunnar Már, f. 13.8. 1970. 4) Árni, f. 12.9 1977, maki Elín K. Guðmundsdóttir, f. 14.2. 1977, dóttir þeirra er Gunnlaug Eva og eldri börn eru Jónína Ósk og Magnús Yngvi.

Systkini Sigurðar eru 1) Guðmundur G., f. 15.9. 1935, d. 19.12. 2011. 2) Oddur, f. 27.3. 1941, d. 25.8. 2021. 3) Sigrún, f. 28.1. 1945. 4) Diljá Margrét, f. 26.1. 1947.

Gunnlaug ólst upp í Vesturbænum, gekk í Melaskóla og útskrifaðist frá Kvennaskólanum í Reykjavík 1957. Hún starfaði í veðdeild Landsbanka Íslands frá 1957 til 1965, við bókhald hjá Stokkahúsum frá 1980 til 1985 og á Skóladagheimilinu Dalbrekku frá 1985 til 1987. Eftir það starfaði hún sem læknaritari á Landspítalanum til ársins 2002, fyrst á hjartadeild og síðar á röntgendeild. Gunnlaug bjó ásamt Sigurði í Englandi árið 1975 ásamt þremur eldri sonum þeirra.

Gunnlaug verður jarðsungin frá Bústaðakirkju í dag, 29. mars 2022 og hefst athöfnin kl. 13.

Hlekkur á streymi:

https://www.mbl.is/andlat

Í dag kveð ég elskulega tengdamömmu mína Gunnlaugu. Frá okkar fyrstu kynnum fyrir rúmum 19 árum þá tók hún á móti mér með útbreiddan faðm og kærleika. Ég var ung og kom ekki ein í fjölskylduna heldur með tvö ung börn. Það skipti hana ekki máli, hún tók á móti okkur eins og við hefðum alltaf verið í fjölskyldunni. Það myndaðist strax sterk tenging á milli okkar sem lifði alveg fram í andlát hennar. Hún var einstök kona: ljúf, hugulsöm og hófsöm. Konan sem vildi allt fyrir alla gera og aldrei heyrði maður hana segja neitt neikvætt um aðra. Hún hafði sínar skoðanir og fór vel með þær ef henni fannst eitthvað ekki vera rétt þá notaði hún þau orð „mér finnst þetta ekki sniðugt“, fleiri orð þurfti ekki að hafa um það.

Við Gunnlaug áttum margar samverustundir, hvort sem það voru ferðalög erlendis, innanlands, kaffihús, út að borða eða þá að baka í eldhúsinu í Dalalandinu. Eftir samverustundir með fjölskyldunni kvaddi hún mann alltaf í glugganum í svefnherberginu í Dalalandinu og veifaði manni bless og sá til þess að maður æki nú varlega í burtu. Hún var meðvituð um hvað allir væru uppteknir og gerði engar kröfur á tíma annarra heldur gaf hún sinn tíma endalaust til fjölskyldunnar.

Hún kunni svo sannarlega að njóta litlu og stóru hlutana í lífinu og velti sér lítið upp úr því hvað aðrir væru að gera. Það þótti mér alltaf sannarlega góður eiginleiki og ég hef reynt að tileinka mér í mínu lífi með leiðsögn Gunnlaugar.

Þegar ég var að klára mína mastersritgerð í náminu mínu þá skrifaði ég ritgerðina í Dalalandinu. Hún kom alltaf reglulega til mín og spurði hvernig gengi og ekki má gleyma, hvað má bjóða þér með kaffinu. Það var þá heimagert sem hún var búin að baka um morguninn. Þetta eru sannarlega stundir sem ég mun alltaf muna eftir. Gunnlaug lagði mikla rækt við öll sín barnabörn og eiga þau öll sínar góðu minningar með ömmu Gunnlaugu eða afa Sigurði.

