Kínversk stjórnvöld ákváðu í fyrradag að setja útgöngubann á austurhluta borgarinnar Sjanghaí til að stemma stigu við uppgangi kórónuveirufaraldursins þar. Um 3.500 ný tilfelli greindust þar í gær, en það er hið mesta sem greinst hefur í borginni frá upphafi faraldursins.
Yfirvöld í borginni hafa nú reynt í um þrjár vikur að ná tökum á faraldrinum með því að loka ákveðnum hverfum í skamman tíma í senn. Útgöngubannið sem hófst í gær mun vara fram til föstudags, og ætla stjórnvöld að nýta tímann til að skima fyrir veirunni. Eftir það mun vesturhluti borgarinnar fara í útgöngubann í viku. Um 25 milljón manns búa í Sjanghaí, sem er helsta fjármálamiðstöð Kína.
Tilkynningin um útgöngubannið leiddi til örtraðar í matvöruverslunum, þar sem íbúar höfðu einungis nokkra klukkutíma til að undirbúa sig fyrir vikuna.