Endurupptökudómur hafnaði á fimmtudag beiðni Árna Harðarsonar og Róberts Wessman um endurupptöku á dómi Hæstaréttar frá 18. febrúar 2018. Þar voru þeir ásamt Magnúsi Jaroslav Magnússyni dæmdir til að greiða Matthíasi H. Johannessen 640 milljónir króna fyrir að hlunnfara hann í viðskiptum.
Árni og Róbert fóru fram á að málið yrði endurupptekið á grundvelli þess að tiltekin gögn hefðu ekki legið fyrir við rekstur málsins fyrir Hæstarétti og því væri um að ræða ný gögn. Endurupptökudómur komst aftur á móti að þeirri niðurstöðu að gögnin hefðu enga þýðingu í málinu og endurupptöku þess því hafnað.
Matthías taldi sig hafa verið hlunnfarinn af viðskiptum félags í sameiginlegri eigu hans og endurupptökubeiðenda og Magnúsar Jaroslavs Magnússonar, sem keypti hlut í lyfjafyrirtækinu Alvogen, en endanleg upphæð er mun hærri, enda reiknast hún með vöxtum frá júlí 2010 og dráttarvöxtum frá árinu 2010.
Hafði Matthías farið fram á alls 3,1 milljarð króna í bætur vegna málsins en varakrafa hljóðaði upp á 640 milljónir.