Gunnlaug átti nöfnuna Gunnlaugu Evu sem var henni einstaklega kær eins og öll hin barnabörnin, en á milli þeirra var sérstök tenging þar sem, eins og Gunnlaug orðaði það sjálf, „hún gaf mér svo mikið þegar Sigurður lést fyrir tæpum 14 árum“. Samband þeirra hjóna Gunnlaugar og Sigurðar var kærleiksríkt, samheldið og hamingja sem einkenndi þau hjónin. Þau lifðu fyrir hvort annað. Gunnlaug Eva fékk að njóta ömmu sinnar og eiga þær margar minningar saman. Amma Gunnlaug sá um að sækja hana í Ísaksskóla allan hennar tíma þar. Þessar stundir voru þeim nöfnum mikilvægar. Undir það síðasta þá vildi hún fá að heyra allt um fermingu Gunnlaugar Evu sem fermdist þann 26. mars síðastliðin. Hún hefði sannarlega notið þess að vera með okkur á þeim degi en var hvíldinni fegin og glöð að fá að hitta Sigurð sinn á ný. Ég er viss um að hún naut dagsins með okkur í anda.

Elsku Gunnlaug, ég mun minnast þín í minningunum okkar saman og þakka fyrir allt sem þú gerðir fyrir mig og kenndir mér. Takk fyrir að vera amma barnanna minna. Þú gafst okkur allt sem þú áttir með einstökum kærleika og umhyggjusemi.

Þín

Elín Kristín

Guðmundsdóttir.

Eftir langan og strangan vetur hefur Gunnlaug tengdamóðir mín kvatt þennan heim. Hún var einstaklega hjartahlý, traust og góð manneskja. Hún var einungis 17 ára þegar hún missti báða foreldra sína með tæplega viku millibili. Á þeim tímapunkti var hún starfsmaður Landsbankans þar sem hún kynntist Sigurði en þau giftu sig árið 1965. Þau hjónin eignuðust fjóra syni og var Gunnlaug heimavinnandi þar til þeir voru komnir á legg en þá fór hún aftur út vinnumarkaðinn og vann sem læknaritari fram til ársins 2002.

Gunnlaugu var margt til lista lagt, hélt glæsileg jólaboð fyrir stækkandi fjölskylduna. Hún var alltaf boðin og búin að aðstoða og lét sig ekki muna um að baka eina dýrindis köku við hin ýmsu tækifæri og þegar afmæli eða önnur tilefni voru þá sagðist hún ætla að skella í eina en kom svo með hlaðborð með sér. Sunnudaginn fyrir bolludag var veisla hjá Gunnlaugu.

Hún hélt vel utan um fjölskyldu sína og var yndisleg amma sem tók virkan þátt í uppeldi barnabarnanna. Henni leið vel með prjónana sína og það stóð ekki á listaverkunum. Hún töfraði fram hverja glæsiflíkina af annarri á barnabörnin sín og á okkur sem eldri vorum sem vöktu athygli annarra. Haustið 2018 fórum við til London sem var eftirminnileg ferð á svo margan hátt. Fengum okkur eftirmiðdagste á Hótel Ritz og nutum þess að vera í fallega umhverfinu sem hótelið hefur upp á að bjóða. Hún naut þess að rifja upp þann tíma sem þau hjónin höfðu búið í heimsborginni með unga syni sína.

Tengdaforeldrar mínir voru gott fólk og samrýnd hjón þar til Sigurður lést í lok sumars 2008. Ég er lánsöm að hafa átt samleið með Gunnlaugu í mörg ár og á þeim hjónum mikið að þakka hve vel þau hafa reynst okkur fjölskyldunni. Guð blessi minningu Gunnlaugar.

Auður.

Tvær sjö ára telpur hittust fyrsta sinni haustið 1947 í fína, nýja Melaskólanum í Vesturbænum. Og urðu svo heimagangar hvor hjá annarri og vinkonur alla ævi. Við Gunnlaug vorum svo heppnar að vera í C-bekknum og hafa dásamlegan kennara, Sigríði Eiríksdóttur, öll barnaskólaárin og vorum við bekkjarsystkinin um 30 talsins. Sigríður lagði áherslu á fallega skrift og tók gjarnan börn úr eldri bekknum sínum inn í tíma til yngri bekkjarins til að láta þau æfa sig að skrifa með krít á töfluna. Við Gunnlaug urðum þessa aðnjótandi og vönduðum okkur vel og skrifuðum eftir það svo líkt að vart mátti á milli sjá.

