[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Geirþrúður Charlesdóttir fæddist 27. mars 1932 á Ísafirði, ólst þar upp og hefur búið þar alla tíð. „Ég bjó á Eyrinni sem barn en átti síðan heima í Hlíðinni,“ segir Geirþrúður aðspurð. „Ég fer aldrei héðan, ég verð síðasti móhíkaninn.

Geirþrúður Charlesdóttir fæddist 27. mars 1932 á Ísafirði, ólst þar upp og hefur búið þar alla tíð. „Ég bjó á Eyrinni sem barn en átti síðan heima í Hlíðinni,“ segir Geirþrúður aðspurð. „Ég fer aldrei héðan, ég verð síðasti móhíkaninn.“ Hún var hluta af sumri á Laugabóli í Ísafjarðardjúpi hjá Sigurði Þórðarsyni, syni Höllu Þórðardóttur skáldkonu.

Eftir nám í gagnfræðaskóla vann Geirþrúður við verslunar- og skrifstofustörf og einn vetur var hún við nám í Húsmæðraskólanum Ósk á Ísafirði. Geirþrúður starfaði m.a. í Bókaverslun Jónasar Tómassonar í meira en tvo áratugi. Síðast starfaði hún sem aðalgjaldkeri hjá Sýslumannsembættinu á Ísafirði.

Geirþrúður var bæjarfulltrúi í tólf ár og hefur gegnt mörgum störfum fyrir Ísafjarðarkaupstað. Hún var formaður barnaverndarnefndar í áratug, átti sæti í skólanefnd grunnskólans í 20 ár og menningarráði til fjölda ára. Þá beitti hún sér mjög fyrir málefnum aldraðra og menningarmálum almennt. „Þetta kom af sjálfu sér að taka þátt í félagsmálum og svo elti hvað annað.“

Geirþrúður var ein af þeim konum sem stofnuðu styrktarsjóð til byggingar Tónlistarskólans á Ísafirði og segir hún að það hafi verið bæði göfugt og skemmtilegt starf og minningarnar ljúfar.

Geirþrúður er einn af stofnendum Sjálfstæðiskvennafélags Ísafjarðar og var formaður þess í mörg ár og er fyrsta konan sem var formaður kjördæmisráðs Sjálfstæðisflokksins á Vestfjörðum.

Geirþrúður var félagi í Sunnukórnum og var aðeins 14 ára er hún söng með kórnum í fyrsta sinn, við fermingarmessu skólasystkina sinna viku á eftir sinni eigin fermingu. Þá hefur hún unnið mikið að málefnum kirkjunnar og var í föstu starfi við kirkjuna í um 25 ár með fram öðrum störfum, hún var ein af stofnendum kvenfélags kirkjunnar og var formaður félagsins í mörg ár. Geirþrúður er líka einn af stofnendum Oddfellowstúkunnar á Ísafirði og hefur gegnt þar ýmsum trúnaðarstörfum.

Geirþrúður varð 90 ára á sunnudaginn og var haldin afmælisveisla í Reykjavík sama dag. „Börnin héldu mér veislu. Þetta var yndislegur dagur og ég vil þakka öllum sem gerðu þennan dag að veruleika.“ Þakklæti er Geirþrúði einnig efst í huga þegar hún lítur til baka yfir ævina. „Þakklæti fyrir þau störf sem ég hef fengið að koma nálægt og þakklæti til allra vina minna og starfsfélaga. Ég hef víða komið við og á mikið af góðum vinum, jafnt ungum sem gömlum.“

Fjölskylda

Geirþrúður giftist 12.12. 1953 Jóni B. Guðjónssyni, f. 21.10. 1929, d. 4.3. 2009, járnsmíðameistara. Foreldrar hans voru hjónin Guðjón D. Brynjólfsson, f. 19.10. 1887, d. 29.3. 1978, sjómaður og verkamaður, og Guðrún Jónsdóttir, f. 1.5. 1897, d. 7.5. 1988, húsmóðir og verkakona. Þau voru búsett á Ísafirði.

Börn Geirþrúðar og Jóns eru: 1) Ólöf, f. 14.8. 1953, læknaritari við Landspítalann, búsett í Reykjavík. Maki: Jóhann Á. Gíslason, rannsóknarmaður hjá Hafró, þau eiga fjögur börn: Jón Geir, f. 14.11. 1975, Tuma Þór, f. 16.3. 1978, Maríu Guðbjörgu, f. 2.1. 1980, og Guðríði, f. 24.6. 1992; 2) Guðjón Davíð, f. 3.11. 1956, grafískur hönnuður, búsettur í Reykjavík. Maki: Brynja Margeirsdóttir kennari, þau eiga tvö börn: Gerði, f. 17.12. 1984, og Geirþrúði Ásu, f. 16.3. 1987; 3) Guðrún, f. 27.1. 1960, söngkona, búsett í Hnífsdal. Maki: Torfi Einarson, fv. tryggingaforstjóri, þau eiga tvö börn, Sigrúnu Lísu, f. 1.3. 1998, og Einar Torfa, f. 25.3. 2000. Að auki á Geirþrúður nú orðið fjórtán barnabarnabörn og eitt barnabarnabarnabarn.

Bróðir Geirþrúðar er Guðbjörn, f. 3.7. 1938, fv. umdæmisstjóri flugvalla á Vestfjörðum, maki: Sigrún Jóhannsdóttir, fóstursonur þeirra er Rúnar Örn Rafnsson.

Foreldrar Geirþrúðar voru hjónin Charles Bjarnason, f. 10.3. 1906, d. 13.10. 1986, vegaverkstjóri, fæddur á Akureyri. Kom til Ísafjarðar sex ára með foreldrum sínum og tveimur bræðrum og bjó þar alla tíð, og Ólöf Jónsdóttir, f. 8.5. 1904, d. 5.1. 1986, húsmóðir, fædd á Kirkjubæ í Skutulsfirði en bjó allan sinn aldur á Ísafirði.