Erfitt reyndist okkur báðum að læra að synda vegna vatnshræðslu og hörku sundkennarans. Við fengum að fara að sumri til á sundnámskeið í lítilli laug. Þar kenndi Gunnlaug mér að synda af mikilli þolinmæði, gekk um alla laugina og hélt undir magann á mér þangað til árangri var náð. Við vorum fermingarsystur í Dómkirkjunni hjá séra Óskari J. Þorlákssyni, síðasti árgangurinn í hvítum síðum fermingarkjólum.

Þegar barnaskólaárunum lauk fórum við nokkrar bekkjarsystur saman í Kvennaskólann í Reykjavík, sem þá bar enn nafn með rentu, og vorum áfram í sama bekk. Við andlát Gunnlaugar erum við aðeins þrjár eftir, Elín, Lovísa og undirrituð, sem vorum bekkjarsystur í samfelld 10 ár.

Elsku Gunnlaug, sem ætíð var svo blíð og hógvær, átti það samt til að koma öllum á óvart. Skella sér með á ókunnar slóðir innanlands. Minnist ég ferða með Ferðafélagi Íslands í Þórsmörk um páska á sjötta áratugnum og gönguferðar um Landmannalaugar þegar þessir staðir voru fáfarnir. Eins dreif hún sig norður í Prestbakka í fimmtugsafmælið mitt.

Heima hjá fjölskyldunni á Ránargötu 44 áttum við vinkonurnar margar góðar stundir. Einlæg var samúð okkar og sorg þegar foreldrar Gunnlaugar létust með fimm daga millibili. Sverrir kvaddi heiminn 7. mars 1958 og Guðrún varð bráðkvödd á heimili þeirra 12. mars. Andlátsstund yngsta barnsins þeirra ber upp á miðja þessa sorgarviku.

Við héldum hópinn Kvennaskólastúlkurnar og komum saman á heimilunum, oftar en ekki á fallegu heimili Gunnlaugar og Sigurðar og drengjanna þeirra í Dalalandinu. Það sanna fjölmargar myndir sem teknar voru við þau tækifæri og ljóma af gestrisni þeirra og vináttu. Sigurður reyndist okkur vel á fleiri vegu en hann bjó til símaskrána okkar 18 sem saman vorum til loka fjórða bekkjar, IV.Z. Þar settu þau Gunnlaug inn helstu upplýsingar og jafnvel fæðingarár barnanna okkar eftir því sem þau bættust við. Á forsíðu er útskriftarmyndin 1957 af dragtarklæddum ungmeyjum. Síðasta dýrmæta símaskráin kom í maí 2006. Nú er kominn kross við helming nafnanna.

Guð blessi góðu minningarnar og þakklætið fyrir samveruna í 75 ár. Innilegar samúðarkveðjur til Guðlaugar systur, sonanna og fjölskyldna þeirra. Þau voru öll líf og yndi móður og ömmu allt til enda.

Guðrún L. Ásgeirsdóttir.

Sorgarfréttir voru að heyra að þú hefðir kvatt þessa jörð, elsku mágkona. Þú þessi blíða og umhyggjusama manneskja, sem allir virtu ef þeir höfðu samskipti við þig. Sannkallaður engill á jörð. Söknuðurinn er mikill, og enn einn auður stóll bætist í tómarúmið þegar ég kem heim til Íslands næst.

Þú varst stóra ástin hans Sigga bróður, og ég man enn þá þegar hann sagði mér að þú værir sú sem hann ætlaði að giftast. Við vorum í herberginu hans í kjallaranum á Laugateignum, ég var að búa mig undir að fara sem skiptinemi til Bandaríkjanna þegar hann trúði mér fyrir þessu. Mér fannst þetta alveg æðislegt, vissi hver þú varst í gegnum KFUK, og jafn virkur og Siggi var í KFUM var þetta bara himneskt samband að mínu mati. Þetta var það líka. Fjórir synir, með stuttu millibili, og heldur betur fjörugt heimili. Man eftir að koma í heimsókn frá Ameríkunni og strákarnir áttu að vera upp á sitt besta, en áður en við fórum var búið að umturna stofunni og húsgögnum, en þú, elsku Gunnlaug, og Siggi voruð hin rólegustu, þetta voru bara börnin að leika sér.

Þið Siggi reyndust akkeri Laugateigsfjölskyldunnar. Ef eitthvað lá á þá var leitað til ykkar. Alltaf var tekið á móti manni með rausn og umhyggju. Missirinn var mikill fyrir þig, og okkur öll hin, þegar Siggi kvaddi okkur 2008. En við vitum að vel verður tekið á móti þér í draumalandinu, og þú átt það skilið.

Ég votta systur þinni Guðlaugu, sonum þínum Gústafi, Sverri, Gunnari, Árna og þeirra fjölskyldum innilega samúð og bið þau að varðveita allar góðu minningarnar.

Sigrún Gústafsdóttir.

Þessa umhleypingasömu marsdaga leitar hugur minn ósjálfrátt til ársins 1958 er ég kynntist Gunnlaugu Sverrisdóttur. Ég hafði reyndar séð hana oft áður þar sem Guðlaug systir hennar var vinkona mín, en í mars árið 1958 létust foreldrar þeirra með nokkurra daga millibili og eftir það var Gunnlaug alltaf með okkur og bundumst við vináttuböndum sem aldrei slitnuðu. Saman unnum við í Sumarbúðum KFUK í Vindáshlíð, unglingadeild KFUK við Amtmannsstíg, unglingastarfi Neskirkju, stjórn Vindáshlíðar og seinna í Basarnefnd KFUK. Alls staðar lét Gunnlaug gott af sér leiða enda var hún sérlega vönduð, orðvör, ósérhlífin og hjálpsöm. En það var ekki aðeins í félagsmálum sem við áttum samleið. Tómstundum okkar eyddum við flestum saman. Eitt sumarið fórum við Gunnlaug í ógleymanlega ferð um Vestfirði og eftir að systurnar eignuðust bifreið ferðuðumst við vinkonurnar þrjár um landið ásamt Gyðu vinkonu okkar á bíl þeirra systra og gistum í tjaldi, það voru góðir dagar.

Gunnlaug var gæfukona í einkalífi, hún giftist Sigurði Þ. Gústafssyni og saman eignuðust þau fjóra syni. Þau Sigurður voru afar samhent um að búa sonum sínum gott heimili og var heimili þeirra ætíð opið vinum drengjanna sem og vinum þeirra hjóna enda gestrisin með afbrigðum. Ég fylgdist með drengjunum vaxa og dafna og tók þátt í hátíðarstundum fjölskyldunnar og gladdist með þeim þegar drengjunum vegnaði vel og þegar þeir stofnuðu sín eigin heimili.

Enda þótt þau Sigurður hefðu fyrir stóru heimili að sjá, létu þau það ekki aftra sér í að taka þátt í sjálfboðastarfi fyrir KFUM og K og gott var að leita til þeirra ef vantaði fólk til starfa í vinnuflokkum í Vindáshlíð.

Eftir fráfall Sigurðar tókum við Gunnlaug að ferðast saman á ný, en Gunnlaug var einstakur ferðafélagi, tillitssöm og jákvæð. Flestar ferðirnar voru farnar hér innanlands en eitt haustið hvöttu þær systur mig til að fara með þeim til Englands. Englandsferðin var síðasta sameiginlega ferð okkar og er ánægjulegt að minnast hennar.

Síðustu tvö árin dvaldi Gunnlaug á Hrafnistu á Sléttuvegi. Þar fór vel um hana og voru synir hennar, tengdadætur og barnabörn dugleg að vitja hennar og fara með hana heim á heimili sín.

Að leiðarlokum er efst í huga mér þakklæti fyrir óteljandi ánægjustundir sem ég átti með elskulegri vinkonu og fjölskyldu hennar. Guð blessi þau öll.

Betsy.